132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessi fyrirspurn gerir mig mjög hugsi. Eitt er að það hlýtur að vera ámælisvert að stjórnvöld á hverjum tíma séu að misnota fé almennings til að gera rándýrar skoðanakannanir til að spyrjast fyrir um hugðarefni stjórnmálaflokkanna. Hvenær skyldi Framsóknarflokkurinn til að mynda ætla að framkvæma skoðanakönnun meðal fólksins í landinu og spyrja hvaða skoðun það hafi á því hvaða afleiðingar kvótakerfið hafi haft fyrir byggðir í landinu, hvenær skyldi það nú gerast? Fyrr mun sennilega botnfrjósa í víti áður en við sjáum það verða að veruleika.

Annað er það sem kemur hér fram varðandi hlut Gallups í þessu sem gerir mig mjög hugsi og ég hygg að Gallup þurfi hreinlega að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli og upplýsa okkur um hver það er sem hér er að segja sannleikann. Er það hæstv. ráðherra eða er það Gallup? Við þessu þurfum við að fá svör. Trúverðugleiki Gallups er í stórhættu.