132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að taka fram að eftir að þessi mál fóru í umræðu og eftir að gengið var eftir hver ætti hér sök á birtist í Dagblaðinu 10. mars sl. viðtal við Þóru Ásgeirsdóttur sem segir, með leyfi forseta:

„Við spurðum þessarar spurningar en hún fór ekki inn í skýrsluna vegna þess að iðnaðarráðuneytið bað ekki um þetta,“ sagði Þóra Ásgeirsdóttir

Þrátt fyrir að gott geti verið að gera skoðanakannanir hljótum við engu að síður að þurfa að velta vöngum yfir framkvæmd þeirra, fyrir hverja þær eru gerðar og undir stjórn hverra.

Ég tek hins vegar undir orð Adolfs Berndsens að það getur verið gott að gera skoðanakannanir. Til dæmis voru hvað eftir annað gerðar skoðanakannanir um viðhorf til sölu Símans og það endaði þannig að það voru milli 70 og 80% á móti sölu Símans. Samt var hann seldur, samt seldi Framsókn Símann, það var nú ekki tekið meira mark á því. Hver skoðanakönnunin á fætur annarri í þrjú ár í röð sýndi afgerandi og stóran meiri hluta þjóðarinnar gegn sölu Símans en samt var hann seldur.

Hitt vekur svo aftur athygli þegar iðnaðarráðherra beitir skoðanakönnun sem áróðurstæki fyrir einn afmarkaðan málstað sem er ál, ál og aftur ál. Norðlendingar voru spurðir nákvæmlega sömu spurningar fyrir ári síðan og voru ekki hlynntir því, nema mjög takmarkað. Hvað um það, ég ætla ekki að fara út í niðurstöður skoðanakönnunarinnar sem slíkrar. En ári seinna fer iðnaðarráðherra, hluti af framkvæmdarvaldinu, aftur af stað með nákvæmlega sömu spurningarnar: Viltu ál? Því fylgir nánast, viltu ál eða ekkert? Ál, ál, ál. Þetta er svona sefjandi áróður og framkoma sem að mínu viti er engan veginn (Forseti hringir.) sæmandi iðnaðarráðherra nema hún eigi sér þarna (Forseti hringir.) til afsökunar þennan endalausa áldraum.