132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hverjir eru það sem hafa frumkvæði að því að það er talað um ál á hv. Alþingi, hverjir skyldu það nú vera? Er það ég sem iðnaðarráðherra, er það ríkisstjórnin almennt? Nei, það er stjórnarandstaðan. Það eru hv. þingmenn Vinstri grænna vegna þess að þeir vilja að það sé endalaust verið að tala um ál og þeir vilja að það líti þannig út að ríkisstjórnin ætli að koma niður álveri í hverjum firði, sem er alls ekki. Þetta er nú bara svona. (Gripið fram í.)

Það kemur mér svo sem ekki á óvart þó að hv. þm. Jón Bjarnason sé líka á móti skoðanakönnunum. Hann er á móti öllu, það er ekki ný frétt fyrir mér.

Þessi könnun leiddi það t.d. í ljós að minni hluti Skagfirðinga vildi álver í Skagafirði. Voru það ekki ágætisfréttir fyrir hv. þingmann, hann hlýtur að hafa glaðst yfir því? Hins vegar vill meiri hluti Skagfirðinga að álver sé byggt á Norðurlandi. Þar eru hlutföllin þau að 53,8% eru hlynnt, 26,8% andvíg, þannig að meiri hluti Skagfirðinga vill álver á Norðurlandi. Á Húsavík vill nánast hver maður að byggt verði álver. Og nú stendur hugsanlega til — það hefur ekki verið tekið ákvörðun um það — að byggja álver við Húsavík. (JBjarn: Meiri hluti er á móti virkjun Skjálfandafljóts.)

En það sem er nú kannski það skemmtilega við þetta er hvað Samfylkingin ætlar að reyna að bera kápuna á báðum öxlum í þessu máli. Á Húsavík standa samfylkingarmenn fyrir fögnuði daginn sem Alcoa tekur þessa ákvörðun, varaþingmaðurinn sem sagt, Örlygur Hnefill Jónsson. En hér á Alþingi er allt annar tónn uppi, allir virðast vera á móti. Hv. þm. Kristján Möller fær ekki að tala í þessum umræðum, er hafður einhvers staðar annars staðar en þeir sem tala eru allir á móti álverum. Ég mundi ekki bera höfuðið hátt ef ég væri fulltrúi slíks stjórnmálaflokks.

Mér finnst þetta bara rétt aðferð til þess að kanna (Forseti hringir.) hug manna til stórframkvæmda sem þessara. (JBjarn: Eigum við að spyrja aftur næsta ár?)