132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:42]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Stefna Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum er skýr. Við höfnum forgangi hinna efnameiri að heilbrigðiskerfinu. Við viljum ekki sjá tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem fólk getur borgað sig fram fyrir röðina á kostnað annarra, það kemur einfaldlega ekki til greina. Ef við leyfum fólki að kaupa sig fram fyrir aðra sem bíða eftir heilbrigðisþjónustu verður niðurstaðan sú að heilbrigðisstarfsfólk nýtist ekki öðrum á meðan. Þá er komin mismunun eftir efnahag og það mun Samfylkingin aldrei sætta sig við.

Það er hins vegar rétt að kalla eftir umræðu um þetta stóra grundvallarmál. Almenningur fær þá kost á því að sjá hvernig línur liggja. Það er nefnilega ekki víst að aðrir stjórnmálaflokkar hér á landi geti svarað þessari spurningu jafnskýrt og Samfylkingin. Hvað segir t.d. Sjálfstæðisflokkurinn?

Samfylkingin hefur sett sér ákveðin skilyrði fyrir öllum endurbótum í heilbrigðisþjónustunni. Þar stendur markmið jafnaðarstefnunnar um jafnan aðgang óháð efnahag óhaggað. Samfylkingin hafnar einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Við erum andvíg bandarísku kerfi í heilbrigðismálum þar sem efnahagur getur ráðið því hvort menn fái viðunandi þjónustu eða ekki.

Það er hins vegar grundvallarmunur á einkavæðingu og sjálfstæðum rekstri og Samfylkingin vill auka sjálfstæðan rekstur í heilbrigðiskerfinu. Í sjálfstæðum rekstri greiðir ríkið eftir sem áður fyrir þjónustuna en sjálfstæðir aðilar veita hana. Við höfum nú þegar mörg jákvæð dæmi um þetta. Rauði krossinn rekur t.d. sjúkrabílana og nánast öll hjúkrunarheimili landsins eru í sjálfstæðum rekstri.

Það er einkavæðing sem býður hættunni heim því að þá er hlutur ríkisins í kostnaði ekki lengur fyrir hendi. Einstaklingarnir greiða þá sjálfir og því höfnum við alfarið. Á þessu er því grundvallarmunur. Aukinn sjálfstæður rekstur í heilbrigðiskerfinu, t.d. af hálfu sjálfseignarstofnana, sjúklingahópa eða heilbrigðisstarfsfólks, getur einmitt mætt aukinni fjárþörf í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) án þess að hróflað verði við aðgangi allra að heilbrigðiskerfinu.