132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er rætt um skýrslu, hver gerir hvað er efni hennar. Það er margt jákvætt í þeirri skýrslu. Komið er inn á það sem hér er til umræðu, að efnafólk geti komist fram fyrir með því að greiða sérstaklega og eigi að fá sérstaka þjónustu. Það eru alveg fráleitar hugmyndir og í andstöðu við stefnu Frjálslynda flokksins sem kemur m.a. fram í málefnahandbók okkar. Svo virðist sem fulltrúar flokkanna sem skrifuðu undir þetta, þ.e. fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins, séu farnir að draga til baka stuðning sinn við að velta eigi þessum möguleikum fyrir sér, hvort efnafólk eigi rétt á betri þjónustu en aðrir og ætti að komast fram fyrir í röðinni.

Þetta eru fráleitar hugmyndir í okkar litla samfélagi. Ég er á því. Þetta er ekki leiðin til að komast hjá biðlistum. Við verðum að átta okkur á því að þessar hugmyndir gera ráð fyrir að biðlistar séu varanlegt ástand. Eitthvað sem menn verði að búa við. En það á að leysa. Við eigum að leysa hnútana í kerfinu þannig að við búum ekki við biðlista.

Í þessari skýrslu eru m.a. nefndar leiðir, t.d. að peningar fylgi verkefnum. Það er einmitt leiðin til að komast hjá því að búa til biðlista í heilbrigðiskerfinu. Við ættum að ræða um það í dag fremur en að þrír stjórnmálaflokkar gefi sér það sem framtíðarsýn að hægt verði að greiða sig fram hjá biðröðum. Hvers konar framtíðarsýn er það fyrir íslenskt þjóðfélag? Það er a.m.k. ekki skoðun okkar í Frjálslynda flokknum.

Við verðum líka að gæta að því að í dag var rætt um að á sjúkrahúsum er fólk sem þarf ekki að vera þar. Það er möguleiki á að ná fram sparnaði í kerfinu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í fyrra segir að yfir 100 manns séu í þessum sporum (Forseti hringir.) og bíði eftir úrræðum til að komast af sjúkrahúsunum. (Forseti hringir.) Ég tel að fremur eigi að nýta þau tækifæri í stað þess að horfa (Forseti hringir.) á hvernig eigi að borga sig fram hjá í röðinni.

(Forseti (DrH): Ég bið þingmann að virða ræðutímann.)