132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:55]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Þessi utandagskrárumræða fjallar um hvort efnameiri megi borga sig fram fyrir aðra í heilbrigðiskerfinu. Hugmyndin um að þeir sem hafi meira á milli handanna hafi möguleika á skjótari þjónustu með því að greiða fyrir hana sérstaklega var sett fram af nefnd um endurskilgreiningu verksviða innan heilbrigðisþjónustunnar. En hún lýsir ekki afstöðu nefndarmanna. Ég tek það fram að fulltrúi Samfylkingarinnar stendur að áliti nefndarinnar.

Umræða um þessi mál er mjög umfangsmikil í löndunum í kringum okkur og eðlilegt að ræða málin til hlítar hér líka. Ýmsir aðilar hérlendis hafa lagt áherslu á þetta atriði með þeim rökum að meira fjármagn fari inn í heilbrigðiskerfið og það geti þannig þjónað fleirum. Þetta er sjónarmið þótt ég taki ekki endilega undir það.

Í þessu sambandi er það einnig umhugsunarefni ef við ætlumst til að þeir sem eru efnameiri hafi lakari sjúkratryggingu þegar þeir hafa í raun, með sköttum sínum, lagt meira til samfélagsins heldur en margir aðrir. Í þessari umræðu vil ég leggja megináherslu á þá tillögu nefndarinnar að eftir sem áður verði ríkið meginkaupandi að heilbrigðisþjónustu fyrir hönd almennings og styrkja þurfi kaupendahlutverk þess.

Þá er líka lögð mikil áhersla á eflingu heimaþjónustu og að komið verði á nánara samstarfi milli heilsugæslu, hjúkrunarheimila og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna í þessum málaflokki.

Um það snýst þetta álit í stuttu máli. En til viðbótar vil ég nefna það sem hv. þm. Jónína Bjartmarz nefndi áðan, að lykilorðið í öllu saman eigi að vera val. Val fyrir sjúklinga í þessu landi hvernig þeir vilji hafa hlutina.