132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:08]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að niðurstaða umboðsmanns Alþingis er það sem mestu máli skiptir og það sem ráðuneytinu ber að líta til. Þar segir m.a.:

„Eins og athugun mín hefur verið afmörkuð felur niðurstaða mín hér að framan ekki í sér endanlega afstöðu um hver hafi verið hæfastur umsækjenda af þeim sem sóttu um starf ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins.“

Ég undirstrika og endurtek að þrátt fyrir að umboðsmaður Alþingis eyði tugum blaðsíðna í að bera saman tvo tiltekna umsækjendur á grundvelli margvíslegra gagna telur hann sig ekki taka afstöðu til þess hvor hafi verið hæfastur. (Gripið fram í.) Svo segir jafnframt í lokakafla í niðurstöðum umboðsmanns Alþingis:

„Að þessu virtu og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut umrætt starf tel ég ólíklegt að ofangreindir annmarkar leiði til ógildingar á skipuninni.“

Þetta er (Gripið fram í.) líka að mínu mati mjög mikilvægt atriði sem ég vil halda til haga hér. Umboðsmaður telur ekki að athugun hans hafi leitt í ljós að álitið haggi þeirri skipun sem átti sér stað fyrir tæpum tveimur árum. Það er mikilvægt atriði í mínum huga.

Þá segir umboðsmaðurinn að það séu að síðustu tilmæli hans til félagsmálaráðuneytisins að það taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram komi í álitinu. Það mun ég sem nýr félagsmálaráðherra gera, að sjálfsögðu, og það hef ég tekið fram í viðtölum við fjölmiðla um þetta mál. (Gripið fram í.)

Ég ber mikla virðingu fyrir embætti umboðsmanns Alþingis. Ég var í forsætisnefnd þingsins þegar hann var ráðinn (Gripið fram í.) og ég tók þátt í því að móta starfsreglur hans. Ég ber mikla virðingu fyrir embættinu og ég mun að sjálfsögðu draga lærdóm af þeim ábendingum sem fram koma í þessu áliti en ég tel þær ekki þess eðlis að þær breyti ráðningu þess starfsmanns sem hefur verið ráðinn. Hún er mjög hæf í sínu starfi ásamt þeim (Forseti hringir.) auðvitað sem sótti á móti henni sem er mjög hæf manneskja líka. Ég vil taka það fram.