132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:11]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Það er alvarlegt að það skuli endurtaka sig reglulega að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar fái álit frá umboðsmanni Alþingis, kærunefnd jafnréttismála eða jafnvel dóma um að þeir hafi gerst brotlegir við lög. Það er hins vegar ekki síður alvarlegt hvernig ráðherrar ríkisstjórnarinnar bregðast við þessum niðurstöðum með þjósti og algjöru skilningsleysi.

Í þetta skipti er það skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu. Áður hafði sami félagsmálaráðherra framsóknarmanna verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að brjóta lög og misbeita valdi sínu gagnvart framkvæmdastýru Jafnréttisstofu. Aðrir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa sömuleiðis verið álitnir brotlegir við lög. Hæstv. dómsmálaráðherra var talinn hafa brotið stjórnsýslulög, dómstólalög og jafnréttislög við skipun hæstaréttardómara.

Allir muna hver viðbrögð ráðamanna voru þá. Í kjölfarið taldi umboðsmaður Alþingis sig vera tilneyddan til að setja sérstakar mannasiðareglur til höfuðs ráðherrunum. Fleiri álit umboðsmanns Alþingis lúta að öðrum ráðherrum, svo sem hæstv. landbúnaðarráðherra við skipun rektors Landbúnaðarháskólans. Síðan horfum við upp á meintan ólögmætan brottrekstur Björns Friðfinnssonar úr embætti ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins.

Er það virkilega svo að grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins skipti ríkisstjórnina engu máli? Ef málefnaleg sjónarmið eiga ekki að ráða för við skipun, hvaða viðmið standa þá eftir? Staðan er alvarleg þegar umsækjendur í háum embættum lýsa því yfir að ekkert þýði að leita réttar síns hjá umboðsmanni Alþingis í ljósi þess hvernig ráðherrar taka álitum hans. Það er eins og að margir ráðherrar þessarar þreyttu ríkisstjórnar telji sig yfir stjórnsýslulög og málefnaleg sjónarmið hafna þegar kemur að skipunum í embætti. Nýleg ummæli hæstv. forsætisráðherra um að ráðherrar „eigi bara að fá að ráða þessu“ staðfesta þann skilning.

Frú forseti. Þessir menn í ríkisstjórn eru einfaldlega búnir að vera of lengi við völd.