132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:13]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég komst ekki hjá því að brosa í kampinn áðan þegar hæstv. núverandi félagsmálaráðherra sagði eitthvað á þá leið að „að sjálfsögðu munum við draga lærdóm af þessum úrskurði“. Það er nefnilega það. Ég held að þessir háu herrar sem hafa setið hér við völd allt of lengi ætli að láta þetta allt sem vind um eyrun þjóta, og þá ekki síst ráðherrar Framsóknarflokksins. Það er til að mynda mjög áhugavert að sjá að við þessa umræðu núna eru aðeins til staðar hæstv. félagsmálaráðherra úr Framsóknarflokknum og síðan þrír þingmenn flokksins. Hinir hafa af einhverjum ástæðum ekki séð sér fært að vera við umræðuna. Þetta mál er náttúrlega mjög vandræðalegt fyrir Framsóknarflokkinn. Það er líka mjög áhugavert að skoða þá vel hönnuðu atburðarás sem var sett í gang í kringum flótta fyrrverandi félagsmálaráðherra úr stól sínum.

Lítum aðeins til baka og skoðum hvernig þau mál hafa öll sömul verið hönnuð. Þeir vissu að þessi úrskurður var á leiðinni. Þess vegna hætti hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra. Þetta er ástæðan fyrir því. Hann gat ekki þolað að fá á sig þennan úrskurð. Ríkisstjórnin gat heldur ekki þolað að fá á sig þennan úrskurð og þar af leiðandi var sett á svið það leikrit sem við fengum að sjá um síðustu mánaðamót með einhverjum fyrirslætti um að menn væru að hugsa um einkaaðstæður og þess vegna færu þeir að vinna í bankanum. Nei, það var ekki þess vegna. Það var vegna þess að þessi úrskurður var að koma. Þeir vissu upp á sig skömmina. Og það verður fróðlegt að sjá, virðulegi forseti, hvort ekki eigi fleiri beinagrindur eftir að hrynja úr skápnum þegar ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hverfa frá völdum. Ég hygg að þær séu fleiri. Þær beinagrindur eru fleiri sem eiga eftir að detta hringlandi út með kóngulærnar á eftir sér. (Gripið fram í.) Þið eruð búnir að brjóta margt og mikið af ykkur í gegnum árin, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason.