132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:43]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gerðist sem mig grunaði að hv. þm. Jón Bjarnason kæmi fyrstur upp í andsvar og talaði um einkavæðingu Framsóknarflokksins á rafmagninu.

Ég fór yfir það áðan, allskilmerkilega, að það er ekki á stefnuskrá Framsóknarflokksins að selja meirihlutaeign Íslendinga í þessari þjóðarauðlind okkar. En ég held að það væri alveg sama hversu oft ég kæmi hér upp og andmælti hv. þm. Jóni Bjarnasyni, hann heyrir einfaldlega ekki það sem hér er sagt. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Það að alþingismenn eigi að sitja þarna og stýra þessu fyrirtæki og að við skulum ekki bera fullt traust til þeirra stjórnenda Rariks, eins og hv. þingmaður var að gefa í skyn, — ég treysti starfsfólki Rariks 100% fyrir þessum rekstri. Enda er þetta vinsælt fyrirtæki og hefur verið að ná mjög góðum árangri í rekstri sínum. Það er ásetningur okkar stjórnmálamanna og forustumanna þessa fyrirtækis að raforkureikningar landsmanna muni í framhaldinu lækka.