132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo augljóst að hv. þm. Birkir Jón Jónsson trúir ekki því sem hann er að segja. Auðvitað er hlutafélagavæðingin fyrsta skref einkavæðingarinnar. Hvað gerðist með Símann? Þegar Síminn var hlutafélagavæddur voru hér mjög hástemmd loforð um að hann yrði aldrei seldur. Það væri alls ekki fyrsta skrefið í því.

En auðvitað var hann seldur. (Gripið fram í.) Síminn. Þvert gegn vilja þjóðarinnar. Nærri 80% í síðustu skoðanakönnun voru andvíg. Þetta er einkavæðingarganga Framsóknarflokksins, hins forna samvinnu- og félagshyggjuflokks, að einkavæða Rarik, sem hefur verið stolt þjóðarinnar og hefur verið grunnur að því að dreifa rafmagni örugglega um allt land. Nú skal það einkavætt og selt. Auðvitað sagði hv. þm. að þetta væri góð eign. Auðvitað er það góð eign að fá aðgang að nánast hverjum einasta rafmagnsmæli á landinu.