132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt sem hv. þingmaður sagði í andsvari sínu var hann búinn að segja í ræðu sinni áður. Sveigjanleikann þekki ég. Ég þekki teoríuna í sveigjanleikanum. Ég veit hins vegar ekki hvernig hv. þingmaður getur haldið því fram að þessi meinti sveigjanleiki komi til með að færa landsmönnum lægra raforkuverð.

Nú vil ég segja nokkur orð við hv. þingmann. Hlutafélagaformið er afar hentugt fyrir fyrirtæki sem gert er ráð fyrir að skili arði. Það að breyta grunnþjónustufyrirtæki eins og Rarik í hlutafélag hefur ekkert með það að gera að tryggja lágt orkuverð til landsmanna. Ekki neitt.

Hv. þingmaður verður að átta sig á því og nú skulum við hafa það á hreinu að með þessum sveigjanleika, sem hv. þingmaður telur svona verðmætan, þá er hann að taka þetta fyrirtæki undan sjálfsögðum lögum sem opinber grunnþjónustufyrirtæki hafa verið undirsett hingað til, undan upplýsingalögum, undan stjórnsýslulögum, undan lögum um opinbera starfsmenn, sem þýðir að það má segja fólki upp án áminningar, og hann er að taka þetta fyrirtæki undan (Forseti hringir.) Alþingi.