132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:56]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. framsögumann í hverju sveigjanleiki hlutafélagavæðingar Rariks sé fólginn, þ.e. með tilliti til þess hvernig hann lítur á Rarik í framtíðinni, hvert hlutverkið eigi að vera. Á það að vera þjónustuhlutverk eða á það að vera fyrirtæki á markaði sem gerðar verða arðsemiskröfur til? Mér finnst það skipta miklu máli, hæstv. forseti, að sveigjanleikinn innan fyrirtækisins taki mið af þeirri grunnhugsun sem er að baki fyrirtækinu.

Hvers vegna telur hv. þingmaður að rafmagnsverð til almennings og neytenda muni lækka hér á landi frekar en í þeim löndum þar sem einkarekstur hefur verið tekinn upp fram til þessa?

Hver er munurinn á íslenskum markaði og þeim mörkuðum þar sem einkareksturinn hefur verið tekinn upp og komið hefur fram að rafmagnsverð hefur ekki lækkað heldur frekar hækkað og þjónustan versnað? Í hverju er íslenski markaðurinn frábrugðinn?