132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:33]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir málefnalegt innlegg í þessa umræðu. Ég tel að ólík sjónarmið vegist á í ýmsu sem kom fram í ræðu hans sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér. Hv. þingmaður kom inn á þann hluta framsöguræðu minnar sem varðaði það hvort mögulegt væri að einhver annar aðili gæti einhvern tímann í framtíðinni komið inn í rekstur t.d. Rarik hf. og hvort þá þyrfti ekki að breyta lögum.

Að sjálfsögðu þarf að breyta lögum þar sem í 3. gr. stendur að öll hlutabréf í hlutafélaginu skuli vera eign ríkissjóðs og að iðnaðarráðherra fari með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.

Minn flokkur hefur ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort það sé mögulegt að hleypa öðrum aðilum inn en skoðun mín er sú að það væri óráð að útiloka það alfarið að einhver aðili gæti komið, hvort heldur það væri með þekkingu eða annað, inn í slíkan rekstur. Ég treysti mér ekki til að útiloka það alfarið. Hins vegar tel ég að við hv. þingmaður séum mjög sammála um að þessi auðlind okkar Íslendinga, þessi einstaka auðlind okkar Íslendinga, eigi að vera í meirihlutaeign þjóðarinnar. Hugsanlega í 100% eign. Ég ætla ekkert að kveða upp úr með það hér. En mér finnst óvarlegt að útiloka eitthvað til framtíðar hvað varðar hugsanlega innkomu annarra aðila að þessu. Mér heyrðist reyndar hv. þingmaður ekki útiloka það heldur. Hann nefndi sveitarfélög í því samhengi.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og félögum hans í Samfylkingunni fyrir ágæta samvinnu í þessari vinnu. Ég held að í grundvallaratriðum séum við sammála nema því sjónarmiði sem hv. þingmaður nefndi í 3. gr. að iðnaðarráðherra fari með eignarhlut en ekki fjármálaráðherra. En það er formsatriði að mínu mati en ekki stóra málið í því frumvarpi sem við ræðum hér.