132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:39]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég tel mest um vert í þessu efni er að koma á reglum um auðlindir í þjóðareign. Það er alveg mögulegt að menn geti síðan selt fyrirtæki eins og Rarik, vegna þess að ef búið verður að ganga frá því með hvaða hætti endurgjald kemur fyrir þær auðlindir sem eru í þjóðareign þá geta þær auðvitað verið nýttar af fyrirtækjum í landinu. Það er ekkert sem mælir á móti því. Það er hins vegar hlutverk stjórnmálamanna að ganga þannig frá að þessar auðlindir séu eign þjóðarinnar til framtíðar og arðurinn af þeim renni til þjóðarinnar. Þetta er hægt og auðlindanefnd benti á ýmsar leiðir til þess. Eitt af stærstu verkefnum stjórnmálamanna fram að næstu kosningum, og ég vona að menn noti þann tíma, er að ganga frá tillögum til breytinga á stjórnarskránni sem tryggir þetta og í framhaldi af því lagasetningu á Alþingi sem tryggi meðferð þessara dýrmætu auðlinda til framtíðar.

Það er þess vegna og með þessum fyrirvörum sem ég hef sagt að það komi alveg til greina að fyrirtæki eins og Rarik verði að hluta til í eigu annarra aðila en ríkisins. En til þess að það sé hægt þarf að ganga þannig frá málum að viðunandi sé hvað varðar eignarhald og endurgjald fyrir þjóðarauðlindir. Áður en það liggur fyrir tel ég ekki mögulegt að aðrir eignaraðilar komi að fyrirtækjum eins og því sem hér er um að ræða.