132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til laga um að hlutafélagavæða Rafmagnsveitur ríkisins. Það eru í sjálfu sér engin sérstök tíðindi að inn í þingið sé borið hvert frumvarpið á fætur öðru sem felur í sér að einkavæða almannaþjónustufyrirtækin, almannaþjónustustofnanirnar. Í hverju máli eru viðhöfð nákvæmlega sömu orð af hálfu meiri hlutans og talsmanna ríkisstjórnarflokkanna, einkavæðingarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Við getum byrjað á bönkunum, við getum nefnt Símann og svo núna Rarik. Við heyrum líka hina fallegu svardaga talsmanna einkavæðingar á þessum fyrirtækjum um að þetta sé bara formbreyting. Verið sé að breyta umgerð fyrirtækisins og gera það sveigjanlegra, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði í framsögu sinni, verið sé að færa ábyrgðina yfir á stjórnendur og gera það samkeppnishæfara á markaði, og eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði hér, sem var lýsandi fyrir þennan feril, að alls ekki standi til að ríkið selji meiri hluta sinn í Rafmagnsveitum ríkisins, sem þær heita enn, þó svo það verði hlutafélagavætt.

Hv. þm. Framsóknarflokksins, Birki Jóni Jónssyni, er vorkunn að þurfa að draga þennan einkavæðingarvagn Framsóknarflokksins inn í þingið. Eru þetta ekki nákvæmlega sömu orðin og sögð voru þegar bankarnir voru hlutafélagavæddir? Þá stóð alls ekki til að selja þá. Það stóð alls ekki til að afhenda þá í neinu formi heldur var fyrst og fremst verið að gefa þeim svigrúm til að starfa og þurfa ekki að lúta opinberu eftirliti og opinberum lögum, að þurfa ekki að lúta upplýsingalögum og reglum sem settar eru um opinberar stofnanir.

Er það ekki rétt munað hjá mér — hv. þm. Birkir Jón Jónsson getur þá leiðrétt mig — að fyrst hafi verið lagt af stað með það að selja bara hluta af hlutabréfunum í bönkunum? Var ekki fyrst byrjað á 30% og síðan var því náttúrlega lýst yfir, og það mjög hátíðlega, að 50% yrðu aldrei seld, í mesta lagi 49%. Á þann veg þróaðist umræðan. Nákvæmlega það sama heyrum við nú frá hv. formanni iðnaðarnefndar og talsmanni Framsóknarflokksins í einkavæðingarmálum fyrir hönd hæstv. iðnaðarráðherra, að það standi alls ekki til að selja. Þessi umræða var öll tekin þá. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentum á að það væri miklu eðlilegra að menn töluðu hreint út, segðu hvað vekti fyrir þeim frekar en þeir kæmu á falskan hátt með mál inn í þingið.

Sama sagan endurtók sig með Póst og síma. Þegar Póstur og sími var hlutafélagavæddur voru heldur en ekki uppi svardagar um að hlutafélagavæðing Pósts og síma væri fyrst og fremst hugsuð til þess að skapa hagræði og sveigjanleika og færa ábyrgðina til forstjóranna o.s.frv. Er það ekki rétt munað hjá mér að þau hafi verið rökin þegar verið var að hlutafélagavæða Póst og síma? Það stæði sko alls ekki til að selja Póst og síma þó hann yrði hlutafélagavæddur. Ég er meira að segja með þetta á prenti og ætla að rifja það upp. Þeir svardagar sem nú eru uppi eru ekki meira virði en þau orð sem þá voru sögð. Ég efast ekki um að Birkir Jón Jónsson meinar þetta akkúrat á þeirri stundu þegar hann stendur í ræðustól og segir að ekki komi til greina að selja Rarik— alla vega ekki meiri hlutann, eins og hv. þingmaður sagði hér og opnaði á það að selja minni hlutann. Ég trúi því að hann trúi þessu sjálfur og ætla ekkert að leyfa mér að efast um það.

Ágætur maður sagði þegar hann var spurður um það af hverju hlutirnir gengju allt öðruvísi en hann hefði áður sagt: „Ja, ég meinti það þegar ég sagði það.“ En þegar kom að framkvæmdinni þá voru hlutirnir gerðir á allt annan hátt. Ég held að hlutafélagavæðing Rariks sé fyrsta skrefið í átt að því að einkavæða fyrirtækið. Hlutafélagavæðingin er einkavæðing vegna þess að þá er fyrirtækið fært undan þeirri stjórnsýslu sem opinberar stofnanir búa við. Þá er það fært í þann stjórnsýslulega búning að vera fyrirtæki í hlutafélagsformi í eigu ríkisins þannig að að forminu til hefur það verið einkavætt. Næst þarf að huga að því hvort það verður selt eða ekki en stjórnsýslulega lýtur það hinum almennu einkavæðingarlögum.

Að mínu viti er miklu heiðarlegra í einkavæðingu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að segja það hreint út að verið sé að stíga þessi skref með þessu frumvarpi. Hvað það varðar er Sjálfstæðisflokkurinn að hluta til miklu heiðarlegri í málflutningi sínum. Hann hefur bæði flokkssamþykktir og tillöguflutning einstakra þingmanna um að stofnanir skuli einkavæddar og seldar. Það er alltaf heiðarlegra að koma til dyranna eins og maður er klæddur. Ég er náttúrlega fullkomlega ósammála einkavæðingaráformum Sjálfstæðisflokksins en hann segir hlutina beint út og þá getur maður tekist á um það á þeim grunni. Þar greinir okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fullkomlega á við Sjálfstæðisflokkinn sem vill einkavæða almannaþjónustuna sem mest, koma almannaþjónustufyrirtækjunum á markað svo að þau verði eins konar fóður fyrir fjármagnseigendur til þess að hola að innan og halda síðan áfram sínu pókerspili. En Sjálfstæðisflokkurinn kemur hreint til dyranna og segir að hann vilji sem víðtækasta einkavæðingu á almannaþjónustunni, hvort sem það er í fjarskiptum, með því að selja símann, í raforkukerfinu, menntamálum, með því að einkavæða skólakerfið, eða í annarri grunnþjónustu. Þetta þekkjum við allt frá Sjálfstæðisflokknum, hann talar hreint út.

En Framsóknarflokkurinn kemur eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson — við þekkjum það líka frá hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, — og segir eitt og gerir svo allt annað. Það gerist einmitt í þessu einkavæðingarferli öllu. Nú þegar einkavæða á Rarik koma framsóknarmenn og segja: Við ætlum að einkavæða Rarik en við ætlum ekkert að selja það, alla vega ekki meiri hlutann. Þetta er í hæsta máta ótrúverðugur málflutningur og að mínu viti ekki heiðarlegur gagnvart þjóðinni.

Það er hollt fyrir okkur að rifja upp ferlið í sölu Landssímans þegar hann var tekinn með þessum hætti — nákvæmlega sama ferli og Rarik er nú sett í. Í aðdraganda hlutafélagavæðingar Pósts og síma 1996 var viðtal við þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, í BSRB-tíðindum, í 8. árgangi frá 1995. Þar segir, með leyfi forseta, um Póst og síma:

„Póstur og sími er vel rekin stofnun, þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu. Það er t.d. afar ánægjulegt að Ísland skuli vera fyrsta landið sem notar eingöngu starfrænt símkerfi og ég legg áherslu á að Póstur og sími er hluthafi í sæstrengnum milli Evrópu og Kanada sem hefur opnað og mun í framtíðinni opna ótalda möguleika á fjarskiptasviðinu þannig að við getum fylgst með þeirri þróun sem er í heiminum í dag.“

Já, stöldrum aðeins við. Þarna segir: „Póstur og sími er vel rekin stofnun, þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu.“ — Gætum við ekki sett Rafmagnsveitur ríkisins í staðinn fyrir Póst og síma og sagt: Rafmagnsveitur ríkisins eru vel rekin stofnun, þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu. Jú, við getum sett nákvæmlega sömu orðin þarna inn í alveg eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, framsögumaður iðnaðarnefndar og fulltrúi Framsóknarflokksins, gerði. Hann lagði áherslu á að Rafmagnsveiturnar væru gott fyrirtæki og vel rekið. Það var Póstur og sími líka.

Svo kemur setning sem er nákvæmlega eins og setning sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði áðan og, með leyfi forseta, er haldið áfram að vitna í Halldór Blöndal, þáv. samgönguráðherra:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem rekin er eftir fjárlögum. Póstur og sími gæti t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum þótt í smáu sé nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur. Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Ég er að vitna í orð þáv. samgönguráðherra, Halldórs Blöndals, þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag. Það kom alls ekki til greina að selja hlutinn. Síminn yrði áfram alfarið í eigu ríkisins. Hvað sagði hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, einkavæðingarráðherra Framsóknarflokksins, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu? Jú, það þyrfti að hlutafélagavæða Rarik en það stæði alls ekki til að selja það. Hvað sagði hv. formaður iðnaðarnefndar áðan? Jú, það þyrfti að hlutafélagavæða Rarik en það stæði alls ekki til að selja það. Nákvæmlega sömu orðin og voru sögð þegar Síminn var hlutafélagavæddur.

Við getum ekki leyft okkur að segja að á þeim tíma hafi þáv. samgönguráðherra vísvitandi verið að segja ósatt, að hann hafi vísvitandi verið að tala þvert um hug sér. Við getum ekkert fullyrt það. Við verðum bara að trúa því að þegar hann sagði þetta á sínum tíma, að Síminn yrði alfarið í eigu ríkisins, hafi hann meint það. Halldór Blöndal samgönguráðherra sagði, þegar hann var að hlutafélagavæða Símann, að í sínum huga kæmi ekki annað til greina en að Póstur og sími yrði áfram alfarið í eigu ríkisins.

Síðan þekkjum við ferlið. Við getum nánast rakið söluferli Símans eftir orðum hv. formanns iðnaðarnefndar, Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, þegar hann mælti fyrir einkavæðingu Rariks. Það þyrfti að gera þetta svona til að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur.

Hvernig fór með starfsöryggi fólksins sem vann hjá Símanum þegar hann var einkavæddur og síðar seldur? Bjó það fólk við mikið starfsöryggi? Bjó fólkið á starfsstöðinni á Blönduósi við starfsöryggi þegar fulltrúi forstjóra kom að morgni til með uppsagnarbréfið og lokaði stöðinni? Ég á ekki von á því að því fólki hafi verið boðnir einhverjir veglegir starfslokasamningar. Og hvernig var það með starfsöryggið hjá starfsmönnum Símans á Siglufirði — starfsöryggið sem hafði verið haft að leiðarljósi þegar Síminn var seldur? Því var sagt upp fyrirvaralaust og þar var lokað. Ætli fólkið á aðalstarfsstöð Símans á Sauðárkróki hafi búið við starfsöryggi, en þar var lokað nú nýverið og fólkinu sagt upp? Ætli einkavæðing Símans hafi verið gerð í því skyni að leggja áherslu á starfsöryggi fólks? Ætli hún hafi verið gerð í þeim tilgangi að tryggja starfsöryggi fólksins á Ísafirði sem vann hjá Símanum, fólkinu var fyrirvaralaust sagt upp nokkrum dögum eftir að einkavæðingin og sala fyrirtækisins fór fram? Þannig fór þetta fyrirtæki fram víða um land og það fer enn fram með þessum hætti.

Á mörgum stöðum er þetta mjög tilfinnanlegt tjón. Ekki voru haldnir neinir blaðamannafundir af þessu tilefni og forsætisráðherra fór ekki á þessa staði í fylgd sjónvarpsins til að láta vita í beinni útsendingu að hann hefði áhyggjur af starfsöryggi þessa fólks. Hann lýsti ekki yfir neinum áhyggjum af starfsöryggi þess fólks sem hafði unnið hjá fyrirtæki sem hann var nýbúinn að selja og var fyrirvaralaust sagt upp. Ekki var aðeins óvissu þess fólks fyrir að fara heldur einnig óvissu í byggðarlaginu. Með því að loka svo mikilvægri þjónustustofnun og Síminn er var samkeppnishæfni viðkomandi byggðarlaga skert.

Tökum dæmi af Blönduósi. Þar höfðu starfsmenn unnið þarna áratugum saman. Þeir þekktu símkerfi héraðsins, vissu nákvæmlega hvernig það virkaði. Ef eitthvað bilaði eða eitthvað þurfti að gera þá bjuggu þessir menn yfir gríðarlegri þekkingu og voru öruggir í starfrækslu þjónustunnar. Þeir voru á staðnum. Hægt var að kalla á þá með stuttum fyrirvara. Það þurfti ekki að kosta langan flutning. Nú þegar búið er að leggja þessa starfsstöð niður, hvert á fólkið þá að snúa sér? Með þessu voru fleiri starfsstöðvar einnig lagðar niður og fólkið verður að snúa sér til Reykjavíkur og lenda í því enn þá kannski að verða hringja þar í þjónustusímann sem segir: „Þú ert númer 10, 12 eða 25 í röðinni.“ Ég heyrði þetta í gær. Maður sem var að spjalla við mig á Blönduósi sagði að enn væri þetta þannig, að þegar væri hringt í þessa þjónustustofnun þá væri þetta enn þannig. Hvaðan á svo viðkomandi þjónusta að koma? Hún getur þurft að koma alla vega mun lengra frá, væntanlega frá Reykjavík eða Akureyri, eitthvað takmarkað kannski frá einhverjum rafvirkjum sem eru þá bundnir í öðrum störfum. Ég þekki dæmi þess að fólk á þessu svæði hefur orðið að bíða vikum saman eftir að fá tengdan og færðan síma fyrir utan það að þurfa að borga síðan kostnaðinn af þessum tæknimönnum langar leiðir. Einkavæðing og sala Símans hefur ekki aukið samkeppnishæfni, rekstraröryggi og viðbragðsflýti þjónustunnar gagnvart þessum stöðum sem ég var að nefna. Eitt markmiðið með því að hlutafélagavæða Símann var að það mundi skapa meira starfsöryggi fólks. En það hefur verið þveröfugt. Ég hygg reyndar að þó að þáverandi samgönguráðherra hafi sagt að það mundi bæta starfsöryggi fólks að hlutafélagavæða Póst og síma þá held ég að í sjálfu sér hafi hann alltaf vitað betur.

Ég dreg þetta upp vegna þess að hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokksins fyrir einkavæðingunni sagði nákvæmlega það sama í ræðu hér, þ.e. að það mundi styrkja stöðu starfsfólks hjá Rafmagnsveitu ríkisins að hlutafélagavæða hana. Dettur einhverjum hv. þingmönnum í þessum þingsal það í hug að hlutafélagavæðing Rariks muni styrkja starfsstöð Rariks hvort heldur það er á Blönduósi, Sauðárkróki, Hvammstanga eða Búðardal? Dettur einhverjum í hug að hlutafélagavæðing muni skapa þessu fólki aukið starfsöryggi og styrkja þessar starfsstöðvar? Nei. Ég held að engum detti það í hug, bara engum. Það er enginn svo vitlaus að hann muni láta sér það um munn fara að hlutafélagavæðing Rariks muni styrkja starfsstöðvarnar og þjónustuna úti um land þar sem hún er, enginn. En menn munu hugsa: Hvernig getum við varið þessa þjónustu, þetta starfsöryggi, þessi störf, þessi tæknistörf? Hvernig getum við varið þau í þessu einkavæðingarferli sem sett er í gang? Ég er viss um að íbúar í nánd við allar starfsstöðvar Rariks um allt land muni velta því fyrir sér hvernig þeir geti varið sína samkeppnisstöðu, þjónustuna, afhendingaröryggið, í einkavæðingunni sem þarna er lagt upp með. Dettur nokkrum í hug að það verði beitt einhverjum öðrum aðferðum við einkavæðingu Rariks en var gert við Símann? Dettur nokkrum það í raun í hug? Nei, í raun dettur það engum í hug, enda er það yfirlýst stefna stjórnvalda, ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hefur lagt ofurkapp á að einkavæða almannaþjónustuna og setja hana á markað og selja almannaþjónustustofnanir á spottprís. Þeir telja að það styrki peningamarkaðinn o.s.frv. Það er alveg ljóst að núna er kallað eftir meira fóðri inn í fjármálageirann, inn í hlutabréfageirann. Síminn fór í haust. Nú er verið að hola innan úr Símanum. Hvað var talað um, að hagnaður á Símanum hefði aukist mjög verulega það sem af er þessu ári miðað við það sem áður var. Auðvitað, nýir eigendur eru ekki neitt í góðverkum. Það er engin félagshyggja sem rekur þá áfram. Nei, það er auðvitað arðurinn af því fjármagni sem þeir settu í það sem er númer eitt. Arðurinn er númer eitt og þess vegna hækkar þjónustan, símgjöldin. Hafið þið gert ykkur grein fyrir því hvað símgjöldin hafa hækkað og hvaða þættir símþjónustunnar eru hækkaðir? Það eru grunngjöldin, stofngjöldin sem allir verða að borga hvort sem þeir eru ungir eða gamlir. Sérstaklega leggst þetta hart á eldra fólk sem notar síma tiltölulega sjaldan en verður að borga æ hærri grunngjöld.

Nákvæmlega það sama er komið í gang með rafmagnið. Þegar rafmagnið var markaðsvætt með nýju raforkulögunum sem menn kalla svo, raforkulögunum sem áttu að lækka rafmagnið í landinu en hafa leitt á langflestum stöðum til hækkunar á rafmagni og hækkunar í rafmagnskerfinu í heild, var farið út í það að hækka grunngjöldin sérstaklega, fastagjöldin, til þess að ná þannig niður verðinu eða til þess að geta látið grunngjöldin greiða niður rafmagnið, t.d. rafmagnið til stóriðjunnar. Það er miklu heiðarlegra að segja bara eins og Sjálfstæðisflokkurinn: „Við ætlum að einkavæða raforkugeirann. Við ætlum okkur að setja hann á markað. Við ætlum að selja fyrirtækin. Við gerum það á einhverjum ákveðnum tíma. En það er markmiðið.“ Framsóknarmenn koma hér og flytja frumvörpin um einkavæðinguna en segjast samt ekki ætla að einkavæða. Svo þegar þeir fara að selja fyrirtækin þá selja þeir bara svona hluta og einkavæða almannaþjónustuna þó svo að þeir segist ætla að gera eitthvað allt annað. Ég held að það sé mjög hollt fyrir framsóknarmenn, ef einhverjir eru eftir, að lesa sig í gegnum hvernig söluferli Símans var. Það er skólabókardæmi um það hvernig einkavæðing þessarar ríkisstjórnar gengur fyrir sig.

Svo var opnað á að selja hluta, eða var ekki svo? Reyndar gekk ekki vel að selja. Það átti að selja Símann á almennum markaði og leyfa þjóðinni að kaupa hlutafé í Símanum. En þjóðin sagðist eiga Símann. Við þurfum því ekki að kaupa hann af okkur sjálfum. Við eigum Símann. Svo þegar þetta gekk ekki þá var hann settur á útsölu, leitað að tilboðum um að kaupa hann í heilu lagi. Hver ætli afstaða þjóðarinnar sé t.d. samkvæmt skoðanakönnunum? Sumir ráðherrar hafa hælt sér hér af skoðanakönnunum, ekki síst hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, einkavæðingarráðherrann sem hefur hér hælt sér af því að taka mark á skoðanakönnunum. Ráðuneyti iðnaðarráðherra hefur gengist fyrir sérstökum skoðanakönnunum, ítrekuðum skoðanakönnunum sem iðnaðarráðuneytið virðist meira nota í áróðursskyni frekar en að ætla sér að fara eftir þeim.

En hvernig voru skoðanakannanir um Símann? Jú, öll þrjú eða fjögur árin sem Síminn var dinglandi í þessu söluferli sýndu kannanir, hvort sem það var Gallupkönnun eða könnun Félagsvísindastofnunar, að afdráttarlaus meiri hluti þjóðarinnar samkvæmt þeim könnunum var andvígur sölu Símans, var andvígur því að grunnfjarskiptakerfið yrði selt. Og meira að segja sýndi skoðanakönnun sem tekin var tveim, þrem mánuðum áður eða bara nokkru áður en útboðið fór fram, að nærri 80%, að mig minnir, voru andvíg því að grunnfjarskipakerfi Símans yrði selt. Skoðanakönnun var gerð nokkrum mánuðum eftir að Síminn var seldur, kauptilboði tekið og farið að lofa hinu og þessu sem átti að gera fyrir andvirðið og meira að segja þá voru fleiri enn andvígir sölu Símans en fylgjandi, þrátt fyrir að búið væri að ganga frá sölu og öllu saman. Þjóðin vissi vel hvað hún vildi ef marka má þessar skoðanakannanir sem ég tel að megi treysta því ítrekaðar skoðanakannanir sýndu þetta. En samt var ferlið keyrt áfram. Síminn skyldi seldur, hann skyldi seldur og hann skyldi seldur. Við munum upplifa það á næstu missirum hvaða tjón við höfum unnið þjóðinni með því að selja Símann í staðinn þess að beita styrk hans og afli af einhug til að byggja upp fjarskiptakerfið í landinu.

Nú erum við að hefja þetta sama einkavæðingarferli með Rarik. Þar gildir alveg nákvæmlega það sama. Notendurnir hafa byggt upp eignir Rariks. Notendur Rafmagnsveitna ríkisins sem hafa byggt þær upp. Hverjir eru notendurnir? Það eru íbúarnir, sveitarfélögin, á starfssvæði Rariks sem hafa byggt þetta upp. Það munu líka taka áhættuna af sölu og einkavæðingu Rariks.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði hér hvers vegna ekki hefði verið rætt við sveitarfélögin um að þau yfirtækju Rarik, þ.e. úr því að ríkið vildi ekki eiga Rarik eða vildi hlutafélagavæða Rarik, setja það á markað, markaðsvæða starfsemi Rariks og undirbúa það undir sölu, hvers vegna sveitarfélögunum væri þá ekki boðið að koma að fyrirtækinu. Ég vil spyrja hv. formann iðnaðarnefndar: Hvernig var t.d. erindi Norðurorku svarað? Norðurorka sendi erindi bæði í fyrra og núna með beiðni um viðræður til að kanna hvort Norðurorka gæti fengið dreifikerfi Rariks og aðrar eignir á því svæði sem gæti verið hagkvæmt fyrir íbúana að eignast úr því að þetta væri að fara á þennan veg. Ég leyfi mér að vitna í umsögn Norðurorku um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Norðurorka hf. þakkar fyrir að fá frumvarpið til umsagnar.

Norðurorka hf. telur að með tilliti til nýskipunar raforkumála væri eðlilegast að gefa öðrum starfandi dreifiveitum tækifæri til að kaupa dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins. Vitað er að áhugi dreifiveitnanna er fyrir hendi. Það er ekki hlutverk ríkisins að reka raforkudreifiveitur frekar en símdreifikerfi.“ — Þannig komast þeir að orði þótt ég sé ekki sammála þeirri röksemd.

„Áhugi er einnig fyrir hendi hjá orkufyrirtækjum til að kaupa hitaveitur Rariks. Hvað varðar vatnsaflsvirkjanir Rafmagnsveitna ríkisins ætti að vera keppikefli ríkisins að selja þær á frjálsum markaði …“ — samkvæmt því uppleggi sem nú er í markaðsvæðingu raforkukerfisins.

Sama fyrirspurn kemur frá Skagafjarðarveitum sem líka sendu erindi til iðnaðarnefndar, bæði í fyrra og í ár, þ.e. varðandi viðræður við Rarik um að fá að kaupa eignir og starfsemi Rariks á þeirra sviði. Einhvers staðar er ég með bréfið frá Skagafjarðarveitum. Skagafjarðarveitur eða Skagfirðingar lentu einmitt í því óláni að meiri hluti sveitarstjórnar Skagafjarðar ákvað rétt fyrir síðustu kosningar að selja Rafveitu Sauðárkróks, sem var fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins og ákaflega mikilvægt fyrir samfélagið. Framsóknarflokkurinn réði þá meiri hluta í sveitarstjórn og seldi Rafveitu Sauðárkróks til Rariks á síðustu dögum þess meiri hluta. Það var mjög umdeilt og voru aðrir flokkar, t.d. Vinstri hreyfingin – grænt framboð og reyndar Sjálfstæðisflokkurinn, andvígir þeirri sölu.

Nú spyrja þeir: Úr því að komin er hreyfing á þetta mál, af hverju megum við ekki kanna það að fá þessar eignir aftur? Ég vil vitna til tillögu sem samþykkt var á sveitarstjórnarfundi í Skagafirði 23. febrúar sl. en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs báru fram þá tillögu, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að hafa forgöngu um að kanna leiðir til að tryggja aðgang að rafmagni á sem hagstæðustu verði til heimila og fyrirtækja í Skagafirði. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að óska eftir viðræðum við stjórnvöld um að kannaðir verði kostir þess að sveitarfélagið og Skagafjarðarveitur ehf. eignist þá starfsemi sem Rafveita Sauðárkróks áður gegndi og annan núverandi rekstur Rariks í héraðinu.“

Þetta er erindið sem sent er inn og þessu fylgir greinargerð, með leyfi forseta:

„Miklar breytingar eru fram undan í raforkumálum landsmanna, hlutafélagsvæðing Rariks og sameining orkufyrirtækja um einstaka þætti á raforkumarkaðnum. Benda má á að sú eignamyndun sem orðið hefur hjá Rafmagnsveitum ríkisins er til komin vegna sölu á þjónustu til sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Reynslan sýnir að þau sveitarfélög sem eiga veitur standa sterkar að vígi og geta beitt þeim til að efla þjónustu og atvinnuuppbyggingu í sínu héraði. Skiptir því miklu máli að þau séu í eigu og umsjá íbúanna á viðkomandi svæðum. Sem dæmi má nefna hve dýrmætt það er fyrir Skagfirðinga að eiga áfram Skagafjarðarveitur. Með því að Sveitarfélagið Skagafjörður og Skagafjarðarveitur ehf. fái umráð yfir þeirri starfsemi sem Rafveita Sauðárkróks gegndi áður og öðrum rekstri Rariks í Skagafirði gætu skapast frekari sóknarfæri fyrir byggð og atvinnulíf í héraðinu.“

Þetta erindi var sent til iðnaðarnefndar og hæstv. iðnaðarráðherra. Ég veit ekki til þess að iðnaðarnefnd hafi tekið það fyrir, a.m.k. sést þess hvergi stoð í nefndaráliti. Sama má reyndar segja um erindi Norðurorku þar sem farið er fram á hið sama, að fá að ræða við þá sem fara með stjórn og eignarhald á Rarik fyrir hönd þjóðarinnar til að ræða um kaup á eignunum.

Ég spyr hv. formann iðnaðarnefndar: Hvernig var tekið á þeim erindum sem ég hef nefnt? Ég vona að hv. formaður iðnaðarnefndar heyri til mín, frú forseti, þótt hann sé ekki staddur í þingsal. Ég vildi gjarnan að hann væri hér þannig að ég sé öruggur um að hann heyri spurningar mínar um leið og ég legg þær fram.

(Forseti (RG): Það verður kannað með nærveru formanns iðnaðarnefndar.)

Takk, frú forseti. Ég vona að hv. formaður nefndarinnar hafi heyrt þær spurningar sem ég setti fram varðandi beiðni Norðurorku, um að fá að eiga viðræður til að semja um að fá til sín dreifiveitur og aðrar eignir Rariks á því svæði. Sama gildir um erindi frá sveitarstjórn Skagafjarðar og einnig frá Skagafjarðarveitum um viðræður um að fá að leysa til sín eignarhlut og verkefni Rariks í héraðinu. Mér finnst að taka eigi upp viðræður við þessa aðila og fleiri sem vilja skoða það að eignast veiturnar aftur áður en við förum að hlutafélagavæða Rarik, einkavæða og búa undir sölu.

Síðasta sumar keypti Rarik t.d. Hitaveitu Blönduóss og varð reyndar að fá heimild frá ríkinu til að geta fjárfest þar. Að mínu viti hefði verið nær að ríkið hefði lagt fjármagn beint til Blönduóssbæjar til að styrkja rekstur hans frekar en að láta ríkisfyrirtæki kaupa af þeim þjónustustofnanir bæjarins. Rekstur margra sveitarfélaga hefur verið þungur, m.a. vegna þess að ríkið heldur mörgum sveitarfélögunum í fjárhagslegri gíslingu, sérstaklega þar sem atvinnulífið hefur byggst á frumvinnslu og útflutningsatvinnugreinum þar sem tekjurnar hafa hrunið. Þá eru ekki réttu viðbrögðin að ríkið komi og kaupi af þeim gullveiturnar, veitur sem standa undir stórum hluta eða mikilvægum þáttum þjónustunnar, veitur sem sveitarfélögin geta beitt til að styrkja og efla atvinnulíf í byggðinni. Nei, þá kemur ríkið og beitir Rarik til að kaupa það í stað þess að leggja peningana beint til sveitarfélagsins. Ætli Blönduósingum sé rótt þegar þeir heyra að næsta skref í þessu ferli sé að Rarik verði hlutafélagavætt og fari í sama ferli og gerðist með Símann? Ég er smeykur um að mönnum sé ekki rótt gagnvart því þótt hv. formaður iðnaðarnefndar segi að meiningin sé að eiga a.m.k. meiri hlutann. Það er hið sama og sagt var um Símann á sínum tíma. Allt þetta ferli og undirbúningur undir sölu Rariks lýtur nákvæmlega sömu lögmálum og atburðarás og sást með með bankana og með Símann. Ferlið er nákvæmlega það sama.

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingar – græns framboðs munum flytja tillögu til rökstuddrar dagskrár um að máli þessu verði vísað frá. Í þeirri tillögu sem við leggjum fyrir þingið og kemur til afgreiðslu síðar í þessari umræðu, við afgreiðslu mála við 2. umr. segir, með leyfi forseta:

„Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað. Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu.“

Með vísun til framanritaðs munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja til að þessu máli um hlutafélagavæðingu Rariks verði vísað frá. Við teljum mjög brýnt að setja ekki raforkukerfið í enn meira uppnám en það er í núna. Ef litið er til þess sem gerst hefur á undanförnum mánuðum varðandi raforkukerfið þá hefur það alls ekki verið eins og landsmönnum hefur verið lofað. Þegar stofnað var þetta flutningskerfi Landsnets og tekin upp markaðsvæðing í raforkukerfinu þá var því lofað að þetta mundi leiða til verðlækkunar. Ýmsir umsagnaraðilar hafa reyndar varað mjög við samþykkt þessa frumvarps. Ég vil gera það að umtalsefni áður en ég fjalla frekar um það sem er að gerast á raforkumarkaðnum. Ég leyfi mér að vitna til umsagnar Alþýðusambands Íslands um hlutafélagavæðinguna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Afstaða Alþýðusambands Íslands til frumvarpsins grundvallast á þeirri sýn að raforka sé ein af mikilvægustu forsendum lífskjara hér á landi. Uppbygging atvinnulífs ræðst að miklu leyti af ódýrri orku. Fram til þessa hefur verið litið á raforkudreifingu sem samfélagslega þjónustu og uppbyggingu dreifikerfisins sem samfélagslega fjárfestingu sem allir íbúar landsins njóti.“

Ég tek undir og legg áherslu á þessi orð frá Alþýðusambandi Íslands sem vill skilgreina dreifingu raforkunnar sem samfélagslega þjónustu en ekki sem rekstur sem fyrst og fremst eigi að skila arði til eigenda sinna. Áfram segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Rarik hefur gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu dreifikerfis og dreifingu raforku til íbúa og fyrirtækja í dreifðum byggðum landsins. Með því hefur Rarik tekið þátt í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Mikilvægt er að tryggja íbúum og fyrirtækjum á landsbyggðinni áfram raforku á hagstæðu verði. Forsenda fyrir uppbyggingu atvinnulífs í framtíðinni er hagstætt raforkuverð.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag um Rarik og að það verði áfram að fullu í eigu ríkisins. Frumvarpið gerir því ekki ráð fyrir að breyting verði á eignarhaldi félagsins, en ljóst er að breytingar á eignarformi geta haft áhrif á fjármögnunarkostnað fyrirtækisins vegna bakábyrgðar ríkisins. Óljóst er hvaða áhrif það kann að hafa á raforkuverð. Alþýðusambandið telur mikilvægt að Rarik verði áfram í opinberri eigu, hvort sem um er að ræða í eigu sveitarfélaga eða ríkisins, til að tryggja sem best samfélagslega ábyrgð í uppbyggingu raforkukerfisins.

Alþýðusambandið leggur áherslu á það að breytt rekstrarform Rariks leiði ekki til aukinnar samþjöppunar á raforkumarkaði og dragi þannig úr samkeppni með tilheyrandi hækkunum á raforkuverði til heimila og fyrirtækja.

Alþýðusambandið leggst ekki gegn frumvarpinu að sinni en áskilur sér rétt til að koma síðar á framfæri athugasemdum gefist tilefni til þess.“

Alþýðusambandið dregur þarna alveg skýrar áherslur um að þetta sé samfélagsþjónusta og mikilvægt sé að tryggja sem best samfélagslega ábyrgð í uppbyggingu raforkukerfisins. Það slær þá varnagla sem ég hef verið að minnast á að hlutafélagsvæðingin á Rarik er í rauninni einkavæðingarskrefið og þegar við tökum dæmi af Símanum sjáum við hvar hætturnar eru við hvert skref.

Ef litið er á umsögn BSRB benda þau almannasamtök á nákvæmlega það sama. Það er táknrænt, frú forseti, að þau almannasamtök vara við þessu og leggja áherslu á að raforkukerfið sé byggt upp og rekið á félagslegum grunni. Framsóknarflokkurinn sem einu sinni kenndi sig við félagshyggju og byggðist þannig upp, hefur nú það hlutverk að flytja frumvarp um einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkukerfisins.

Í umsögn BSRB segir, með leyfi forseta:

„BSRB leggur áherslu á að líta beri á raforkukerfi landsins sem hluta af grunnþjónustu sem eigi að vera á vegum ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er ætlunin að Rafmagnsveitur ríkisins skuli vera eign ríkissjóðs og fari iðnaðarráðuneytið með eignarhlutann. Ekki er auðvelt að átta sig á hvað vakir fyrir stjórnvöldum með þessari breytingu. Tvennt hlýtur að koma til álita. Í fyrsta lagi að til standi að selja rafmagnsveiturnar, nokkuð sem BSRB varar eindregið við enda reynslan erlendis frá af einkavæðingu þessarar starfsemi mjög slæm. Hitt atriðið sem kemur til álita varðar kjör starfsmanna, en í athugasemdum með frumvarpinu segir að með hlutafélagsforminu verði „reksturinn sveigjanlegri.“ Hér er væntanlega verið að vísa til réttarstöðu starfsmanna sem er veikt með þessu frumvarpi. Í umsögn BSRB er fyrst og fremst staðnæmst við réttarstöðu starfsmanna.“

Gott er að rifja upp hvernig farið hefur fyrir starfsmönnum Símans og hver réttarstaða þeirra var eftir að Síminn var einkavæddur og seldur. Forsvarsmenn Símans hikuðu ekki við að fara hringinn í kringum landið, komu fyrirvaralaust með uppsagnir til handa starfsfólkinu og lokuðu starfsstöðvum. Við þekkjum þetta ferli hjá Símanum og ekki er að furða þó að BSRB, sem eru stærstu almannasamtök starfsmanna í opinberri þjónustu, vari við því skrefi sem hér er verið að stíga. En þar segir áfram, með leyfi forseta:

„Eftir hlutafélagavæðingu þurfa Rafmagnsveitur ríkisins ekki að fylgja þeim lágmarkskröfum gagnvart starfsmönnum sínum sem gerðar eru til opinberrar stofnunar innan stjórnsýslunnar. Lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er ætlað að gilda við aðstæður sem þessar, þ.e. þegar stofnunum ríkisins er breytt í hlutafélög og þær lagðar niður. Með þessum lögum stendur hins vegar til að setja ákvæði sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi. Ef það er mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta á auðvitað að gera það með því að breyta almennu lögunum í stað þess að víkja sér undan þeim jafnan þegar á þau reynir. Þá þurfa ríkisstarfsmenn ekki að vera með væntingar um starfsöryggi sem ekki standast þegar á reynir. Óréttlætið birtist líka í því að þetta gerist oft en ekki alltaf. Svo virðist vera að þegar breytingarnar snerta litlar stofnanir með fáa starfsmenn þá séu almennu lögin látin gilda en þegar sambærilegar breytingar ná til stærri stofnana eru almennu lögin tekin úr sambandi. Þetta er lagaframkvæmd sem ber merki um hentistefnu og óhreinskilni.“

Næst í umsögn BSRB er fjallað um: Athugasemdir varðandi breytingu á réttarstöðu starfsmanna. Þar segir:

„Rafmagnsveitur ríkisins verða samkvæmt frumvarpinu lagðar niður og fer þá um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Kemur þetta fram í 7. gr. frumvarpsins.

Hvað þýðir þetta nákvæmlega varðandi réttarstöðu starfsmanna þegar stofnunin verður lögð niður og hlutafélagið tekur við rekstrinum? Ekki verður betur séð en að baki frumvarpinu búi sú hugsun að breytt skuli réttarstöðu þeirra ríkisstarfsmanna, sem starfa hjá Rafmagnsveitum ríkisins, án þess þó að annar aðili en ríkið taki við starfseminni. Áfram eiga Rafmagnsveitur ríkisins að heyra undir ríkið. Með öðrum orðum þá er verið að setja lög um að starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins hf. verði áfram starfsmenn ríkisins án þess þó að um kjör þeirra, réttindi og skyldur, gildi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Í 7. gr. er vísað til þess að þau lög sem þar eru nefnd skulið eiga við „eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins.“ Í umsögn um þessa lagagrein er ekki kveðið eins afdráttarlaust að orði. Þar segir: „Gert er ráð fyrir að öllum núverandi starfsmönnum verði boðið starf hjá hinu nýja fyrirtæki.“ Þetta er ekki afdráttarlaus yfirlýsing, fremur samkvæmt formúlunni, „eftir því sem við á.““

Ég ætla aðeins að víkja að þessu, frú forseti. Þetta er nákvæmlega það sama og starfsmenn Símans máttu upplifa þegar verið var að segja þeim upp hvort sem það var á Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði eða hvar annars staðar, þá var hægt að bjóða starf einhvers staðar annars staðar í allt öðrum landshluta í því tilfelli þar sem var boðið upp á slíkt. Þetta er svona. Og hvernig getum við hugsað okkur að fari fyrir Rafmagnsveitum ríkisins og starfsstöðvum þeirra vítt og breitt um landið þegar þessi lög verða látin ganga með svipuðum hætti og lögin um einkavæðingu Símans hafa gengið?

Áfram segir í umsögn BSRB, með leyfi forseta:

„Árin 1993 og 1996 voru sett hér skýr og einföld lög, þ.e. upplýsinga- og stjórnsýslulög, sem gilda áttu um stjórnsýsluna til þess að borgurum sé gert kleift að fylgjast með og kynnast athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almennings þágu. Í stað þess að stofnanir taki mið af þessum lögum þá er rekstrarformi þeirra breytt svo þær þurfi ekki lengur að lúta þessum reglum! Af hverju leita stjórnvöld ekki annarra leiða sem tryggi þann sveigjanleika sem stjórnendur telja sig þurfa að sækjast eftir? Með frumvarpinu er verið að færa Rafmagnsveitur ríkisins undan ákvæðum stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, reglum um auglýsingu á lausum störfum o.s.frv. Eins og að ofan greinir mun þetta m.a. hafa þau áhrif að Rafmagnsveitur ríkisins munu hvorki þurfa að fylgja lágmarkskröfum sem gerðar eru til stjórnsýslunnar né fylgja ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Sú leið að opna á einhvers konar upplýsingaskyldu svokallaðra opinberra hlutafélaga í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum (opinber hlutafélög), er að mati BSRB ekki nægjanlegt þar sem sú upplýsingaskylda er mjög takmörkuð.“

Áfram segir í umræddri umsögn, með leyfi forseta:

„Samkvæmt aðilaskiptalögunum, nr. 72/2002, eiga Rafmagnsveitur ríkisins hf. að yfirtaka gildandi ráðningarsamninga með þeim réttindum og skyldum sem þar greinir. Þá eiga starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins að njóta réttinda og bera skyldur í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Kjarasamningurinn á því að gilda þar til honum verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Í aðilaskiptalögunum, nr. 72/2002, segir um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum:

„3. gr. Launakjör og starfsskilyrði.

Réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á að færast yfir til framsalshafa. Framsalshafi skal virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Ákvæði þetta gildir ekki um rétt starfsmanna til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta þegar um er að ræða lífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerðum sem staðfestar hafa verið af fjármálaráðuneyti. Það getur þó aldrei leitt til skerðingar á áunnum réttindum í þeim sjóðum sem um er að ræða. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður starfar áfram hjá fyrirtækinu eða hluta þess eftir aðilaskipti eða ekki. Ákvæði þetta á ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.“

Samkvæmt þessu ber nýjum atvinnurekanda, eða framsalshafa eins og hann er kallaður í lögunum, að virða launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri atvinnurekanda, þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Þá eiga réttindi og skyldur atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað að færast yfir til nýja atvinnurekandans. Áunnin réttindi svo sem orlofsréttindi eða veikindaréttur, flytjast jafnframt með yfir til nýs atvinnurekanda. Þetta þýðir að þó nýr aðili taki við þá eiga laun og önnur starfskjör starfsmanna ekki af þeirri ástæðu einni að taka breytingum. Í ráðningarsamningi Rafmagnsveitna ríkisins við starfsmenn sína er sérstaklega tekið fram að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt er tilgreint í ráðningarsamningi í hvaða deild LSR starfsmaður greiði. Er það því álit BSRB að þessi réttindi eigi að fylgja starfsmönnunum til Rafmagnsveitna ríkisins hf. eins og skýrt er samkvæmt aðilaskiptalögunum. Hins vegar virðist sem frumvarpshöfundar séu ekki að fylgja aðilaskiptalögunum að öllu leyti. Þá þarf að hafa í huga meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þegar stjórnvald tekur íþyngjandi ákvörðun þarf að velja þá leið sem er vægust fyrir þá sem ákvörðunin lýtur að. Ekki er verið að gæta þess í þessu frumvarpi.“

Svo er enn fremur fjallað um í umsögn BSRB um biðlaunaréttinn en þar stendur, með leyfi forseta:

„Margt er óljóst um biðlaunarétt starfsmanna. Sem dæmi þá er ekki minnst á réttarstöðu starfsmanna sem heyra undir bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur hafni þeir starfi hjá Rafmagnsveitum ríkisins hf. Þar sem starfsmenn njóta ekki lengur ýmissa réttinda sem fylgdu starfi þeirra sem ríkisstarfsmenn er ekki um að ræða sambærilegt starf hjá Rafmagnsveitum ríkisins hf. Eiga þeir starfsmenn sem hafna starfi hjá félaginu því rétt á biðlaunum hafi þeir verið ráðnir fyrir 1. júlí 1996, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur. Þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var hlutafélagavædd fengu þeir starfsmenn sem höfnuðu starfi hjá félaginu biðlaun. Tryggja þarf sömu réttindi fyrir starfsmenn þessarar stofnunar sem ákveða að taka ekki starfi hjá félaginu.“

Hér er verið að tala um biðlaun, frú forseti, og það er í sjálfu sér hluti af réttindum starfsmanna sem hafa verið í opinberum störfum. Við höfum fylgst með því að biðlaunarétturinn fylgdi ekki starfsmönnum þegar þeir fóru til Símans, a.m.k. ekki þeim sem sagt var upp hvort heldur það var á Ísafirði eða Blönduósi, þar var ekki mikið rætt um ítarlegan biðlaunarétt. Hins vegar heyrum við nú að verið er að ræða um biðlaunarétt hjá starfsmönnum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og það er bara sjálfsagt og eðlilegt mál. En þá hljótum við jafnframt að vilja tryggja það að í þeim lögum sem hér er verið að setja, um að hlutafélagavæða Rarik, komi ekki til þess að skerða eigi þessi almennu réttindi starfsmannanna. Sama er að segja um lífeyrisréttinn. Það hlýtur líka að þurfa að huga að því að tryggja lífeyrisrétt starfsmanna hjá Rafmagnsveitum ríkisins þó svo þær séu hlutafélagavæddar.

„BSRB leggur mikla áherslu á að tryggt verði að Rafmagnsveitur ríkisins virði rétt stéttarfélaga starfsmanna sem gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sinna, til að semja áfram við hlutafélagið, verði það að veruleika, bæði fyrir hönd núverandi starfsmanna og nýráðinna. Við rekstrarformsbreytingu ríkisstofnana sl. ár hafa stéttarfélög sem eiga félagsmenn innan þeirrar stofnunar haldið áfram að gera kjarasamninga við hlutafélögin sem stofnuð hafa verið. Sama ætti að gilda um stéttarfélög innan Rafmagnsveitna ríkisins. Æskilegt væri að frá þessu yrði gengið áður en lögin koma til afgreiðslu.

Það er hins vegar eindregin afstaða BSRB, með tilvísun í það sem hér hefur verið rakið, að leggja til að frumvarp þetta nái ekki fram að ganga.“

Þannig var umsögnin frá BSRB. Ég hef því vitnað bæði í umsögn Alþýðusambands Ísland og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem eru stærstu almannasamtökin, stærstu launþegasamtökin sem hér eiga hlut að máli, sem koma að þessu bæði hvað varðar rétt starfsmannanna og einnig hvað varðar að hlutafélagavæða þessa almennu grunnþjónustu.

Frú forseti. Það er líka hægt að fara yfir það hvernig gengið hefur til með markaðsvæðingu raforkukerfisins sem átti að leiða til svo mikillar og almennrar raforkulækkunar sem við minnumst að hafa heyrt hér hjá hæstv. iðnaðarráðherra sem gefst aldrei upp á því að vegsama markaðsvæðingu raforkukerfisins og neitar því að hún hafi mjög víða leitt til hækkunar og keyrir áfram í þessa veru.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði áðan í ræðu sinni að Ísland gæti státað af einu lægsta raforkuverði í Evrópu, nú státum við okkur svo sannarlega af nokkuð lágu raforkuverði, en því er samt fjarri að svo sé. Ég minnist þess í umræðu í síðustu viku að þá upplýsti hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson það í fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra að rafmagn til notenda í Danmörku og notenda í Finnlandi er t.d. mun lægra en hér. Reyndar er það svo að raforkuverð hér er að margra dómi miklu hærra en það þyrfti að vera einmitt vegna þessarar markaðsvæðingar þar sem farið er að krefjast arðs út úr rekstri fyrirtækjanna, arðs á því fjármagni sem bundið er í því og einnig vegna þess að farið er að gera þessar almannaþjónustustofnanir skattskyldar og auðvitað fara skattarnir sem þær verða að borga beint út í verðlagið og sömuleiðis arðsemiskröfurnar. Það eru einmitt ein rökin fyrir því að hlutafélagavæða Rarik að þá sé auðveldara að gera kröfur um meiri arðsemi.

Hv. framsögumaður minntist líka á að með þessu formi væri verið að færa ábyrgðina til framkvæmdastjóranna. Og frá hverjum er verið að færa hana? Jú, það er verið að færa hana frá eigendunum, frá þjóðinni sem núna á Rarik og vill sjálf bera ábyrgð á því hvernig þjónusta er veitt. Nú er verið að fjarlægja hana og fela hana í hendur framkvæmdastjóra sem hægt er að láta gera arðsemiskröfur til hennar.

Frú forseti. Ég hef rakið nokkuð ítarlega þau rök sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum fyrir því að við leggjumst alfarið gegn frumvarpinu. Við leggjumst gegn því á þeim forsendum að við teljum að raforkukerfið eigi að vera almannaþjónusta sem á að veita heimilum, notendum, fyrirtækjum rafmagn á sem hagkvæmustum kjörum á jafnréttisgrunni um land allt og það eigi ekki í sjálfu sér að gera arðsemiskröfu til þess. Arðurinn af raforkunni kemur í gegnum hagkvæmt raforkuverð til notenda, til heimila og til fyrirtækja og þar á arðurinn að skila sér en ekki taka hann svona fyrir fram með því að krefjast arðs af fyrirtækjunum sjálfum. Auk þess hef ég rakið ítarlega feril annarra stofnana sem ríkið hefur átt en hafa verið einkavæddar og seldar með nákvæmlega sama hætti, bankanna, Landssímans, þar sem sagt var í upphafi að aðeins væri um formbreytingu að ræða en ekki stæði til að selja.

Ég tel að það hefði alveg komið til greina að selja annan hvorn ríkisbankanna á sínum tíma en að þjóðin hefði jafnframt byggt upp öflugan og sterkan þjóðbanka sem hefði getað tryggt jafnræði í þjónustu í staðinn fyrir að það sem gerðist, að bankarnir voru seldir á útsölu og afhentir flokksgæðingum eftir helmingaskiptareglu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það var látið ráða grunninum í skiptingu bankakerfisins. Síðan fengu þessir bankar frjálst spil, fengu þessar eignir ríkisins á silfurfati og ekki bara bankana heldur aðrar þjónustustofnanir með, eins og tryggingafélögin og fleira. Og loks hafa þeir keypt upp atvinnufyrirtæki. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram tillögu til breytinga á þeim lögum sem lúta að stofnun og rekstri fjármálafyrirtækja þar sem við lögðum til að bönkunum væri bannað að eiga og reka fyrirtæki með þessi krosseignatengsl að fyrirtæki sem væri í viðskiptum hjá banka gæti svo líka átt í bankanum. Við vöruðum við þessu og lögðum fram frumvarp sem kvað á um að þetta væri ekki heimilt. Skellt var skollaeyrum við varnaðarorðum okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þessi krosseignatengsl á milli bankanna og atvinnufyrirtækjanna en hvað er að gerast nú? Þessi flóknu og miklu krosseignatengsl á milli fjármálastofnana og fyrirtækja eru núna það sem menn telja hættulegast hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum og afdráttarlaus ráð og reyndar kröfur um að bankastofnanirnar endurskoði það. Við lögðum þetta til strax í byrjun en þá voru bankarnir afhentir á silfurfati til valdra gæðinga samkvæmt helmingaskiptareglu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, framsóknarmenn fengu Búnaðarbankann og sjálfstæðismenn fengu Landsbankann. Síðan var ekki mikið spekúlerað í því nema þess var vandlega gætt að kjörin íþyngdu þeim ekki, meira að segja var kaupanda Landsbankans gefinn sérstakur afsláttur eftir á, því að honum fannst þau vera eitthvað óþægileg og ríkið gaf honum sérstakan afslátt á því gjafverði sem þessir bankar voru þó seldir á.

Hvað gerðist síðan með Landssímann? Nákvæmlega sami ferill með Landssímann. Fyrst var hann hlutafélagavæddur með hástemmdum yfirlýsingum um að aldrei kæmi til þess að hann yrði seldur. Síðan fór hann í söluferli og við þekkjum það, þetta átti að ganga fyrir sig á einum 5–6 árum að selja Landssímann. Það gekk brösuglega fyrst því að þjóðin var alfarið á móti því að Landssíminn væri seldur og alveg fram á síðasta dag. Mér kæmi ekki á óvart ef gerð yrði skoðanakönnun í dag meðal þjóðarinnar að stærri hlutinn væri áfram andvígur því að Síminn hefði verið seldur. (Gripið fram í.) Svo kemur hv. þm. Kjartan Ólafsson hér með frammíkall um hátæknisjúkrahúsið. Mér heyrist það vera mjög umdeilt og ég mundi ekki leggja til að Rarik yrði selt til að fjármagna seinni hlutann af hátæknisjúkrahúsinu ef hv. þingmaður er að meina það. En það er mjög umdeilt að verja eigi söluandvirði Landssímans í að byggja hátæknisjúkrahús. Vandi sjúkrahúsanna og í rekstri heilbrigðisþjónustunnar er að það vantar fjármagn til að halda núverandi starfsemi gangandi. Það breytist ekki þó að menn vilji kalla það hátæknisjúkrahús. Við erum með hátækniheilbrigðisþjónustu á Landspítalanum og á öðrum sjúkrahúsum víða um land en það skortir rekstrarfé. Það skortir ekki miklu fleiri byggingar. Ég frábið mér það að selja Rarik til að greiða upp eitthvað slíkt. Þá er betra fyrir þjóðina að eiga Rarik.

Hér er verið að stíga skrefið í að einkavæða Rafmagnsveitur ríkisins og ég hef leitt hér rök að því að þetta er kolröng stefna. Þau rök sem færð eru fyrir einkavæðingunni eru léttvæg. Það er hægt að ná markmiðum við rekstur þessa fyrirtækis með öðrum hætti. Tökum Orkuveitu Reykjavíkur sem dæmi. Orkuveita Reykjavíkur er samlagsfyrirtæki, hún er ekki hlutafélagavædd. Ég sé ekki betur en að hún sé orðin stórveldi í orkumálum landsmanna. Menn geta deilt um hvað hún er að gera á sumum sviðum, eins og að afla orku fyrir stóriðju, en eignar- eða rekstrarformið virðist ekki há henni á nokkurn hátt, síður en svo, það styrkir hana ef eitthvað er, því að hún liggur þá ekki beint undir því að verða seld í hlutum og það gefur henni meiri stöðugleika.

Ég er alveg viss um að hlutafélagavæðing Rariks setur fyrirtækið á vissan hátt í uppnám því að menn vita ekki hver verða næstu skref. Menn vita ekki hvenær farið verður að selja hlutina út úr Rarik. Við skulum minnast þess að það var kannski ekki hvað síst fyrir atbeina Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur sem Orkuveita Reykjavíkur er enn þá í almenningseign og í því eignarformi sem hún nú er. Ég verð að segja fyrir mig, frú forseti, að ég óttast það mjög ef svo illa fer að næsti meiri hluti Reykjavíkurborgar verði án aðildar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því þá liggur alveg ljóst fyrir hvort sem það verða sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og jafnvel Samfylkingin að fyrstu skref þeirra yrðu að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Traust fólks á að almannaþjónustustofnanir verði ekki einkavæddar og seldar hvílir því á aðild Vinstri grænna hvar sem. Og áfram eru það einmitt þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Alþingi sem vara við einkavæðingu á orkugeiranum. Við vörum við markaðsvæðingunni sem hér er verið að leggja upp með og herða á. Við leggjumst gegn því að frumvarp þetta verði að lögum og höfum dreift hér tillögu að rökstuddri dagskrá sem kemur til umræðu seinna á fundinum þar sem lagt er til að þessu máli verði vísað frá.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — eins og segir í tillögunni sem við höfum lagt fram og kemur síðar til umræðu — leggja áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað. Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu.

Og einmitt á þeim forsendum leggjum við til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að þessu frumvarpi um einkavæðingu á Rarik verði vísað frá.