132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög fróðleg umræða hér undir lokin. Ég hlustaði með athygli á yfirlýsingar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Kjartans Ólafssonar. Ég rifja upp það sem hann sagði við 1. umr. þessa frumvarps. Ég held að það hafi verið í desembermánuði, alla vega fyrir áramótin, en þá sagði hann að Rarik, Rafmagnsveitur ríkisins, ættu að vera söluvara eins og hvert annað fyrirtæki, ef verðið væri rétt ætti Rarik að vera til sölu og hafnaði öllum yfirlýsingum um að ekki stæði til að selja þetta fyrirtæki.

Síðan talar hv. þingmaður svona nánast af fyrirlitningu um alla þá starfsemi sem er rekin á félagslegum grundvelli og hefur verið undirstaða framfarasóknar Íslendinga í heila öld. Hann spyr hvers vegna við flytjum ekki frumvörp um ríkisstofnanir, ríkisflugfélag og ríkisskipafélag og þar fram eftir götunum.

Svona talar maður sem horfir upp á þann veruleika að eftir að Ríkisskip var lagt niður lögðust sjóflutningar við Ísland niður. Þeir eru hreinlega ekki fyrir hendi lengur. Ef við hættum að hugsa í leiðum og tækjum og hugsum í markmiðum þá eiga menn ekki að útiloka neina leið og allra síst það sem gert er á samfélagslegum grunni.

En mér fannst ástæða til að rifja þetta upp, hæstv. forseti, hér í upphafi máls míns, því það vakti furðu að hlusta á yfirlýsingar frá hv. þm. Kjartani Ólafssyni.

En ég tek undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins þarf ekki að koma neinum á óvart. Hún er að sönnu heiðarleg að því leyti að þeir fara ekkert í grafgötur með að þeir telji vel koma til greina að selja Rafmagnsveitur ríkisins á markaði.

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína á að ræða nokkra efnisþætti sem fram komu í máli hv. formanns iðnaðarnefndar, Birkis Jóns Jónssonar. Það eru fjögur atriði sem ég ætla að staldra við. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði að með því að gera Rarik að hlutafélagi ykist sveigjanleiki í rekstri.

Ég vil byrja á því að segja að sveigjanleiki í rekstri er að sjálfsögðu nauðsynlegur og góður þegar á þarf að halda. En við þurfum að gæta að okkur hvað það er nákvæmlega sem við eigum við með þessari hugtakanotkun. Hvað er það sem á að verða sveigjanlegt?

Þá staldra ég fyrst við hugsanlegan samruna við önnur fyrirtæki eða stofnanir á þessu sviði, að sveigjanleiki af því tagi kunni að vera nauðsynlegur, en á móti spyr ég hvað standi í vegi fyrir því að nýta önnur rekstrarform hvað þetta snertir. Ég nefni hér sameignarfélög og ég nefni byggðasamlög sem eru einnig þekkt form innan opinbers reksturs og eru vel nýtanleg til að tryggja sveigjanleika í rekstrinum hvað varðar samruna og samstarf við aðrar stofnanir og önnur fyrirtæki.

Reyndar hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að við þurfum að þróa byggðasamlagshugsunina áfram því að ýmsir vankantar eru á því fyrirkomulagi og ég nefni þá sérstaklega áhrif í stjórn en þau endurspegla ekki styrk eignaraðilanna. Við erum með byggðasamlag um sorphreinsun, um Sorpu öllu heldur. Við erum með byggðasamlög um slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu og fleira mætti telja þannig að það eru til önnur form til að tryggja sveigjanleika í rekstri.

Síðan er náttúrlega hin grundvallargagnrýnin sú að hlutafélagaformið er gott og æskilegt og heppilegt vilji menn nýta kosti þess forms til fulls. Hjá opinberum stofnunum og í opinberum rekstri almennt kemur aðhaldið sem slíkum stofnunum er veitt frá eigandanum, frá ríkinu og þá fulltrúum þess eða frá sveitarfélögunum ef um eignaraðild þeirra er að ræða. Í hlutafélögum kemur aðhaldið frá handhöfum hlutanna í fyrirtækinu. Þeir koma þá saman til hluthafafunda og þeir sjá til þess að þeim markmiðum sem þeir hafa sett starfseminni verði náð á sem bestan og markvissastan hátt. Yfirleitt er það svo að þeir eru að ýta á og þrýsta á um að arður þeirra, það sem þeim á að falla í hlut, verði sem mestur.

Þegar hins vegar búið er til hlutafélag með einum hlut sem þar að auki er settur undir einn ráðherra er vandséð hvernig þessir kostir hlutafélagaformsins fái yfirleitt að njóta sín og það gera þeir ekki. Það er ákveðin mótsögn í því að búa til hlutafélag um einn hlut og væri nær að kalla félagið hlutsfélag eða hlutarfélag því ekki er um marga hluti að ræða.

En það er annað sem menn gætu átt við þegar talað er um sveigjanleika í rekstri og það er nokkuð sem menn hafa fundið opinberri starfsemi til foráttu, þ.e. að réttindi starfsfólksins séu of mikil, þau séu ósveigjanleg að ýmsu leyti. Það sé t.d. erfitt að segja fólki upp störfum. Þetta er gagnrýni sem sett hefur verið fram gagnvart opinberum stofnunum. Við munum eftir umræðunni sem hér varð fyrir ekki svo ýkjalöngu síðan, fyrir fáeinum missirum, um svokallað áminningarfrumvarp. Það var hæstv. fjármálaráðherra sem setti frumvarpið fram og vildi nema úr lögum og þar með úr réttindakerfi opinberra starfsmanna skyldu til að veita starfsmönnum, sem til stóð að segja upp störfum, áminningu áður en til uppsagnar kæmi. Þetta áminningarferli hefur verið sett inn í lögin til að koma í veg fyrir geðþóttauppsagnir og tryggja starfsmönnum að þeir fái ráðrúm til að leiðrétta hugsanlegan misskilning sem er að baki væntanlegri uppsögn eða til að bæta sig að öðrum kosti. Þetta hefur mörgum ekki þótt nóg og hafa viljað færa forstjóranum vald í hendur til þess að segja fólki upp skýringarlaust. Er það þetta atriði sem menn horfa til því þetta er eitt af því sem breytist þegar Rarik verður að Rarik hf., þá breytist þetta og til sanns vegar má færa að fyrirtækið verður sveigjanlegra hvað þetta atriði snertir.

Ég spyr: Þegar við ræðum grunnþjónustu, eins og raforkuframleiðslu, vatn og ýmsa aðra þætti velferðar- og stoðkerfisins í samfélaginu, hvaða þættir eru það þá sem við helst horfum til? Hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Ólafsson, sagði fyrir stundu að það sem menn horfðu fyrst og fremst til varðandi rafmagnið væri afhendingartrygging á rafmagninu og síðan verðlag. Já, gott og vel. Þetta eru vissulega mikilvægir grundvallarþættir en eigum við þá ekki að ræða þá þætti og eigum við ekki að ræða þá með hliðsjón af reynslu manna hvað einmitt þetta snertir? Staðreyndin er sú að við einkavæðingu og markaðsvæðingu rafmagnskerfisins í Evrópu og annars staðar þar sem farið hefur verið út á slíkar brautir, á Nýja-Sjálandi og víðar, hefur dregið úr afhendingartryggingunni. Afhendingartryggingin er minni eftir markaðsvæðingu kerfisins og það sem ekki síður skiptir máli er að verðlag hefur almennt farið hækkandi við þessar breytingar.

Ég ætla aðeins að staldra við þessa tvo þætti. Annars vegar um verðlagið — því það varð heilmikil umræða í fjölmiðlum eftir síðustu áramót um þær breytingar sem þá höfðu átt sér stað vegna kerfisbreytinga sem ríkisstjórnin hafði gengist fyrir.

Í febrúar sagði á forsíðu Fréttablaðsins, með leyfi forseta:

„Daggjald raforku hefur hækkað um 106%“ — og í undirfyrirsögn sagði nánar, einnig með leyfi forseta:

„Daggjald heimila vegna raforkunotkunar hefur tvöfaldast á tveimur árum. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir raforkulögin orsaka hækkunina. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir flest fyrirtæki einnig greiða hærra verð og líkir ástandinu við samráð olíufélaganna.“

Í frétt Fréttablaðsins frá þessum tíma segir m.a., með leyfi forseta:

„Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að frá því að nýju raforkulögin tóku gildi sjáist dæmi þess að raforkuverð til fyrirtækja hafi hækkað um 20–30%. Flest fyrirtæki greiði hærra verð fyrir rafmagnið en áður.“

Síðan er vitnað í Jóhannes Gunnarsson, formann Neytendasamtakanna, sem gagnrýnir verðhækkanir og segir að þeir Sveinn og Jóhannes séu sammála um að samkeppni um sölu á raforku sé ekki til staðar. Í niðurlagi frásagnar Fréttablaðsins segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt reikningi sem Fréttablaðinu barst frá íbúa á sérhæð á Langholtsveginum nam hækkunin fyrir orkunotkun í lok 2003 og svo 2005 ríflega 15% þrátt fyrir að rafmagnsnotkunin hafi verið 6% minni.“

Daginn eftir, fimmtudaginn 2. febrúar, vísa talsmenn orkufyrirtækjanna því á bug á forsíðu að um verðsamráð sé að ræða. Hins vegar segja þeir það vera staðreynd að orkuveiturnar elti hver aðra í verði. Talsmennirnir segja að veiturnar beri allar meiri kostnað vegna raforkulaganna.

Inni í blaðinu er síðan sláandi frásögn:

„Frjáls raforkumarkaður leiðir til hærra verðs hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Enginn hagur af raforkulögum.“

Þetta er fyrirsögn sem ég hefði átt að biðja um leyfi forseta til að hafa eftir og áfram heldur, með leyfi forseta:

„Forstjórar Norðurorku, Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur gagnrýna nýju raforkulögin en samkvæmt þeim er sala á raforku gefin frjáls. Orkuveiturnar bera allar hærri gjöld vegna breytinganna, Orkuveita Reykjavíkur þau hæstu eða 458 millj. kr. Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, Júlíus Jónsson, segir flutningskostnaðinn í raun skatt. Forstjóri Orkuveitu Húsavíkur, Hreinn Hjartarson, segir veituna þeirra greiða tvöfalt til þrefalt hærra verð fyrir tenginguna.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Upphæðin sé ótrúlega há, um 12 millj. í stað 5.“

Og síðar:

„Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, segir að hann sjái engan tilgang með nýju raforkulögunum. Hann þekki engan sem sé ánægður með lögin.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, tekur undir orð forstjóra Norðurorku og þekkir heldur engan sem sé ánægður með nýju raforkulögin. Hann og forstjóri Hitaveitu Suðurnesja vöruðu við breytingunum.“

Það er ástæða til að þakka Fréttablaðinu fyrir þennan fréttaflutning en það eina sem ég hef við fullyrðingar talsmanna orkufyrirtækjanna að athuga í frásögn blaðsins er að þeir gleyma hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, þegar þeir segjast engan þekkja sem lýst hafi ánægju með lögin. Það hefur hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, nefnilega margoft gert. Það er e.t.v. vegna þess að hún ein virðist vera þeim hæfileikum búin að sjá lækkun þegar aðrir sjá hækkun.

Nú er spurningin þessi: Munu þessar upplýsingar hafa hreyft við þjóðinni og munu þær hafa einhver áhrif á það hvernig alþingismenn afgreiða þessi lög, hvernig þeir greiða atkvæði þegar lagafrumvarpið kemur til afgreiðslu á þinginu. Því miður hef ég miklar efasemdir um að upplýsingar af þessu tagi hafi nokkur teljandi áhrif í þingsalnum og það er vegna þess að menn eru búnir að læsa sig í ákveðna niðurstöðu.

Nú má spyrja sem svo hvort ég sé ekki einn í þeim hópi sem búinn er að læsa mig í ákveðinni niðurstöðu. Ég hef að sönnu mjög ákveðna afstöðu í þessu máli en ég tel að ég byggi hana á ítarlegri skoðun og könnun á málinu. Ég hefði viljað fá hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem er núna horfinn af vettvangi, alla vega í bili, til umræðu um reynsluna af markaðsvæðingu raforkukerfanna þar sem farið hefur verið út á þá braut með tilliti til þeirra atriða sem hann nefndi sérstaklega: afhendingar- og verðlagstryggingar.

Eitt af því sem helst var gagnrýnt eftir markaðsvæðingu raforkuframleiðslunnar í Svíþjóð á sínum tíma snerti einmitt afhendingartryggingu. Í ljós kom að raforkufyrirtæki sýndu ekki þá fyrirhyggju eftir markaðsvæðingu sem nauðsynleg var. Raforkufyrirtækin í Svíþjóð höfðu jafnan gert ráð fyrir talsverðri framleiðslugetu umfram það sem nauðsynlegt var við venjubundnar aðstæður til að geta brugðist við ef óvæntar aðstæður kæmu upp, ef veðurfar reyndist kaldara en venja var til eða annað kæmi upp. Fyrirtækin sögðu að þau væru ekki að framleiða rafmagn að gamni sínu, eins og það var einhvers staðar orðað í fjölmiðlum af hálfu eins talsmanna þeirra. Þau töldu sig ekki þurfa að bera kostnað af slíkri öryggisorkugetu. Þetta hefur aftur og ítrekað orðið þess valdandi Svíar hafa þurft að flytja inn raforku frá kolaraforkustöðvum í Póllandi og Þýskalandi þar sem verð fyrir orkuna hefur verið hærra en á sænskum raforkumarkaði.

Fleiri dæmi mætti nefna um þetta. Þetta er einnig reynslan annars staðar í Evrópu. Frá því farið var að markaðsvæða orkugeirann í Evrópu hafa 300.000 starfsmenn misst atvinnu sína á þessu sviði í Evrópusambandinu. Menn hafa einnig bent á annað, sem snertir það sem hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi, afhendingartrygginguna, þ.e. að kerfin standa ekki eins traustum fótum og þau gerðu áður. Ástæðan er rakin til þess að eftir hlutafélagavæðingu hafa fyrirtækin verið tregari til að fjárfesta í nýjungum, í mannskap, menntun og endurmenntun starfsmanna. Þetta er eitt af því sem á hefur verið bent.

Núna fara fyrirtækin frekar út á þá braut að bjóða út sérhvert verkefni á þeirra vegum. Verkefnin eru boðin út og oft fengin í hendur tiltölulega litlum fyrirtækjum sem eiga ekki öll langa framtíð fyrir sér. Þar byggist því ekki upp sú þekking sem var til staðar og er að sönnu víða enn í stóru raforkufyrirtækjunum. Menn hafa bent á að þetta hafi valdið því að allt innra kerfi þessara fyrirtækja er ekki eins traust og það var áður. Bæði hvað snertir verðlagið og afhendingaröryggið er ástandið ekki eins traust og áður var.

En hverjir halda þessu fram? Hverjir tala á þessa lund? Eru það talsmenn verkalýðshreyfingarinnar og hagsmunasamtaka neytenda? Ég hef áður bent á það við þessa umræðu hvernig neytendasamtökin í Noregi hafa ítrekað bent á hvernig orkufyrirtækin þar hafi halað inn gróðann. Þau hafa háfað hann inn í milljörðum króna og ekki sinnt félagslegum skyldum sínum gagnvart samfélaginu sem eðlilegt væri. Á þetta benda einnig matsfyrirtækin. Hér var til umræðu ekki alls fyrir löngu skýrsla frá matsfyrirtækinu Fitch sem lagði mat á íslenska hagkerfið og benti þar m.a. á vafasaman hlut ríkisins í þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir núna. Bent var á ríkisfjármálin sem grundvallarvanda í íslensku hagkerfi. Það eru að sjálfsögðu hinar miklu fjárfestingar sem ríkið hefur staðið fyrir í tengslum við orkufrekan iðnað, bæði nú og einnig yfirlýsingar sem snúa að framtíðinni. Það hefur verið til ills og einnig haft í för með sér slæmar afleiðingar á fjármálamarkaði.

En þetta fyrirtæki Fitch, birti nýlega skýrslu, 15. febrúar síðastliðinn, sem heitir „Public Power 2006 Outlook“. Þessi skýrsla ber saman orkufyrirtæki í Bandaríkjunum, annars vegar orkufyrirtæki á vegum opinberra aðila og hins vegar fyrirtækja í einkaeign. Í ljós kemur að 87% 144 orkufyrirtækja í opinberri eigu fengu það mat að þau væru stöðug sem kallað var, „stable“ hefur hugtakið að öllum líkindum verið. Þá fá 8% þeirra jákvæða einkunn en aðeins 5% eru talin eiga neikvæðar framtíðarhorfur. Einkafyrirtækin fá mun lakari einkunnagjöf í þessari úttekt.

Með hliðsjón af því sem sagt er um sveigjanleikann kemur fram að opinberu fyrirtækin hafa samkvæmt skýrslu Fitch verið sveigjanlegri í rekstri en hin einkareknu. Þar er talið að fyrirhyggjan hafi verið meiri og þau hafi verið líklegri til að safna í varasjóði til að bregðast við á erfiðum stundum. Það væri fróðlegt að fara nánar í skýrsluna. Það má vel vera að ég geri það í síðari ræðu minni við 2. umr. um málið.

Ég er að ræða um sveigjanleikann annars vegar og stöðugleikann hins vegar. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson formaður iðnaðarnefndar hóf mál sitt á að tala um mikilvægi þess að tryggja sveigjanleika í rekstri. Ég varpa þeirri spurningu til baka til hans: Hvað á hann við með sveigjanleika? Er hann að tala um fjárfestingarsveigjanleika? Er hann að tala um sveigjanleika gagnvart starfsfólkinu, að auðveldara verði fyrir forstjóra fyrirtækisins að segja fólki upp o.s.frv.? Hvað á hann við með sveigjanleika? Ég spyr einnig: Er ekki hægt að tryggja þann sveigjanleika sem þarf að vera til staðar, ég er vissulega sammála honum þar, með annars konar rekstrarformi en hlutafélagsformi? Í hlutafélagi með einum eiganda tryggjum við ekki kosti hlutafélagsformsins. Við gerum það ekki. Hins vegar óhjákvæmilega koma ýmsir ókostir í ljós og þeir snúa ekki síst að starfsmönnum fyrirtækisins.

Hér var hv. þm. Kjartan Ólafsson aftur mættur til leiks. Hann talaði um mikilvægi þess að tryggja afhendingu og verðlag. Ég hef vísað til reynslu í Evrópu og Nýja-Sjálandi og víðar. Þar hefur komið fram að einkavæddu fyrirtækin hafa síður verið fær um að tryggja afhendingu á rafmagni en opinberu fyrirtækin. Ég hef einnig bent á að verðlag hafi farið hækkandi með markaðsvæðingunni.

Nú vil ég beina því til hv. þingmanns að hann færi okkur sannanir fyrir því eða vísbendingar um að þessu sé ekki svona farið. Ég vil fá dæmin. Ég hef í umræðunni reitt fram dæmi um hvað þegar hefur gerst við kerfisbreytingar af þessu tagi. Látum vera að hv. þingmaður vilji halda því fram að kostir kerfisins eigi enn eftir að koma í ljós vegna þess að markaðurinn sé ekki farinn að virka sem skyldi. En þá vil ég biðja hann um að segja mér hver reynslan er erlendis frá. Í Evrópu hefur verð á rafmagni farið hækkandi við markaðsvæðingu raforkugeirans. Afhendingartryggingin sem hann ræddi um er rýrari en áður var. Ég vísa þar í neytendasamtök á Norðurlöndum, til verkalýðssamtaka og í þekkt matsfyrirtæki. Ég vísaði sérstaklega í skýrslu sem var gefin út af fyrirtækinu Fitch, um samanburð á orkufyrirtækjum í eigu hins opinbera og einkareknum fyrirtækjum. Þessi skýrsla var birt 15. febrúar og nefnist „Public Power 2006 Outlook“. Þar fá einkareknu fyrirtækin lakari einkunn en hin. Eitt af því sem menn benda á í því sambandi er að krafan um arðsemi er reidd svo há og er svo óbilgjörn að þau sýna ekki sömu fyrirhyggju og opinberu fyrirtækin almennt gera.

Nú er allur gangur á því hvernig raforkukerfið er rekið í Bandaríkjunum. Þar er um að ræða miklu sveigjanlegra fyrirkomulag en í Evrópu sem er með geysilega miðstýrt kerfi. Ástæðan fyrir því að Los Angeles slapp við Enron-hneykslið á sínum tíma var einfaldlega að raforkukerfið í Los Angeles var í eigu og rekið á vegum borgarinnar. Aðrir hlutar kerfisins í Kaliforníu voru í klónum á Enron, a.m.k. uppistaða kerfisins. Þar áttu menn sér enga vörn.

Þetta er eitt sem við ættum að hafa í huga þegar við erum að tala um stöðugleika og afhendingaröryggi. Staðreyndin er líka sú að hlutafjáreigendur eru ekki traustir bakhjarlar í opinberri starfsemi sem þarf alltaf og stöðugt að vera til staðar. Við höfum um þetta fjölmörg dæmi. (KÓ: Hvað með flugið?) Ha? (KÓ: Hvað með flugið?) (Forseti hringir.)

(Forseti (DrH): Ekki tveggja manna tal.)

Það er gaman að fá það sem á útlensku er kallað inspírasjón. Hvað með flug? Það er rétt. Hvar drögum við línurnar um aðkomu ríkisins? Á sínum tíma var nauðsynlegt talið að ríkið kæmi að samgöngumálum í ríkari mæli en nú er. Það er rétt en síðan skapast nýjar aðstæður og menn telja að markaðurinn geti séð um samgöngurnar. Ég nefndi áðan hvað hefði gerst í strandsiglingum við Ísland. Þær hreinlega lögðust af. Þá eiga menn ekki að vera svo fastir í eigin hugmyndafræði að þeir útiloki sjálfkrafa allt sem kemur frá hinu opinbera. (SigurjÞ: En er þetta ekki öfgaflokkur?)

Hvað um flugið? segir hv. þingmaður. Snýst ekki spurningin að einhverju leyti um samkeppni? Ef við ætlum að nýta kosti samkeppninnar þarf hún að vera til staðar. Þetta er nokkuð sem sjálfstæðismenn, hægri menn og frjálshyggjumenn þurfa að svara. Þeir þurfa að skýra það fyrir okkur hvers vegna eigi að markaðsvæða starfsemi sem ekki fer inn á samkeppnismarkað að heitið getur. Nákvæmlega þetta hefur gerst á raforkumarkaðnum í Evrópu, þ.e. samkeppnismarkaðurinn varð ekki til. Það er þess vegna sem forstjórarnir sem ég vísaði til áðan og vitnaði í eru að tala um samráð á borð við samráð olíufélaganna. Muna menn hvernig það var er menn komu sér saman um verðlagið? Ekki nóg með það heldur tóku þeir útboðum og settust síðan á fundi saman til að ákveða hvernig skipta skyldi ránsfengnum á milli sín.

Ætlum við inn í svona umhverfi með vatnið og raforkuna? Ef menn ætla með raforkuframleiðslu og dreifingu í markaðsvæðingu á Íslandi verða þeir að geta sýnt fram á að til staðar verði markaður og samkeppni. Menn hafa reynt þetta í Noregi og það eru ekki margar vikur síðan Ríkisútvarpið sagði okkur síðustu fréttirnar frá raforkumarkaðnum í Noregi. Þær voru á þá lund að markaðurinn hefði ekki skilað því sem menn höfðu vonast eftir. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, það var haft eftir forsvarsmönnum raforkufyrirtækjanna að almenningur væri ekki búinn að átta sig á því að hann væri kominn á markað. Með öðrum orðum: Fólkið er svo vitlaust að það skilur hve búið er að búa til stórkostlegt kerfi fyrir það.

Það er einfaldlega þannig að við viljum hafa vissa grunnþætti til staðar án þess að þurfa að vakna á morgnana eða fara að sofa á kvöldin með verðskrána í höndunum til að vita hvar maður geti fengið kveikt á ljósinu örlítið ódýrar á morgun en í dag. Lífið er ekki svona, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, að við ætlum að lifa í markaðshugsun frá degi til dags, frá því að við vöknum á morgnana og þar til við förum að sofa á kvöldin. Þannig er það ekki. Þessi þjónusta á að vera félagslega rekin. Menn segjast reyndar ætla að reka hana þannig í frumvarpinu, gott ef er ekki í 3. gr. frumvarpsins, að þrátt fyrir hlutafélagavæðingu eigi Rarik hf að vera í eigu ríkisins.

Eða hvað? Við heyrðum hv. þm. Kjartan Ólafsson tala um það við 1. umr. að Rafmagnsveitur ríkisins hf. ættu að sjálfsögðu að vera falar ef rétt verð fengist fyrir þær. Nú heyri ég ekki betur en hv. formaður iðnaðarnefndar og talsmaður Framsóknarflokksins við þessa umræðu hafi sagt fyrir stundu að hann liti svo á að Rarik hf. yrði að meira hluta í eigu ríkisins. Nú þarf ég að fara varlega í að staðhæfa nákvæmlega um orð hv. þingmanns. En ég skildi hann svo að hann teldi óvarlegt að staðhæfa að Rarik hf. yrði um alla framtíð á vegum samfélagsins, eign ríkisins. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður fullyrti að við ættum ekki að ganga út frá slíku. (BJJ: Að það mundi eiga meiri hluta í fyrirtækinu.) Já, meiri hluta í fyrirtækinu, akkúrat, ég heyrði það rétt. Við ættum að eiga meiri hluta í fyrirtækinu. En segir ekki í 3. gr. að það eigi ekkert að selja það? Er það ekki svo? (BJJ: Þetta er ótrúlegt.)

(Forseti (DrH): Háttvirtir þingmenn eiga ekki að vera með tveggja manna tal.)

Ótrúlegt, segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson.

Í 3. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Öll hlutabréf í hlutafélaginu skulu vera eign ríkissjóðs. Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.“

Þegar ég segi að það komi mér á óvart að formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jónsson, skuli segja að meiri hluti hlutafjárins skuli vera í eign ríkisins þá segir hann: „Þetta er ótrúlegt.“

Hvað meina frumvarpshöfundar? Hvað meinar ríkisstjórnin með þessu? Er það útgáfa hv. þm. Kjartans Ólafssonar eða er það útgáfa hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar? Eða er það frumvarpið sem við erum að ræða hér? Hvað er hið rétta? Ég vil fá að vita það og ætlast til þess að fá þær upplýsingar.

Áður en ég vík að umræðunni sveigjanleikann og stöðugleikann langar mig til að vekja athygli hv. þm. Kjartans Ólafssonar á því sem ég fjallaði um fyrir stundu. En hann gaf mér tilefni til að bregðast við ummælum hans úr sal. Hlutafjáreigendur eru ekki traustir bakhjarlar. Það er alveg sama hvaðan þeir koma, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða aðrir. Þeir fara þangað sem arðurinn er mestur hverju sinni. Það er meira að segja þannig í lögum um lífeyrissjóði að þeim er óheimilt annað en að fara með hlutafjáreign sína þangað sem hún gefur mestan arð hverju sinni. Það segir svo í lögum um lífeyrissjóði.

Við höfum fyrir okkur fjöldann af dæmum úr orkufyrirtækjum og úr vatnsfyrirtækjum þar sem hlutafjáreigendur hafa runnið af hólmi þegar raunverulega þurfti á þeim að halda. Þá voru þeir farnir. Þetta gerðist t.d. hjá franska eða alþjóðlega fyrirtækinu Vivendi. En það mun hafa verið árið 2002 að þetta fyrirtæki, sem er eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heimsins, fór nánast á hausinn, varð nánast gjaldþrota. Hlutabréfin féllu í verði um 80%. Ástæðuna mátti ekki síst rekja til glannalegra fjárfestinga sem fyrirtækið réðst í undir þáverandi stjórn, ekki í vatni heldur í allt öðru. Vivendi var nefnilega orðið eitt af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum í heimi. Þegar fjaraði undan fyrirtækinu á þeim vettvangi var vatnið í hættu og þeir sem nutu þjónustu Vivendi fjölþjóðafyrirtækisins.

Eitt stærsta orkufyrirtæki Bretlands framleiðir og selur um 25% rafmagns í Bretlandi. Það neyddist til þess á árinu 2002 að leita neyðaraðstoðar frá bresku ríkisstjórninni. Þá var markaðsvirði hlutafjárins, sem var um 2 þús. millj. pund, komið niður í 173,8 millj. punda. Þá höfðu hlutafjáreigendur hreinlega hlaupið annað með fjármuni sína. Breska ríkisstjórnin varð að koma til sögunnar með stuðning. Hv. þm. Kjartan Ólafsson gæti minnst þess, af því að hann minntist á flugið áðan, að sú var tíðin að íslenska ríkið varð að koma til aðstoðar í flugrekstrinum. Þá þótti mönnum þeir ekki vera of góðir til að taka við slíkum stuðningi. Það er nefnilega stundum þannig að samfélagið þarf að koma til aðstoðar ef illa árar í starfsemi sem skiptir samfélagið allt miklu máli.

Þegar það kemur í ljós að afhendingaröryggið er miklu meira hjá opinberu fyrirtækjunum, er meira hjá fyrirtækjunum áður en þau eru markaðsvædd en eftir, að verðlagið er hærra og hefur farið hækkandi hjá markaðsvæddum fyrirtækjum, þurfa menn þá ekki að fara að endurskoða svolítið sína hugmyndafræði? Er þá ekki ráð að Sjálfstæðisflokkurinn setjist og lesi sér pínulítið til, fari í gegnum skýrslur og álitsgerðir og dragi lærdóm af reynslu þeirra sem hafa gengið í gegnum þessar breytingar?

Ég hef að nokkru komið inn á annað efnisatriðið sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi, þ.e. að samkeppnisumhverfið muni færa niður raforkuverð. Þetta er bara staðhæfing: Samkeppnisumhverfið mun færa niður raforkuverð. Ef reynslan sýnir okkur að það hafi ekki gerst þar sem menn hafa markaðsvætt raforkukerfin, þarf þá ekki að endurskoða þessa staðhæfingu? Mér þætti fróðlegt að heyra hv. þm. Birki Jón Jónsson fjalla örlítið um það. Eða er þetta kannski enn eitt dæmi um ótrúlegan málflutning, eins og hann nefndi, þegar hann kallaði fram í áðan? Þarf ekki að hyggja að þessu?

Ég veit að Framsóknarflokkurinn staðhæfir að allt aðrir hlutir hafi verið að gerast og þetta hafi allt farið lækkandi þótt skýrslur sýni að raforkuverðið hafi farið hækkandi. Það er ekki ýkja langt síðan hér var á ferðinni einn af helstu sérfræðingum Evrópusambandsins í raforkumálum, það var ráðherra sem fer með raforkumálin innan stjórnarnefndar Evrópusambandsins.

Hann sagði að sér hefði komið á óvart — hann var mjög trúaður á ágæti markaðskerfisins — hve illa hefði gengið að færa raforkuverðið niður og markaðurinn hefði ekki orðið til þess að lækka raforkuverðið í þeim mæli sem hann hefði vonast til. Sá maður heitir Andris Piebalgs. Það var reyndar þvert á það sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði í fjölmiðlum dagana sem þessi framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði orkumála var hér, því að hæstv. ráðherra sagði þá í fjölmiðlum að markaðsvæðing rafmagns innan Evrópusambandsins hefði gefið góða raun, eða orðrétt með leyfi forseta:

„Almennt séð, þá hefur þetta gengið vel, ef við tölum um Evrópu, þessi markaðsvæðing raforkukerfanna. Og það held ég sé nú svona almenn skoðun.“

Sömu daga var fyrrnefndur maður staddur hér á landi, og hann sagði, svo ég endurtaki það, að það hefði komið mönnum á óvart hve lítil viðskipti með rafmagn hefðu orðið yfir landamæri eftir markaðsvæðingu, verðlag hefði hækkað en ekki lækkað og meiri fákeppni væri við lýði en æskilegt væri. Síðan bætti Andris Piebalgs því við að hann vonaðist til að þetta stæði allt til bóta og var greinilega trúaður á hinn frjálsa markað og ágæti þeirra breytinga sem hrundið hefði verið af stað. En það breytti því hins vegar ekki að breytingarnar hafa hingað til ekki gefið góða raun eins og hæstv. iðnaðarráðherra staðhæfði algerlega út í loftið. Við heyrum það núna við þessa umræðu staðhæft af hálfu formanns iðnaðarnefndar, Birkis Jóns Jónssonar, að samkeppnisumhverfið muni færa niður raforkuverðið. Þetta er staðhæfing sem byggir á einhverri óskhyggju og líkindareikningi um að kerfið hljóti að vera til góðs jafnvel þótt allar staðreyndir máls vísi í þveröfuga átt.

Þriðja atriðið sem ég ætla að staldra við og fram kom í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar voru staðhæfingar hans um að ekki stæði til að einkavæða Landsvirkjun. Það stæði aldeilis ekki til og vísaði í samflokksmenn sína í Framsóknarflokknum, vísaði í hæstv. forsætisráðherra sem hefði miklar efasemdir, held ég hafi verið hugtakið sem hann notaði, um einkavæðingu raforkugeirans. Ég heyrði ekki betur en hann hefði einnig vitnað í hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, hvað þetta snerti.

Ég ætla, hæstv. forseti, að gefa mér svolítinn tíma núna til að fjalla nánar um þessi mál og þær staðhæfingar sem við heyrum frá Framsóknarflokknum um nákvæmlega þetta atriði. Sá atburður gerðist hinn 13. mars að hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, bar þann sem hér stendur og aðra þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mjög alvarlegum sökum. Hún ásakaði okkur um að hafa falsað ummæli hennar um nákvæmlega þetta efni. Ráðherrann sagðist byggja ásakanir sínar á sönnunum og gerði því skóna að þingmenn VG kynnu jafnvel, svo ég vitni í hæstv. ráðherra, að safna „í fæl fölsuðum ummælum“.

Orðrétt sagði Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. ráðherra á Alþingi um þetta efni, með leyfi forseta:

„En það sem ég ætla að segja hér fyrst og fremst er — af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf þessa umræðu og vitnaði í orð ákveðins manns í viðskiptalífinu — að það er ekkert að marka það sem þessir þingmenn Vinstri grænna koma hér fram með og vitna í ummæli manna og þingmanna og ráðherra. Ég er með sönnun þess að þeir hafa reynt að falsa það sem ég hef sagt.

Það er þannig að ég kem í Kastljósþátt fyrir alllöngu þegar undirrituð var viljayfirlýsing vegna kaupa ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Þeir hafa tvisvar sinnum sagt rangt frá því sem ég sagði. Þeir eru með þetta í fæl þannig að ég veit ekkert nema þeir safni bara í fæl fölsuðum ummælum. Þegar ég er spurð hvort þetta sé fyrsta skrefið í einkavæðingu Landsvirkjunar segja þeir að ég hafi sagt: Já, það eru uppi áform um að breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag o.s.frv. Ég er búin að fá þennan þátt og er búin að horfa á þetta og ég segi: Ja, ég er að hugsa mig um og segi svo: Það eru uppi áform um að breyta síðan þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag. Þetta er hikorð, ja, og síðan held ég áfram og segi: Það eru uppi áform um þetta.

Þannig að það er búið að segja hér tvisvar sinnum að ég hafi sagt já, og það er falsað. Þeir eru með þetta í fæl og ég fór til hv. þingmanns til að vita hvort þetta væri bein útskrift af Fjölmiðlavaktinni. Nei, það er búið að pikka þetta upp aftur og breyta því. Þetta eru Vinstri grænir á Alþingi.“

Það er alvarlegt að saka menn um fals eins og hér er gert. Þessi kostulegi málatilbúnaður ráðherrans er reyndar kapítuli út af fyrir sig því ja eða já úr munni hæstv. ráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, í umræddu viðtali skiptir engum sköpum. Deilur snerust um efnisinnihald ummæla ráðherrans, hvort til stæði að opna á einkavæðingu raforkugeirans. Hinn 23. febrúar á síðasta ári reyndi iðnaðarráðherra að bera það af sér á Alþingi að hún hefði gefið það afdráttarlaust út að ákveðið hefði verið að gera Landsvirkjun að hlutafélagi. Það voru þingmenn VG sem höfðu þá á Alþingi vakið máls á ummælum hennar í fjölmiðlum. Ráðherra brást sem endranær ókvæða við og sagði að erfitt væri að tala til þeirra „sem heyra ekki það sem maður segir“. Hún hefði aðeins sagt að það „gæti verið“ að fyrirtækinu yrði breytt í hlutafélag „sem opnaði á möguleika á að nýir aðilar komi að rekstri fyrirtækisins, þá eru það ákveðin skilaboð. Þetta getur komið til greina“. Þessi ummæli urðu þess valdandi að farið var að kanna hvað ráðherra hefði áður sagt um þetta efni opinberlega.

Í ljós kom að fjölmiðlar höfðu ekki skilið yfirlýsingar ráðherrans í því samhengi sem það nú var sett fram heldur á nákvæmlega sama hátt og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þannig hafði eftirfarandi frásögn verið í forsíðufrétt Morgunblaðsins föstudaginn 18. febrúar 2005, með leyfi forseta:

„Lífeyrissjóðirnir kunna hugsanlega að verða framtíðareigendur sameinaðs fyrirtækis Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins að sögn Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra. Viljayfirlýsing um að ríkið leysi til sín eignarhluta Reykjavíkur og Akureyrar var undirrituð í gær og mun ríkið eignast fyrirtækið að fullu um næstu áramót, takist að ná samkomulagi um verð hlutar sveitarfélaganna tveggja. Áform eru uppi um að sameinuðu fyrirtæki verði breytt í hlutafélag eftir þrjú ár.“

Hér kemur, inni í þessari frétt, virðulegi forseti, tilvitnun í ráðherrann.

„Á þeim tímapunkti verður að meta hvenær er rétt að opna fyrirtækið fyrir nýjum eigendum,“ segir Valgerður. „Það er búið að móta þá stefnu að til þess muni koma. Það er ekki okkar framtíðarsýn að ríkið eitt muni eiga þetta fyrirtæki til framtíðar.“ Hún sagði ekki búið að móta hugmyndir um framtíðarsamsetningu hluthafa, „en því er ekki að leyna að t.d. lífeyrissjóðir hafa verið nefndir í því sambandi“.“

Í Kastljósi ríkissjónvarpsins fimmtudaginn 17. febrúar 2005, viðraði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra viðhorf sín í hinu margumrædda ja eða já viðtali, sem hún segir mig hafa „pikkað upp“ og „breytt“. Staðreyndin er sú að ég fékk viðtalið í gegnum upplýsingaþjónustu Alþingis og naut aðstoðar Alþingis. Ásökun Valgerðar Sverrisdóttur um að ég hafi falsað viðtalið jafngildir ásökun um skjalafals sem er saknæmt athæfi.

Í þessu viðtali í Kastljósi sjónvarpsins kemur skýrt fram hver er ásetningur stjórnvalda um framtíð Landsvirkjunar: Og nú ætla ég að vitna í þetta viðtal Kastljóssins, með leyfi forseta:

„Fréttamaður: En þessi viljayfirlýsing, sem var undirrituð í dag, er þetta eins og er talað er um fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu Landsvirkjunar?

Valgerður Sverrisdóttir: Já, það eru uppi áform um það, að síðan breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag, hugsanlega árið 2008. Þá erum við komin í gegnum Kárahnjúkauppbygginguna og eftir að fyrirtækið er orðið hlutafélag að þá er ekki ólíklegt og reyndar áform uppi um það að aðrir aðilar geti komið að fyrirtækinu. Þetta er náttúrlega gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Vonandi verður það ekki síður verðmætt á þessum tíma og það er engin sérstök ástæða til þess að ríkið haldi eitt utan um það.

Fréttamaður: Sérðu fyrir þér hverjum verði boðið að kaupa hluti í þessu hlutafélagi sem þá verður stofnað um Landsvirkjun? Getur almenningur keypt eða verður þetta boðið út einhvern veginn öðruvísi?

Valgerður Sverrisdóttir: Við erum náttúrlega bara ekki komin svo langt. Þetta er svo langt frammi í framtíðinni, en almennt hefur það verið þannig þegar ríkið hefur verið að selja eignir sínar að þá hefur það verið gert allt mjög faglega, vil ég halda fram. Og það hefur svo sem gengið ágætlega, það sem við höfum einkavætt fram að þessu.“

Tilvitnun lýkur í þessa Kastljósumfjöllun fimmtudaginn 17. febrúar 2005.

Í fréttum ríkissjónvarpsins fyrr sama kvöld viðurkenndi ráðherrann að vissulega gætu fjárfestar á markaði tekið arð út úr fyrirtækinu og að ekki væri hægt að útiloka að eignarhaldið yrði erlent, en studdi áform sín um einkavæðingu með eftirfarandi ummælum, með leyfi forseta:

„Ég held að við séum nú svona almennt séð orðin þeirrar skoðunar, Íslendingar, að ríkisreksturinn sé ekki endilega besta formið.“

Hæstv. forseti. Hér kemur fram svo ekki er um að villast að hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hefur lýst því á afdráttarlausan hátt að áform séu uppi um að gera Landsvirkjun að hlutafélagi, taka það úr ríkisrekstri og fela það í hendur öðrum aðilum, hugsanlega fjárfestum á borð við lífeyrissjóði. Ég gæti hæglega vitnað til fleiri ummæla ráðherrans sem öll eru á sama veg en læt hér staðar numið — að sinni.

Ég hef reifað þessi mál í blöðum. Ég hef lagt fram gögn á Alþingi, alþingismönnum til skoðunar. En hvers vegna geri ég það? Hvers vegna fer ég svona rækilega í þetta? Það er vegna þess að hún hefur leyft sér að saka mig og aðra þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að falsa ummæli sín. Ég hef nú sett fram gögn á Alþingi sem sýna ótvírætt að ásakanir ráðherrans byggjast á ósannindum. Hvorki ráðherrar né alþingismenn, né nokkur annar ef því er að skipta, eiga að komast upp með að ljúga fölsunum upp á pólitíska andstæðinga sína. Að slíku hefur Valgerður Sverrisdóttir nú orðið uppvís.

Hæstv. forseti. Ég ákvað að fara rækilega í saumana á þessu máli nú við 2. umr. þess, í ljósi þeirrar staðhæfingar hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að áform um einkavæðingu á raforkugeiranum séu ekki frá Framsóknarflokknum komin, þar séu uppi miklar efasemdir um slíkt. Nú kann það vel að vera að menn hafi fengið bakþanka og séu annarrar skoðunar í dag en þeir voru í gær og vissulega ber að virða það ef fólk vill sveigja af leið, það á að virða það. Það á ekki að vera nokkrum manni til vansæmdar að skipta um skoðun, að sjálfsögðu ekki. En það á að fara satt og rétt með og ekki bera rangar sakir upp á fólk, ekki saka það um falsanir og óheiðarleika þegar ekkert slíkt var uppi. Við höfum einfaldlega verið eftir okkar bestu getu og sannfæringu að fylgjast með þeim yfirlýsingum sem frá stjórnvöldum hafa komið og gagnrýna þær yfirlýsingar ef um slíkt hefur verið að ræða og það sem frá talsmönnum Framsóknarflokksins hefur komið varðandi framtíð raforkugeirans hefur svo sannarlega gefið tilefni til mikillar gagnrýni og mikilla efasemda. Við rekum okkur á það aftur og ítrekað að þegar einhverju er haldið fram sem þá stundina þykir óþægilegt að minnast, þá er staðhæft að yfirlýsingarnar hafi aldrei verið gefnar. Þetta er málflutningur sem hreinlega gengur ekki.

Fjórða atriðið sem ég vil vekja athygli á í ræðu hv. formanns iðnaðarnefndar nú við 2. umr. málsins er að það sé verið að gera Rarik hf. að hlutafélagi í mjög mikilli sátt við starfsmenn og samtök þeirra. Ég held að hugtakið sem hafi verið notað hafi verið „einlægur“, einlæg ósk starfsmanna að hlutafélagavæða Rarik, ég held ég hafi náð þessu rétt.

Ég efast ekkert um að margir starfsmenn Rariks eru því alveg sammála að fyrirtækið eða stofnunin eða starfsemin verði hlutafélagavædd, ég efast ekkert um það. Ég leyfi mér hins vegar að staðhæfa að það eru margir sem eru annarrar skoðunar, það leyfi ég mér að staðhæfa. Það hefur tíðkast í seinni tíð og þetta er að gerast aftur með Ríkisútvarpið að þar eru til eins konar regnhlífarsamtök sem stéttarfélögin og hagsmunafélögin hafa átt aðild að, að þau hafa fyrst og fremst verið kölluð til ráðgjafar og þá síður hin sem standa vaktina varðandi réttindi starfsfólksins.

Þegar málið var tekið fyrir í iðnaðarnefnd og leitað til starfsmanna var gert tvennt, sem er hið besta mál. Það var leitað til eins konar starfsmannaráðs og það var leitað til stéttarfélaganna. Það var leitað til ASÍ og BSRB. Í starfsmannaráðinu eiga sæti einhverjir fulltrúar sem einnig tilheyra samtökunum en eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér voru menn ekki fyrst og fremst, alla vega ekki allir, komnir á fund iðnaðarnefndar til að lýsa yfir einlægri ósk sinni um að Rarik yrði gert að hlutafélagi. Eftir því sem mér er sagt hafi menn ekki síður verið að staðnæmast við spurningar sem lutu að réttindum þeirra og framtíð. Það átti svo sannarlega við þegar fulltrúar heildarsamtakanna komu að þessum málum.

Reyndar er munur á umsögn Alþýðusambands Íslands og BSRB hvað þetta varðar. Alþýðusambandið er, ef ég man rétt, ekki gagnrýnið á þessa breytingu, leggst ekki gegn frumvarpinu að sinni en áskilur sér rétt að koma athugasemdum á framfæri síðar, gefist tilefni til þess. Þetta sýnist mér vera í bréfi sem er dagsett 27. mars. Getur það verið? Hlýtur þetta ekki að eiga að vera 27. febrúar? Trúlega.

Alþýðusambandið bendir á hættuna sem stafar af samþjöppun á markaði, því að hér segir, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið leggur áherslu á það að breytt rekstrarform Rariks leiði ekki til aukinnar samþjöppunar á raforkumarkaði og dragi þannig úr samkeppni með tilheyrandi hækkunum á raforkuverði til heimila og fyrirtækja.“

Sem sagt, þarna eru varnaðarorð uppi og síðan er einnig vísað í bakábyrgð ríkisins og það er vísað til þess að Rarik hafi gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu dreifikerfis og dreifingu raforku til íbúa og fyrirtækja í dreifðum byggðum landsins, og að Rarik hafi þannig tekið þátt í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Það sé mikilvægt að tryggja íbúum og fyrirtækjum á landsbyggðinni áfram raforku á hagstæðu verði og bent á að forsenda fyrir uppbyggingu atvinnulífs í framtíðinni er hagstætt raforkuverð.

Þetta eru nú heldur betur aðrir tónar en við heyrðum úr munni starfsmanns Sjálfstæðisflokksins áðan sem talaði af mikilli fyrirlitningu til alls þess sem hefði verið gert á samfélagslegum forsendum hér í landi. Í þessari umsögn Alþýðusambandsins er einmitt bent á að Rafmagnsveitur ríkisins hafi gegnt mjög veigamiklu félagslegu hlutverki og gegnt mikilvægu hlutverki að auki í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Ég vil taka undir þá áherslu Alþýðusambandsins að forsenda fyrir uppbyggingu atvinnulífs í framtíðinni sé hagstætt raforkuverð, sem leiðir hugann að því að það eru fyrst og fremst stóriðjufyrirtækin sem fá afsláttinn, sem liggja í bómull ríkisstjórnarinnar og allt er gert fyrir á sama tíma og hinir eru látnir borga brúsann. Þessir hinir eru að sjálfsögðu landsmenn allir og fyrirtækin hér í landinu. Þessir aðilar sitja ekki við sama borð hvað snertir raforkuverðið í landinu.

Það vekur athygli mína að þeir aðilar úr röðum atvinnurekenda sem tjá sig um frumvarpið líta á þetta sem skref, sem eðlilegt skref, segir hér í álitsgerð frá Samtökum atvinnulífsins og þá er verið að vísa í markaðsvæðingu þessa kerfis.

Hér segir á undan, með leyfi forseta:

„Með þessari breyttu skipan er horfið frá fyrirkomulagi þar sem einkasöluréttur opinberra fyrirtækja hefur verið allsráðandi en stefnt að markaðskerfi og þjóðhagslega hagkvæmum raforkubúskap.“

Gott og vel. Auðvitað gerum við ráð fyrir því að allir séu að reyna að gera sitt besta og menn trúi því að þetta markaðskerfi verði þjóðhagslega hagkvæmur raforkubúskapur. Það sem við erum hins vegar að benda á er að reynslan erlendis frá, frá Evrópu, Nýja-Sjálandi og frá Bandaríkjunum einnig, er bara gagnstæð þessu. Það er stefnt inn í fákeppni, samráð, hærra verð, minna raforkuöryggi. Þetta kann að vera í lagi á meðan eigendur eru opinberir aðilar og hugsa um það eitt að tryggja þjónustu, en um leið og markaðslögmálin eru virkjuð til fulls og nýir eigendur koma til sögunnar, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða aðrir aðilar, þá breytist öll sú hugsun sem kerfið hvílir á og það fer að haga sér öðruvísi. Það er þetta sem reynslan sýnir okkur.

Reyndar er kerfið í Bandaríkjunum margslungnara eins og ég vék að hér áðan, ég talaði um hið miðstýrða evrópska kerfi og síðan margbreytileikann í Bandaríkjunum þar sem sumar borgir eiga sín eigin raforkukerfi og sum svæði eiga sín raforkukerfi. Önnur svæði og aðrar borgir eru með þetta einkavætt. Síðan er annað sem ber að hyggja að þegar bandaríska kerfið er skoðað, það er munurinn á milli kerfa sem eru háð opinberu regluverki annars vegar og hinna sem byggja á óheftum markaðsbúskap, það er talað um regúleringu, „regulation“ í kerfinu. Það hefur verið stríðið sem menn hafa háð í Bandaríkjunum, annars vegar neytendasamtök og verkalýðssamtök og önnur almannasamtök, og hins vegar frjálshyggjan og fjármagnið sem ekki hefur viljað hafa neinar hömlur. Í Evrópu hins vegar hafa átökin staðið á milli þeirra sem hafa viljað viðhalda opinberum rekstri og hinna sem vilja einkavæða óháð því hvort þeir vilji síðan setja einhverjar hömlur eða eitthvert regluverk á kerfið.

Við ræddum þetta á sínum tíma þegar vatnsveiturnar komu hér til umfjöllunar. Þá var það álit margra almannasamtaka, verkalýðssamtaka og okkar margra hér á Alþingi að vatnsveiturnar ættu alfarið að vera á hendi opinberra aðila, þá eru það einkum sveitarfélögin. Ofan á varð að heimila þeim að umbreyta sér í hlutafélög en á móti í eins konar málamiðlun fengum við því framgengt … (Forseti hringir.)

(Forseti (DrH): Á hv. þingmaður mikið eftir?)

Talsvert.

(Forseti (DrH): Þá mun forseti gera hlé núna í hálftíma.)

Ef ég má aðeins bara ljúka setningunni, þá fengum við því framgengt að hömlur voru settar á hve mikinn arð mátti taka út úr fyrirtækjunum.