132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi lífeyrisréttindi. Þegar lífeyrislögunum var breytt síðla árs 1996, breytingarnar komu til framkvæmda í ársbyrjun 1997, þá var A-deildin sett á laggirnar. Hv. þingmaður spyr um muninn á þessum tveimur deildum eða hvernig ég líti á þann mun. Hugsunin var sú að búa til nýja deild með jafnverðmætum réttindum og gamla deildin var með. Nú geta menn deilt um hvort það hafi tekist eður ei en það var hugsunin að þessar tvær deildir ættu að vera jafnverðmætar.

Það sem ég vil að gerist í kjaraumhverfinu er að það sé stefnt að því að laga kjörin og þess vegna samræma kjörin á milli fólks í mismunandi samtökum og að stefnt verði að því að gera það upp á við. Mín skoðun varðandi lífeyrisréttinn er sú að ég vil viðhalda tryggum lífeyrisréttindum, ég vil leggja talsvert mikið upp úr því að hafa góð lífeyrisréttindi og ég held að almennt sé það skoðun manna sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum og standa utan samtaka opinberra samtaka, að vilja jafna þessi lífeyriskjör upp á við og það er að gerast smám saman og það er nokkuð sem ég styð.

Varðandi vatnalögin og almannaeign. Já, fallvötnin, gufan og það sem býr til raforkuna eða við nýtum til að framleiða raforku, ég lít tvímælalaust svo á að það sé almannaeign og eigi að tryggja að verði áfram í eigu og undir handarjaðri almennings.