132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:45]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, í raun og veru, ég held að það skilji ekki mikið á milli okkar hv. þingmanns hvað varðar hræðsluna. Það er kannski grundvallaratriði. Þrátt fyrir það held ég að Rafmagnsveitur ríkisins eigi að fá það form að geta rekið sig eins og hvert annað hlutafélag, þó með þeim fyrirvörum sem ég hef sett hér að Sjálfstæðisflokkurinn nái því ekki í gegn að braska með eða selja hluti eða allt hlutafélagið sem við erum að tala um að stofna, þ.e. Rafmagnsveitur ríkisins, Landsvirkjun eða annað. Maður verður að trúa því og treysta að framsóknarmenn, sem þó kalla ekki allt ömmu sína í þessu, hafa þó sagt hér að það komi aldrei til greina að selja það. Sá fyrirvari sem ég hef haft hér er vegna þeirra breytinga sem gerðar voru í raforkulagakerfinu og vegna þeirra upplýsinga sem þar komu fram og ég gerði að umtalsefni áðan og hef gert áður, þ.e. vitlausar eða rangar upplýsingar í iðnaðarnefnd sem komu auðvitað í bakið á mönnum og sú hækkunaralda sem reið yfir. Ég vil ekki trúa því, og kannski treystir maður á það hve stutt er til alþingiskosninga, að farið verði í að selja Rafmagnsveitur ríkisins.

Hv. þingmaður tekur eftir því að þau togast dálítið á hjá mér þessi sjónarmið og sjónarmiðið sem ég gerði líka að umtalsefni, þ.e. um möguleika Rafmagnsveitna ríkisins til að keppa á þessum markaði við önnur félög, t.d. eins og að kaupa þær bæjarveitur sem mörg sveitarfélög hafa því miður neyðst til að selja út af skuldastöðu. Þessar áhyggjur eru því kannski mjög svipaðar hjá mér og hv. þingmanni.