132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að hægt sé að ná þeim markmiðum sem margir vilja ná varðandi sveigjanleika og möguleika þessa fyrirtækis til að athafna sig á markaði með öðru rekstrarformi en hlutafélagaforminu. Ég bendi þar t.d. á sameignarfyrirkomulagið.

Varðandi áherslur Sjálfstæðisflokksins eða margra þingmanna hans sem hafa áhuga á að einkavæða og selja þessa starfsemi þá er á tvennt að líta varðandi Framsókn. Bæði það að ráðherrar flokksins, eða sérstaklega einn ráðherra flokksins hefur beinlínis talað fyrir markaðsvæðingu og einkavæðingu þessarar starfsemi. Og á hitt er einnig að líta, og það er dapurlegt hlutskipti Framsóknarflokksins sem ég kemst ekki hjá að vekja athygli á, að orð Framsóknarflokksins í þessum efnum hafa ekki reynst mjög haldgóð.

Sú var tíðin að Framsókn sagði að það kæmi aldrei til greina að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Hvað liggur núna fyrir þinginu? Frumvarp um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Framsókn sagðist aldrei mundu hlaupa frá Íbúðalánasjóði. Hvað er núna á döfinni? Ég veit það ekki, ég get ekkert fullyrt um það, en ég fæ ekki betur séð en að komin sé hreyfing á það mál líka. Því miður er það svo að í þessum miklu heitstrengingum og svardögum Framsóknarflokksins, um að ekki komi til greina að hlutafélagavæða og selja, hefur reynst afar lítið hald.

Ég óttast ekki endilega að Rarik hf. verði selt á næstu mánuðum eða missirum en ég held að með hlutafélagavæðingunni sé fyrirtækið komið í umbúðir fyrir sölu. Ég tel að við eigum frekar að fara inn í annað rekstrarform, (Forseti hringir.) t.d. sameignarfélag, til að ná þeim markmiðum sem menn vilja ná eða halda því einfaldlega óbreyttu.