132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:49]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau varnaðarorð, mörg hver, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur hér uppi. Ég vitnaði áðan í það sem kemur fram í frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um opinber hlutafélög þar sem hún telur upp þau íslensku ríkisfyrirtæki sem breytt hefur verið í hlutafélög og hafa síðan verið seld. En svo er líka tekið dæmi um Orkubú Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja sem hefur verið breytt í hlutafélag en eru ekki á sölumarkaði.

Það sem ég var að reyna að gera grein fyrir er að mér finnst ekki gott að fyrirtæki eins og Rafmagnsveitur ríkisins, en ég vil veg þeirra sem mestan, hafi ekki sömu möguleika og önnur orkufyrirtæki, t.d. í eigu sveitarfélaga. Tökum dæmi eins og Norðurorku, Orkubú Vestfjarða eða Hitaveitu Suðurnesja, sem getur þess vegna tekið sig til og keypt hitaveitur eða rafveitur hvar sem er á landinu, eða jafnvel sameignarfélagið Orkuveitu Reykjavíkur sem er mjög öflugt og sterkt fyrirtæki. Þá vil ég að Rafmagnsveitur ríkisins hafi frekar þann möguleika að taka þátt í slíku vegna þess að ég vildi frekar að t.d. Rafmagnsveitur ríkisins ættu ýmsar orkuveitur sem hér hafa verið taldar upp og sem hafa verið keyptar undanfarin ár, eins og t.d. rafveita og hitaveita Siglufjarðar sem ég tók þátt í að selja 1991. Ekki með glöðu geði, síður en svo. (ÖJ: Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfélag.) Það er rétt. Vegna þess að ekki náðist samstaða um að breyta því þannig. Ég veit ekki hvort það háir þeim rekstri nokkuð. Ég veit það ekki, ég held ekki. En aðalatriðið er þetta.

Ég tók það líka skýrt fram, virðulegi forseti, að það eru ákveðin spor sem hræða. Það eru auðvitað yfirlýsingar t.d. formanns Sjálfstæðisflokksins, eftir að hann var kjörinn formaður flokksins, um að einkavæða meira. Þá er það okkar, fulltrúa annarra flokka, að reyna að hafa garminn hann Ketil með, þ.e. Framsóknarflokkinn, við að koma í veg fyrir að svoleiðis geti gerst.