132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta voru mjög klén svör af hálfu forseta. Kannski hefur hæstv. forseti ekki heyrt spurninguna en hún snerist um það hve lengi væri fyrirhugað að halda fundi áfram. Það hafði verið talað um kvöldfund en ekki næturfund. Þá skiptir máli hvernig forseti skilgreinir kvöld, hvenær því lýkur og hvernig hún hyggst láta umræðuna vinda áfram hvað það varðar.

Ég er á mælendaskrá og á eftir að koma allmörgum atriðum að varðandi þetta stóra mál, um einkavæðingu Rariks. Ég á eftir allmörg atriði sem ekki hafa komist að og á erfitt með að sjá að það gangi eftir að þessari umræðu ljúki á þeim tíma sem ég hef venjulega skilgreint sem kvöld.

Ég vil því inna hæstv. forseta eftir því hvort hún geti tilgreint hvenær hún hyggist láta umræðunni ljúka í kvöld eins og umtalað var, eins og hv. formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs minntist á og vitnaði þar til fundar í morgun. Frú forseti. Hvenær hyggst forseti láta kvöldið enda?