132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Eins og umræðan í dag hefur gefið til kynna liggur hér auðvitað fiskur undir steini, eins og í mörgum sambærilegum málum sem ríkisstjórnin hefur verið að koma með inn í þingið á undanförnum missirum, en ég mun fara yfir það í ræðu minni á hvern hátt þetta mál tengist öðrum málum sem ég kalla sambærileg á þessum þingvetri.

Fyrst langar mig að fara nokkrum orðum um þau atriði sem ég gerði að umtalsefni í stuttu andsvari mínu við hv. þm. Birki Jón Jónsson, formann iðnaðarnefndar, í upphafi umræðunnar. Það er um skortinn á rökstuðningi fyrir því að þessar breytingar séu framkvæmdar.

Það kemur fram, bæði í þessu frumvarpi og sömuleiðis í máli hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar, að hér sé fyrst og fremst um að ræða þörfina á sveigjanleika. Hv. formaður iðnaðarnefndar hafði um það mörg orð hve mikil þörf væri á að hafa sveigjanleika í rekstri fyrirtækis eða stofnunar á borð við Rafmagnsveitur ríkisins en skýrði í engu hvers vegna það væri svo mikilvægt að þessi sveigjanleiki væri til staðar. Hann talaði að vísu um það að menn þyrftu að geta tekið ákvarðanir með skjótum hætti, hann kvartaði undan því að svo langur vegur væri upp í ráðuneyti til bera ákvarðanir undir starfsmenn ráðuneytisins eða ráðherrann og þar af leiðandi þyrfti að færa völdin heim til forstjórans sem gæti þá tekið skjótar ákvarðanir á heimavelli. Þetta var að því að mér skildist á hv. formanni iðnaðarnefndar skilningur hans á hugtakinu sveigjanleika og þörfin á auknum sveigjanleika var skýrð á þennan hátt.

Við spurningunni hvernig þessi sveigjanleiki gæti síðan tryggt okkur neytendum lægra verð á raforku var fátt um svör, en hv. formaður iðnaðarnefndar fullyrti jafnframt, og gott ef ég heyrði ekki hæstv. iðnaðarráðherra fullyrða eitthvað svipað, að þessi sveigjanleiki og það að breyta Rarik í hlutafélag ætti eftir að færa neytendum lægra verð á raforku. Ég dreg þessa fullyrðingu í efa, svo ekki sé meira sagt, og ég tel að hv. þingmenn og hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins þurfi að gefa skýrari svör en þeir hafa gert hingað til, því það vita allir sem vita vilja að hlutafélagavæðing fyrirtækis eða stofnunar á borð við Rafmagnsveitur ríkisins ein og sér færir neytendum ekki lægra raforkuverð. Það er eitthvað annað sem þar þarf að koma til og það þarf að koma fram í umræðunni svo óyggjandi sé.

Það vita allir sem vita vilja, eins og ég sagði, að hlutafélagaform velur maður því félagi sem maður vill að sé í samkeppnisrekstri og að rekið sé með arðsemissjónarmið að leiðarljósi frekar en nokkuð annað. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið yfir það í löngu máli á hvern hátt arðsemiskrafan sem ríkisstjórnin gerir til þessa félags þvælist fyrir okkur vegna þess að hér er auðvitað bara um dulbúinn samkeppnisrekstur að ræða. Það kemur að sjálfsögðu fram í umsögnum ákveðinna aðila hér í umsagnabunkanum um þetta mál sem ég mun fara yfir síðar í ræðu minni, frú forseti.

Í rökstuðningi hv. iðnaðarnefndar fyrir breytingunum, sem birtist á þingskjali 912, segir á þessa leið, með leyfi forseta:

„Rökstuðningurinn fyrir þessum breytingum er m.a. að hlutafélagaform henti betur í því umhverfi sem starfsemin býr við og að reksturinn verði sveigjanlegri. Þá er talið að fjárfestingar og nýjungar í rekstri verði auðveldari í framkvæmd. Einnig takmarkast ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst.“

Sem sagt, enginn frekari rökstuðningur fyrir þessari miklu þörf fyrir sveigjanleikann og ekki heldur rökstuðningur á setningunni um að fjárfestingar og nýjungar í rekstri verði auðveldar í framkvæmd í félaginu háeffuðu. Ég fullyrði, frú forseti, að hér sé mikil bábilja á ferðinni, mikil öfugmæli og hér sé eingöngu um að ræða þráhyggju núverandi ríkisstjórnar og ég hef leyft mér að halda því fram að hér sé Framsóknarflokkurinn að hluta til að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni. Framsóknarflokkurinn fékk í kaupunum þegar þessi ríkisstjórn var sett á laggirnar sína Kárahnjúkavirkjun og sína stóriðju í formi álvæðingar Íslands en á móti kom að þeir áttu að sætta sig við að ríkisstofnanir yrðu háeffaðar í meira mæli en nokkur dæmi væru um. Svo er það þannig og það er hálfhlálegt, frú forseti, að það vill svo til að framsóknarráðherrarnir þurfa hér að ganga fram fyrir skjöldu aftur og aftur með frumvörp af þessu tagi þar sem ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnanir eru háeffuð, auðvitað með það að markmiði að selja síðar og kannski ekki mikið síðar heldur bara skömmu síðar. Eða hvað kemur fram í umsögnum þeirra orkufyrirtækja sem skrifa til iðnaðarnefndar í tilefni af þessu frumvarpi? Hvað segir Hitaveita Suðurnesja um málið? Eða Norðurorka hf. eða Orkuveita Húsavíkur? Við skulum aðeins grípa niður í bréf Norðurorku um málið. Ætli Norðurorka sé svo sátt við það að hlutabréfið í Rarik hf. verði í eigu ríkisins svo lengi? Auðvitað ekki. Í bréfi Norðurorku sést afar skýrt hvað undir býr. Norðurorka hf. telur að með tilliti til nýskipunar raforkumála sem hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur haft forgöngu um að koma á þá væri eðlilegast að gefa, og nú ætla ég að fá að vitna beint í umsögnina, með leyfi forseta:

„… öðrum starfandi dreifiveitum tækifæri til að kaupa dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins. Vitað er að áhugi dreifiveitnanna er fyrir hendi. Það er ekki hlutverk ríkisins að reka raforkudreifiveitu frekar en símadreifikerfi.“

Þetta segir Norðurorka og þetta er auðvitað það sem undir býr. Þessi fyrirtæki, þessi hlutafélög sem þegar eru orðin til vilja fá að kaupa sig inn í Rarik hf. strax, fá að kaupa út úr því ákveðnar eignir sem þessum félögum hugnast ekki að hafa í ríkiseigu. Í umsögn Norðurorku segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Áhugi er einnig fyrir hendi hjá orkufyrirtækjum að kaupa hitaveitur Rariks.“

Hvað erum við að segja hér, frú forseti? Við erum komin inn í grunnþjónustuna miklu lengra en góðu hófi gegnir þegar Norðurorka hf. er farin að segja, og ekki bara Norðurorka hf. heldur Hitaveita Húsavíkur og Hitaveita Suðurnesja og gott ef ekki fleiri umsagnaraðilar tala algerlega tæpitungulaust um að ríkið eigi að selja hlut sinn í dreifiveitum Rariks og sömuleiðis hitaveitu Rariks. Svo segja menn í Norðurorku áfram í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Hvað varðar vatnsaflsvirkjanir Rafmagnsveitna ríkisins ætti það að vera keppikefli ríkisins að selja þær á frjálsum markaði til að stuðla að aukinni samkeppni á sviði raforkuframleiðslu í nýju markaðsumhverfi raforkuframleiðslu og sölu.“

Er hægt að segja þetta mikið skýrar? Nei, auðvitað er það ekki hægt. Hér talar félag, eitt af þessum félögum sem standa næst Rarik og einn af samkeppnisaðilunum, sem vill gera hvað? Fyrr en seinna á að kaupa stóra hluti út úr þessu háeffaða félagi, áður en löggjöfin er farin í gegn á Alþingi. Svo segja menn fullum fetum að það séu engin áform uppi um að selja. En hvað með þennan þrýsting sem er ekki einu sinni dulinn? Hann er opinber í umsögnum orkufyrirtækja um allt land, í umsögnum um þetta mál.

Norðurorka segir, enn fæ ég að vitna í þá umsögn, með leyfi forseta:

„Hugmyndir orkufyrirtækja ríkisins um stofnun raforkusölufyrirtækis þar sem m.a. virkjanir Rariks yrðu lagðar inn sem hlutafé ganga þvert á þá meginreglu að ríkið skuli ekki vera þátttakandi í fyrirtækjarekstri á samkeppnismarkaði.“

Það er hæstv. iðnaðarráðherra sem á í orði kveðnu að hafa yfir þessum orkufyrirtækjum að ráða, undir hana heyrir verksvið þessara fyrirtækja í öllu falli, þetta eru ráðleggingarnar sem þessi fyrirtæki gefa: hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórn eiga að hætta við að hugsa þetta svona — ég veit ekki hvort ég á að segja sósíalistískt að hafa þetta í eigu ríkisins, þetta félag, heldur bara drífa sig í að selja það strax.

Hvað erum við að tala um hér? Er þetta rétt sem Norðurorka segir að hér sé eingöngu verið að tala um þátttakanda í fyrirtækjarekstri í samkeppnismarkaði? Er Rarik hf. eða Rafmagnsveitum ríkisins ætlað að vera eingöngu fyrirtæki sem tekur þátt í samkeppnisrekstri? Ónei. Fyrirtækinu er auðvitað ætlað að sjá fyrir stórum hluta grunnþjónustu í þessu samfélagi. Starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins hefur aldrei fjallað um neitt annað en grunnþjónustu og misskilningur ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er orðinn hlálegur og hefur farið út úr öllu korti þar sem horft er fram hjá því að grunnþjónustan sé í eðli sínu ekki vænleg til samkeppni og það eigi ekki að setja grunnþjónustu samfélagsins út á markað eins og hverja aðra vöru. Eða hvar eru gamlar hugsjónir um öryggisnetið í samfélaginu, um að fólk eigi að búa við jöfnuð hvar á landinu sem það býr? Það er allt saman fokið út í veður og vind hjá þessum ágætu flokkum og ég treysti því að þeir kjósendur sem bera ábyrgð á því að þessir flokkar sitji að völdum fari að hugsa sitt mál, fari að hugsa um hvort það sé einleikið að þessir flokkar skuli setja fram mál eftir mál þar sem ríkisfyrirtæki sem hafa starfað í grunnþjónustu áratugum saman séu nú tugum saman, liggur mér við að segja, háeffuð auðvitað með það að markmiði að selja þau að hluta eða öllu leyti í fyllingu tímans. Sú fylling tímans virðist standa nær en virtustu frjálshyggjumenn hafa þorað að vona. Það sýna þær umsagnir sem setja mikinn þrýsting á ríkisvaldið í þessum efnum.

Norðurorka hf. fjallar sérstaklega um 3. gr. sem varðar eignarhald hlutabréfanna í hlutafélaginu sem stofna á og segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Það er mat Norðurorku hf. að óþarft sé að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins þar sem ríkissjóður skal vera eini hluthafinn. Það þýðir að mestu óbreytt ástand frá því sem nú er. Sé það ætlun ríkisins að selja síðar hluti í félaginu er eðlilegt að orða þetta ákvæði öðruvísi, t.d. „Öll hlutabréf í félaginu skulu í upphafi vera í eigu ríkissjóðs.““

Þetta er tillagan frá Norðurorku að orðun 3. gr. Hvers vegna? Jú, þeir eru á móti því hjá Norðurorku að hafa þessi stífu ákvæði, sem þeir kalla, um eignarhald hlutafjárins inni í lögunum vegna þess að þeir vilja að sá ásetningur sem kemur fram í 5. lið athugasemda með frumvarpinu, þ.e. ásetningurinn um að með þessu móti sé opnað fyrir möguleika á að aðrar orkuveitur geti orðið hluthafar í félaginu, sé þrengdur verulega með því að hafa öll hlutabréfin í eigu ríkissjóðs. Menn vilja þannig gefa þetta frjálst sem allra fyrst eins og berlega kemur fram í þessari umsögn sem ég vitna hér til.

Síðar í umsögn Norðurorku kemur fram og reyndar í umsögnum fleiri orkufyrirtækja, að þau telji fráleitt að iðnaðarráðherra fari með eignarhlut ríkisins í félaginu. Þau telja að iðnaðarráðherra sé of hagsmunatengdur því hann sé ráðherra orkuiðnaðarins alls, hann sé einnig yfirmaður Orkustofnunar og honum beri því að gæta jafnræðis og það sé ekki heppilegt að hann sé í þeirri stöðu að þurfa að gæta hagsmuna eins orkufyrirtækis sérstaklega sem fulltrúi eigenda þeirra. Þannig að áður en hlutafélag um Rarik er orðið til þá virðast orkufyrirtækin nánast á einu máli um að hér eigi að losa um eignarhald ríkisins strax og að það sé fullkomlega óþarft millistig að halda þessum hlutabréfum í eigu ríkisins. Hér er algerlega dagljóst, frú forseti, að hverju er stefnt. Það má lesa í þessum umsögnum þessara umsagnaraðila og það er skrum sem kemur frá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans í þessari umræðu að ekki standi til að selja eignarhlutana í heilu lagi eða í bútum út úr þessu fyrirtæki.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur gengið fram fyrir skjöldu nú í umræðunni þar sem við höfum lagt verulega áherslu á það að félag eða fyrirtæki á borð við Rarik og Rafmagnsveitur ríkisins og orkufyrirtækin séu best komin í opinberri eigu enda sé hér um grunnþjónustu í samfélaginu að ræða og að okkar mati enginn fótur fyrir því að reka þessi fyrirtæki með arðsemissjónarmiðum enda hljóti sá arður að vera tekinn af notendum þjónustunnar, þ.e. að notendur þjónustunnar séu látnir greiða þá arðsemiskröfu í of háu raforkuverði, því það er trúa mín að ef þessar stofnanir og fyrirtæki væru í samfélagslegri eigu og rekin á samfélagslegum grunni þá væri keppikefli hjá þeim að hafa raforkuverðið sem lægst, að tryggja öllum örugga raforku á sem lægstu verði.

Í þessari umræðu hefur komið fram í tengslum við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum málum, að við höfum staðið fyrir því í Reykjavíkurborg að tryggja að Orkuveita Reykjavíkur verði áfram í samfélagslegri eigu og höfum staðið gegn hugmyndum um hlutafélagavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur. Sama má segja um Landsvirkjun og margir hafa séð brýna þörf á því að losa um eignarhlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun en eins og mál hafa staðið í þessu lagaumhverfi raforkuframleiðslunnar þá höfum við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og aðrir sem starfa undir merkjum þess flokks ekki talið það ráðlegt að losa um eignarhlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Við teljum að það styrki fyrirtækið og þjónustuna sem fyrirtækið á að veita að vera í samfélagslegri eigu sem flestra og eins og málum er háttað í þessu umhverfi höfum við ekki talið ráðlegt eða skynsamlegt að setja Landsvirkjun í heilu lagi yfir til ríkisins. Enda hvað mundi þá gerast? Þá blasir við og höfum við reyndar heyrt yfirlýsingar bæði frá hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. utanríkisráðherra Geir H. Haarde í þeim efnum að ekki standi til að Landsvirkjun verði um aldur og ævi í eigu ríkisins og í fyllingu tímans verði það háeffað og þá að sjálfsögðu mundi hefjast sami dansinn í kringum Landsvirkjun eins og önnur fyrirtæki og félög sem hafa verið háeffuð hingað til. Ég þykist muna það rétt að hæstv. iðnaðarráðherra hafi haft á orði á sínum tíma og ekki fyrir svo margt löngu að á endanum, jafnvel innan átta ára mundi einkavæðingarferli Landsvirkjunar geta hafist.

Þetta er allt afar athyglisvert í ljósi þess að dagurinn í dag er einmitt kannski svolítið merkilegur í þessu tilliti og það er athyglisvert að við skulum vera að ræða mál af þessu tagi í dag þegar hæstv. iðnaðarráðherra hefur tilkynnt það í fjölmiðlum að þrjár stofnanir hins opinbera verði nú sameinaðar undir einum hatti en þessar þrjár stofnanir eru stofnanir sem hún hefur verið gagnrýnd ansi mikið fyrir að hafa ekki sinnt sem skyldi. Það eru Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins sem stendur til að sameina undir hatti Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Stofnunin á að hafa aðsetur á Sauðárkróki og hún á að taka til starfa um áramótin og nú hefur verið lagt upp í umfangsmikla kynningu á þessum breytingum þar sem fulltrúar atvinnulífsins, starfsmenn viðkomandi stofnana og fleiri koma við sögu.

Allt er þetta gert eftir því sem aðstoðarmaður ráðherra, Páll Magnússon segir í fréttatilkynningu sem birtist á vef Ríkisútvarpsins fyrr í dag, með það fyrir augum að það þurfi að gera starf þessara stofnana markvissara. Það vantar bara að segja líka: Og sveigjanlegra. Ég spyr: Hvað heldur þingheimur að við þurfum að bíða lengi eftir því að þessi nýja nýsköpunarmiðstöð sem á nú að fara að búa til úr þessum þremur góðu og gegnu stofnunum, Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, verði lengi einungis Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hversu langt telja menn að sé þess að bíða að Nýsköpunarmiðstöð Íslands fái hf. fyrir aftan nafnið sitt? Mín spá er sú að það eigi jafnvel eftir að verða fyrr en fólk grunar, kannski í því ferli sem fram undan er núna við að sameina þessar þrjár stofnanir. Ég minni fólk á frumvarp sem er til meðferðar í umhverfisnefnd Alþingis og fjallar um Matvælarannsóknir hf. Þar er einmitt verið að sameina þrjár öflugar rannsóknastofnanir hins opinbera undir einn hatt og það er ekki verið að pukrast neitt með það. Strax er vaðið í háeffunina.

Á sama tíma er, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, fyrir þinginu mál sem varðar hlutafélög í opinberri eigu sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur sjálf lagt fram. En ekki er mikill vilji til að ræða hér af einhverri dýpt opinber hlutafélög eða hlutafélög í opinberri eigu. Það mál er látið dankast og hvert háeffunarmálið af öðru er látið fara í gegn. Ríkisútvarpið hefur einnig verið nefnt í þessari umræðu. Það er auðvitað enn ein vitleysan sem stefnir í, enn ein háeffunin, og eins og menn rekur eflaust minni til í umræðunni um Ríkisútvarpið þá er ljóst að Ríkisútvarpið hf. verður ekki þessi öfluga menningarstofnun sem það hefur hingað til verið, ekki neitt langt inn í framtíðina, enda er heimild fyrir því í frumvarpinu að þeir hlutar stofnunarinnar sem eru í samkeppnisrekstri geti átt það á hættu að þeir verði sameinaðir öðrum félögum eða fyrirtækjum úti í bæ, að sú starfsemi verði mögulega tálguð utan af stofnuninni og eftir standi Ríkisútvarpið hf. sem verði berstrípað almannaþjónustuhlutverkið. Þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn tala um það þá hljómar það eins og almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins verði eiginlega ekkert annað en tilkynningar til sjófarenda og tilkynningar frá hinu opinbera og svo kannski einhverjir fræðsluþættir sem alveg borin von er að nokkrar aðrar stöðvar sem reknar eru með arðsemissjónarmið að leiðarljósi geti farið út í að framleiða.

Það er deginum ljósra að hér ber allt að sama brunni. Hlutafélagavæðing ríkisstjórnarinnar er farin að minna allóþyrmilega á stóriðjuvæðingu hennar. Ég undrast það að fólk sem maður skyldi ætla að væri í einhverjum tengslum við fólk og samfélagið í landinu skuli vera svona einsýnt, svona þröngsýnt og það skuli fá svona fáar hugmyndir. Það virðist vera árátta hjá þessu fólki sem heldur um stjórnartaumana að það skuli ekki sjá nein tækifæri í því sem er. Það felast aldrei nein tækifæri í því sem við höfum. Það verður alltaf að byrja á því að kúvenda og alls ekki má byggja á því sem við höfum haft eða þeirri stefnu og hugmyndafræði sem þetta samfélag hefur verið rekið á. En það vill svo til að samfélagið okkar hefur til skamms tíma verið samfélag, félag sem við eigum saman, sem við rekum saman til að standa undir þjónustunni við samfélagið sem við viljum reka saman, þar sem fólk getur verið öruggt um að fá þá grunnþjónustu sem samfélag af okkar stærð og tegund kallar á. En allt þetta er fyrir borð borið hjá þessari ríkisstjórn sem er svo upptekin af háeffuninni og arðsemiskröfunni og sveigjanleikanum að hún sést ekki fyrir.

Eitt af því sem gerist við þessa hlutafélagavæðingu, frú forseti, og kannski það allra alvarlegasta, er að ákveðin grundvallarlöggjöf sem á við um félög, fyrirtæki og stofnanir í samfélagslegri eigu, sem á við um grunnþjónustuna í samfélaginu, er fyrir borð borin. Hvaða grunnlöggjöf er þetta? Þetta eru lög á borð við upplýsingalög, stjórnsýslulög, lögin um umboðsmann Alþingis og lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í langri og ítarlegri umsögn frá BSRB í þessum umsagnabunka má lesa um hvernig menn fara að ráði sínu hér í þessu tilliti. Í umsögn BSRB er eflaust búið að vitna til í umræðunni áður þó ég hafi ekki kannski lagt eyrun að því, frú forseti. Ætla ég því að leyfa mér að vitna beint til umsagnar BSRB sem er dagsett 27. febrúar síðastliðinn. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ofangreint frumvarp hefur borist BSRB til umsagnar. BSRB leggst alfarið gegn því að frumvarpið verði að lögum með eftirfarandi athugasemdum:

BSRB leggur áherslu á að líta beri á raforkukerfi landsins sem hluta af grunnþjónustu sem eigi að að vera á vegum ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er ætlunin að Rafmagnsveitur ríkisins skuli vera eign ríkissjóðs og fari iðnaðarráðuneytið með eignarhlutinn. Ekki er auðvelt að átta sig á hvað vakir fyrir stjórnvöldum með þessari breytingu. Tvennt hlýtur að koma til álita. Í fyrsta lagi að til standi að selja rafmagnsveiturnar, nokkuð sem BSRB varar eindregið við enda reynslan erlendis frá af einkavæðingu þessarar starfsemi mjög slæm. Hitt atriðið sem kemur til álita varðar kjör starfsmanna, en í athugasemdum með frumvarpinu segir að með hlutafélagsforminu verði „reksturinn sveigjanlegri.“ Hér er væntanlega verið að vísa til réttarstöðu starfsmanna sem er veikt með þessu frumvarpi. Í umsögn BSRB er fyrst og fremst staðnæmst við réttarstöðu starfsmanna.“

Frú forseti. Þetta er ekki fyrsta umsögnin af þessu tagi sem ég les eftir BSRB í þessari lotu ríkisstjórnarinnar við hlutafélagavæðinguna því sama er upp á teningnum í umsögnum sem varða Matvælarannsóknir hf. og Ríkisútvarpið hf. og örugglega þessar háeffanir sem á undan hafa komið. Nú veit BSRB nákvæmlega um hvað er verið að tala því reynslan af hlutafélagavæðingunni er slæm. Réttur starfsmanna hefur verið fyrir borð borinn. Það hefur verið gengið á rétt starfsmanna sem fólk hefur átt með lögum og jafnvel þó svo það sé reynt að láta líta svo út sem starfsmenn sem starfa hjá viðkomandi stofnunum þegar hlutafélagavæðingin átti sér stað njóti áfram þeirra réttinda sem samið hafði verið um fyrir þá og þeir hafi notið til þessa þá er alla vega alveg ljóst að nýir starfsmenn njóta ekki sömu réttinda. Þá erum við búin að setja þetta allt saman í þann farveg sem ríkisstjórnin vill hafa, þar sem forstjórinn er einvaldur, þar sem hann hefur svo mikinn sveigjanleika eins og það heitir að hann getur rekið fólk og ráðið fólk eins og hann listir án áminninga, án þess að nokkrum formlegum leiðum sé fylgt, og það er mikil afturför, frú forseti.

Þegar löggjafarsamkundan gengur fram fyrir skjöldu og þeir tveir stjórnmálaflokkar sem fara hér með völdin, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, bera fyrir borð rétt starfsmanna aftur og aftur og fá á sig umsagnir af því tagi sem hér eru til umfjöllunar, eins BSRB hefur verið að gefa hér, þá skil ég ekki að þessir stjórnmálaflokkar skuli ganga hér um sali jafnhnarreistir og raun ber vitni því þeir bera afar alvarlega gagnrýni á herðum sér sem þeir svara í engu enda eru engin rök sem mæla gegn þeim rökum sem fram eru sett í umsögn BSRB. Þar eru gerðar athugasemdir við breytinguna á réttarstöðu starfsmannanna í löngu máli, við biðlaunaréttinn, við lífeyrisréttinn og við samningsréttinn. Um það eru áhöld hvort verið sé að fara að lögum í þessum efnum varðandi öll þessi réttindi og hvort verið sé að brjóta rétt á starfsmönnum eða ekki. Ég sakna þess að fá ekki um það málefnalegri rök eða málefnalegri umræðu frá hv. formanni iðnaðarnefndar og treysti því að hann komi inn á þessar ávirðingar í seinni ræðu sinni.

Af því að ég hef verið að blaða í umsögnum um þetta mál, frú forseti, þá er dálítið athyglisvert að Samtök iðnaðarins skuli skrifa á þeim nótum sem þau gera í sinni umsögn. Þau telja að það hái samkeppni á raforkumarkaði að eignarhald sé á fárra höndum og sömu aðilar eigi að stórum hluta orkuframleiðslu, flutningsnet, dreifikerfi og sölufyrirtækin. Samtök iðnaðarins segja í sinni umsögn að það sé vandséð hvernig samkeppni geti þrifist þegar eignarhaldið er sameiginlegt út allt framleiðsluferlið. Þar eru auðvitað þessi sjónarmið uppi eins og hjá orkufyrirtækjunum sem ég gat um áðan að menn eru ekki ginnkeyptir fyrir því yfir höfuð að ríkið sé að halda í þessi hlutabréf eða hafa þau í sinni eigu nema bara sem styst. Samtök iðnaðarins vísa meira að segja máli sínu til stuðnings til skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA um raforkuiðnaðinn í Evrópu, skýrslu sem kom út 16. febrúar 2006. Samtök iðnaðarins segja að samkvæmt þeirri skýrslu sé talin ástæða til að skoða nánar sameiginlegt eignarhald framleiðslu og flutnings ásamt lóðréttri samþættingu dreifingar og sölu og hvaða áhrif það hafi á samkeppni á markaðnum og síðan er vitnað beint til þessarar skýrslu. Samtökin gera auk þess athugasemd við það að í frumvarpinu komi ekki fram hvað verði um 24% eignarhluta Rariks í Landsneti og segja nauðsynlegt að skýra það nánar. Nú treysti ég því að þetta verði eitt af þeim atriðum sem hv. formaður iðnaðarnefndar komi inn á. Ég sé þessa ekki getið í nefndaráliti meiri hlutans. Fyrir mitt leyti alla vega þarf ég því á nánari skýringu að halda.

Í niðurlagi umsagnar Samtaka iðnaðarins kemur fram að samtökin telji að með stofnun hlutafélags um Rarik gefist tækifæri til að skilja á milli sérleyfisreksturs og samkeppnisreksturs og samtökin telja að heppilegra sé að hafa þá starfsemi aðskilda í tveimur félögum ef ætlunin er að stuðla að markaðsvæðingu og samkeppni á raforkumarkaði. Hér er því verið að setja hæstv. iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur lífsreglurnar um það á hvern hátt eigi að gera þetta og hér er enn eitt dæmi um þennan þrýsting sem er að byggjast upp. Nú standa öll spjót á ríkisstjórninni með þetta og ég þori að fullyrða að það er ekki ætlunin hjá ríkisstjórninni að láta þessi hlutabréf vera í eigu ríkisins nema í afskaplega skamman tíma. Það virðist vera alveg ljóst að bandamenn ríkisstjórnarinnar í þessum efnum vilja að stigin séu stærri skref, gengið lengra og það núna strax þannig að ríkinu verði ekki stætt á því lengi, þ.e. ríkisstjórninni að hafa þessi hlutabréf í sinni vörslu, sem nota bene er það sama og að hlutirnir séu í vörslu þjóðarinnar því þeir fulltrúar sem hingað eru kjörnir á þingi eru nú einu sinni lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar sem eiga að tryggja það að vel sé farið með sameiginlegar eigur okkar.

Hér er ég með umsögn frá talsmanni neytenda, Gísla Tryggvasyni, sem hefur verið ötull við það núna síðan hann tók við þessu nýja starfi að gefa Alþingi umsagnir um lagafrumvörp enda mikið til hans leitað í þeim efnum. Hann sér nákvæmlega eins og við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þær hættur sem ég hef gert grein fyrir í mínu máli. Hann segir augljóst að tilgangur rekstrarins verði öðrum þræði arðsemi í samkeppnisrekstri. Hann tekur þó ekki afstöðu til þess pólitíska álitamáls í sjálfu sér.

Orkuveita Reykjavíkur gefur umsögn um þetta líka. Hún segist starfa á samkeppnismarkaði. Hún gerir athugasemdir við 3. gr. um að iðnaðarráðherra skuli fara með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu og segir að þarna sé um of mikil hagsmunatengsl að ræða því Orkuveitan sjálf sem starfi á samkeppnismarkaði þurfi að sækja um margvísleg leyfi til iðnaðarráðherra sem á sama tíma er þá yfirmaður þriggja annarra orkufyrirtækja. Það eru ekki góðir hættir eða siðir á samkeppnismarkaði að svona skuli háttað þannig að maður spyr: Hvers vegna er þá skrefið ekki stigið til fulls? Það hlýtur að vera handan við hornið og af hverju gera menn það þá ekki bara strax? Því það er auðvitað það sem býr undir og hér eru allir, hér gengur maður undir manns hönd, að benda ríkisstjórninni á að skrefið sé hálfstigið, að eðli málsins samkvæmt eigi að ganga lengra og að engin ástæða sé til að bíða. Þetta er rauði þráðurinn í umsögnunum um þetta mál og þess vegna þarf ríkisstjórnin ekki að kveinka sér neitt undan þeirri umræðu sem hér er til staðar núna því að sú umræða litast af þessari löngun orkufyrirtækjanna eftir því að komast í eigur Rafmagnsveitna ríkisins hf.

Svo man ég eftir því, ég finn það ekki í fljótu bragði í umsagnabunkanum, að einhverjir gerðu athugasemdir við það að gert væri ráð fyrir að Rafmagnsveitur ríkisins hétu áfram Rafmagnsveitur ríkisins, hefðu áfram þetta „ríkisins“ í nafni sínu. Ég heyrði ekki í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar neina skýringu á því af hverju hlutafélagið Rarik eigi að vera kennt við ríkið í nafni sínu. Það er enn eitt dæmið þar sem umsagnaraðilar vilja að búið sé þannig í haginn strax að hægt sé að stíga skrefið um einkavæðinguna sem allra fyrst.

Að lokum, frú forseti, ætla ég að geta hér tillögu til rökstuddrar dagskrár, þskj. 990, sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð höfum dreift hér. Formlega séð er hún kannski ekki komin á dagskrá, ég tel að ekki hafi verið veitt afbrigði fyrir henni, en engu að síður er hún á þingskjali og kemur eflaust til afgreiðslu í tengslum við atkvæðagreiðslu um þetta mál. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað.

Hlutafélagavæðing Rarik er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu.

Með vísan til framanritaðs vísar Alþingi máli þessu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Slíka tillögu flytja menn ekki nema þeir séu algerlega sannfærðir í hjarta sínu um að verið sé að fara inn á miklar villigötur. Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, erum algerlega sannfærð um að hér sé verið að fara inn á miklar villigötur og við sjáum það auðvitað í skoðanakönnunum sem gerðar eru þessa dagana á fylgi Framsóknarflokksins að kjósendur Framsóknarflokksins eru sammála okkur. Framsóknarflokkurinn er löngu búinn að svíkja sína upphaflegu hugsjón, þ.e. hugsjónina um að samfélagslegar eignir eigi að vera í vörslu og eigu þjóðarinnar. Það sjá allir í gegnum þetta plott. Það er svo gegnsætt að það er aumkvunarvert. Þetta er hluti af Framsóknarflokknum 2006. Það eru dapurleg örlög að hafa þurft að draga þennan frjálshyggjuvagn, þennan einkavæðingarvagn sjálfstæðismanna, bara fyrir slysið í austri, Kárahnjúkavirkjun, og stóriðjudraum Framsóknar.

Frú forseti. Ég enda á sömu nótum og ég byrjaði. Hér er verið að fara inn á miklar villigötur undir fölsku flaggi. Menn segja ekki hlutina eins og þeir eru, láta í veðri vaka að hér sé allt í lukkunnar velstandi og allt eigi að vera í samfélagslegri eigu áfram þó að það verði „háeffað“. Það er bara ekki svo, a.m.k. trúi ég því ekki og ég geri ráð fyrir að þjóðin sé sama sinnis. Fólk trúir þessu ekki. Þetta eru nýju fötin keisarans.