132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[23:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hæstv. forseti segir, hér hafa verið fluttar alllangar ræður en þær hafa verið málefnalegar og fjallað mjög ítarlega um efni málsins. Það hefur verið óskað eftir svörum, sem reyndar hafa verið boðuð af hálfu formanns iðnaðarnefndar áður en þetta frumvarp verður að lögum, sem ég vona þó að aldrei verði.

Ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að mér finnst eðlilegt að við höldum okkur við að hér verði aðeins kvöldfundur. Venjan er að líta svo á að kvöldinu ljúki fyrir miðnætti. En þó það séu ekki margir á mælendaskrá núna getur svo farið að eitthvað dragist að ljúka þessari umræðu. Hins vegar hefði ég trú á því að ef henni yrði frestað til morgun mætti búa svo um hnúta að hún yrði ekki ýkjalöng.

Ég vil vekja athygli á því að sumir þingmenn sem hefðu gjarnan viljað taka þátt í þessari umræðu eru veðurtepptir, ég vísa t.d. til hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins. Hann er veðurtepptur á Vestfjörðum og hefur ekki getað komið hingað í dag til að vera við þessa umræðu málsins. Mér finnst þetta vera rök til að fresta lokum umræðunnar og ég ítreka að þessi kvöldfundur var haldinn þrátt fyrir mótmæli okkar. Við óskuðum eftir því að þetta mál yrði afgreitt og umræðunni lokið á fundum að degi til þannig að þessi kvöldfundur er haldinn gegn okkar mótmælum. Mér finnst lágmark að reynt sé að halda sig við að umræðunni ljúki eða henni frestað fyrir miðnætti. Þannig að ég ítreka óskir þar að lútandi.