132. löggjafarþing — 93. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[00:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú er klukkan að ganga eitt og við í Frjálslynda flokknum höfum ekki enn þá komist að. Ég skráði mig á mælendaskrá í upphafi þingfundar og svo hefur atvikast að mörgum ræðumönnum hefur verið mikið niðri fyrir. Við höfum einfaldlega ekki komist að. Þegar klukkan var að ganga níu þurfti ég að bregða mér úr húsi og þá féll ég út af mælendaskrá.

Ég spyr: Er það virkilega ætlun forseta þingsins að Frjálslyndi flokkurinn þurfi að lýsa afstöðu sinni til frumvarps um miðja nótt? Ég ætla þeim ræðumanni sem talar næstur á eftir okkur a.m.k. á aðra klukkustund að fara yfir málið.

Er það virkilega ætlun forseta þingsins að Frjálslynda flokknum sé ætlað að halda ræðu sína og lýsa yfir afstöðu sinni til málsins á þriðja eða fjórða tímanum í nótt? Ég er alveg forviða á þessari stjórn fundarins og lýsi yfir mikilli vanþóknun á þessu, ef sú verður raunin. Fróðlegt væri ef hæstv. forseti gæti gefið sér stund núna og svarað þeirri spurningu sem ég hef borið fram.