132. löggjafarþing — 93. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[00:27]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að spyrja hæstv. forseta hvenær hæstv. forseti hyggist ljúka fundi í nótt. Nú er klukkan orðin hálfeitt og mér þykir sýnt að hér stefni í að þingfundur verði langt fram á nótt og jafnvel fram undir morgun.

Það er einu sinni svo að dagur kemur eftir þennan dag. Reyndar er nýr sólarhringur að renna upp en það kemur dagur eftir þann dag sem leið í gær, ef svo má segja. Þingmenn þurfa að mæta til vinnu í fyrramálið. Þeir þurfa að komast heim til sín í kvöld. Ég á t.d. fyrir höndum rúmlega 40 mínútna akstur heim til mín og ég ætla síðan að vera mættur hér aftur í fyrramálið til að sinna skyldum mínum sem þingmaður.

Ég mun að sjálfsögðu halda út hér í nótt ef þörf krefur enda er það skylda mín sem þingmaður að fylgjast með þingfundum. Ég geri það annaðhvort í þingsalnum eða á skrifstofu minni. Ég vænti þess að það sama gildi um aðra þingmenn á hinu háa Alþingi, að þeir sitji allir á skrifstofum sínum og fylgist spenntir með þingfundi því verið er að ræða um mjög mikilvægt mál, virðulegi forseti.

En eins og ég sagði áðan í upphafi máls míns þurfa þingmenn allir að vakna í fyrramálið og mæta til vinnu eins og annað fólk. Mér þætti því gott — þó ekki væri annað en að geta skipulagt það aðeins og kannski hringt heim og látið vita að maður væri á lífi en ekki einhvers staðar utan vega stórslasaður eftir bílslys eða eftir annað það af verra, því ég á náttúrlega fyrir löngu að vera kominn heim — að geta komið þeim skilaboðum heim til mín að ég verði hér áfram fram á nótt þannig að fólk heima þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, virðulegi forseti.

Mér og okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins þætti mjög vænt um að fá einhverjar upplýsingar um hversu lengi við ætlum að halda áfram þingfundi í nótt.

(Forseti (DrH): Nú verður gert fimm mínútna fundarhlé.)