132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Álit Samkeppniseftirlits um taxta leigubifreiða.

[13:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Samkeppniseftirlitið fellt úrskurð um að hámarkstaxtar leigubifreiða skuli felldir niður innan fárra vikna. Samkeppnisstofnun virðist líta á hvern leigubílstjóra sem sjálfstætt starfandi fyrirtæki sem eigi að standa í samkeppni við aðra bílstjóra. Þetta er ekki alveg óþekkt erlendis frá. Í Svíþjóð voru hámarkstaxtar afnumdir í byrjun 10. áratugar síðustu aldar með þeim afleiðingum að neytendur voru leiddir nánast inn í frumskóginn, áttu enga vörn lengur í samræmdu taxtakerfi. Eflaust hafa einhverjir Íslendingar fengið að kenna á þessu kerfi. Sjálfur hef ég kynnst því í Stokkhólmi að þurfa að greiða þrefalt hefðbundið verð fyrir leigubílaakstur.

Norðmenn komu í kjölfarið og er athyglisvert að við afnám hámarkstaxta rauk verðið upp um rúmlega 8% og var þá farið að setja ákveðnar reglur. Staðreyndin er nefnilega sú að samkeppnin í verði hefur oftar en ekki komið neytendum illa. Oft hefur verið bent á hið augljósa í þessu efni, að leigubílstjóri sem á völ á fjölda viðskiptavina á illviðrisdegi, ég tala nú ekki um að nóttu til í slæmu veðri, gæti freistast til að láta bjóða í farið, og nokkuð hátt við slíkar aðstæður. Væri slíkt fyrirkomulag heppilegt? Ég held ekki.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta mál upp í þinginu er að tíminn til að fyrirbyggja að hér eigi sér stað mikið slys er mjög naumur. Leigubílstjórar eru í algerri óvissu um framhaldið. Þeir segja að ef breyta eigi fyrirkomulaginu verði að koma til einhverjar skynsamlegar reglur en þær eru ekki farnir að líta dagsins ljós. Ég hef spurt á móti hvort við búum ekki við ágætlega skynsamlegar reglur og ef ný samkeppnislög valda einhverjum vandræðum hvort verkefnið sé þá ekki að breyta þeim lögum.

Hæstv. samgönguráðherra er í þingsalnum og væri fróðlegt að heyra frá honum hvernig þessi mál standa og hvað samgönguyfirvöld ætla að gera í þessu efni.