132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þeim athugasemdum sem ég hef við frumvarpið. Ég geri hvorki athugasemdir við að þetta sé fært frá samgönguráðuneyti til Vegagerðarinnar né heldur ýmis önnur atriði sem lúta að starfsrammanum sem verið er að gera þar.

Hins vegar eru það tvö atriði sem ég geri athugasemdir við. Það er í fyrsta lagi það sem stendur í 6. gr. að Vegagerðinni sé heimilt að fela faggiltum skoðunarstöðvum að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt þessum lögum. Þarna er verið að gefa Vegagerðinni, sem er að fá þetta verkefni nú samkvæmt lögum, heimild til að framselja það strax aftur til þriðja aðila. Þarna er eins konar einkavæðingarhugtak á ferðinni. Ég vil spyrja hv. formann samgöngunefndar hvort ætlunin sé að fara að beita þessu ákvæði. Er það þegar komið á dagskrá að beita þessu ákvæði, að framselja eftirlitið sem þó er verið að færa undir Vegagerðina? Ég tel að þessi setning hefði ekki átt að vera með. Ábyrgðin hefði átt að vera skilyrðislaust hjá Vegagerðinni og eftirlitið líka.

Í öðru lagi geri ég athugasemdir við þá miklu kostnaðarhækkun sem er hér. Að útgáfa starfsleyfa hækki úr 10 þús. kr. í 25 þús. kr. í einu stökki án þess að hægt sé að segja að fullnægjandi röksemd fylgi. Hér er fyrst og fremst um að ræða skattheimtu sem verið er að færa út í atvinnustarfsemi af þessu tagi órökstutt eða illa rökstutt að mínu mati og ég get þess vegna ekki stutt þennan þátt.

Frú forseti. Ég ítreka spurningu mína til hv. framsögumanns samgöngunefndar sem hér mælir fyrir nefndaráliti. Er ætlunin að fara að beita þessu ákvæði um einkavæðingu á eftirlitinu strax?