132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka að ég styð grunnþætti frumvarpsins um að eftirlit með bílaleigum sé flutt frá samgönguráðuneyti til Vegagerðarinnar. Hins vegar get ég ekki fallist á það að Vegagerðinni sé heimilt að framselja eftirlitið til skoðunarstofa um leið og þessi lög eru samþykkt því að Vegagerðin á áfram að bera ábyrgð á öllum gögnum og ber raunar ábyrgð á eftirlitinu. Með því að framselja það til einhverra skoðunarstofa er verið að búa til tvöfalt kerfi og þá með auknum kostnaði. Það kemur líka fram í því að það þarf að hækka leyfisgjöldin úr 10 þús. kr. í 25 þús. kr. einmitt til að standa undir þessu tvöfalda kerfi sem er innbyggt í frumvarpinu, annars vegar eftirlitsstofum, skoðunarstofum, og hins vegar eftirliti Vegagerðarinnar sjálfrar. Þessir fyrirvarar mínir við þetta frumvarp skulu rækilega tíundaðir, frú forseti.