132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:51]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér fer fram 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum. Í þessu frumvarpi felst m.a. að leyfisveitingar til að reka bílaleigur færist frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar og starfsleyfi sé útgefið af Vegagerðinni en ekki ráðuneytinu eins og áður.

Í máli hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar, í 1. umr. kom fram að ástæða gjaldhækkunarinnar væri kostnaður við útgáfu starfsleyfanna og aðra umsjón með bílaleigum og ætti gjaldið að standa undir þeim kostnaði. Ekki væri gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til Vegagerðarinnar vegna þessa verkefnaflutnings. Samkvæmt þessu frumvarpi kemur fram að Vegagerðin hefur reiknað út kostnað sem er á bls. 3 í frumvarpinu.

Mig langaði að spyrja hæstv. samgönguráðherra vegna þessarar fyrirhuguðu hækkunar á leyfisgjöldum hver kostnaðurinn hefur verið fram til þessa við útgáfu starfsleyfa og aðra þá umsjón sem tilheyrir þeim þætti sem flytja á til Vegagerðarinnar. Kannski hv. formaður nefndarinnar viti það. Síðasta setningin í 6. gr. lagafrumvarpsins, lið c, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vegagerðinni er heimilt að fela faggiltum skoðunarstofum að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögunum.“

Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ég tel ekki ástæðu til að framselja eftirlitshlutverk og spyr í rauninni: Af hverju þarf það að vera? Er ekki í lagi að Vegagerðin beri ábyrgð á því að lögunum sé fylgt og haldi utan um þetta ein og sér?

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um fasta starfsstöð sem sé opin almenningi á tilteknum tíma og rökin fyrir því hjá hæstv. ráðherra voru þau að mikilvægt væri að viðskiptavinir gætu náð persónulegu sambandi við þann sem skipt er við, og ég tek vissulega undir það. En, eins og einnig kom fram í fyrri umræðu, eru aðstæður á landsbyggðinni oft aðrar og eru bílaleigur þar engin undantekning. Einstaklingar taka sér umboð fyrir ákveðna bílaleigu og afgreiðslan er oft og tíðum frá heimili viðkomandi. Ég tek undir það að kveða þarf skýrt á um slíkar starfsstöðvar eða umboð en vil árétta að slík þjónusta þarf að vera til staðar. Ég lít ekki svo á að fyrirtækin séu að dreifa stöðvunum til að koma sér undan eftirliti eins og kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra við 1. umr. Sveitarfélögunum ber að sjá til þess að slíkar starfsstöðvar valdi ekki ónæði og fylgja því eftir að tilskilin leyfi séu til staðar en það þarf að vera skýrt á um þetta kveðið í þessum lögum. Öryggi allra sem nýta sér slíka þjónustu þarf að vera í fyrirrúmi og er því aukið eftirlit með starfseminni af hinu góða. Það verður þó vissulega að gæta þess að það verði aldrei íþyngjandi fyrir starfsemina með mikilli hækkun gjalda eins og hér er lagt til, úr 10 þús. kr. í 25 þús. kr. á leyfi. Ég endurtek því spurningu mína til hæstv. samgönguráðherra hvort það liggi á hreinu hver kostnaðurinn vegna þessarar útgáfu starfsleyfa og annarrar þeirrar umsjónar sem Vegagerðin fær núna er í dag.