132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[15:44]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, ákvæðum sem varða heimilisofbeldi. Í nefndaráliti er gerð grein fyrir vinnslu málsins í nefndinni, gestum á fundi og umsögnum um málið sem voru fjölmargar og fengu allmikla umræðu í nefndinni.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði refsiþyngingarástæða þegar náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa aukið á grófleika verknaðar. Þá er lagt til að efnisþáttur þess ákvæðis sem fjallar um stórfelldar ærumeiðingar í samskiptum innan fjölskyldu verði útfærður í nýju ákvæði sem lögfest verði í XXV. kafla laganna um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Nefndin ræddi á fundum sínum þá leið að lögfesta sérrefsiákvæði um heimilisofbeldi eins og stundum hafa komið fram tillögur um. Í því sambandi komu fram þau rök að varhugavert væri að leggja til fastmótaða skilgreiningu á heimilisofbeldi í hegningarlögum þegar litið er til ákvæða stjórnarskrár um skýrleika refsiheimilda skv. 1. mgr. 69. gr., þar sem ákveðin hætta væri á að ákvæðið yrði verulega matskennt. Þá kom fram að það er grundvallarhugtaksatriði háttseminnar að hún á sér stað milli einstaklinga sem teljast nákomnir á verknaðarstundu enda eru þeir eða hafa verið tengdir nánum samfélagslegum böndum. Þessi nánu tengsl brotaþola og geranda og trúnaðarbrotið milli þeirra er þannig talið geta aukið á grófleika verknaðar og gera brotin sérstaklega ámælisverð.

Þá kom fram hjá nefndinni áhugi á að kanna hvort það væri eitthvað í lögum eða framkvæmd sem þyrfti breytinga við til þess að horft væri til þess við ákvörðun refsinga á brotum milli nákominna hvort andlegu ofbeldi hefði verið beitt.

Nefndin er þeirrar skoðunar að í réttarframkvæmd sjáist þess ekki merki að það skorti á að refsilöggjöfin lýsi með fullnægjandi hætti óæskilegum athöfnum sem eiga sér stað milli nákominna um lengri eða skemmri tíma, en í túlkun Hæstaréttar hefur t.d. verið fallist á að tjón á andlegu heilbrigði eigi undir 217. og 218. gr. Um mögulegar ástæður þess að þess sjáist ekki oftar merki í dómaframkvæmd kom fram það sjónarmið að fremur hefði skort á skýrleika í verknaðarlýsingu ákæru varðandi það þegar t.d. andlegt ofbeldi hefur átt sér stað en dómarar eru bundnir af verknaðarlýsingu ákæru og mega ekki fara út fyrir sakarefnið við ákvörðun refsingar samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Hins vegar hafi nefndin fengið þær upplýsingar að í auknum mæli sé horft til þessara afleiðinga við verknaðarlýsingu við gerð ákæru.

Með þeirri leið sem farin er í frumvarpinu, þ.e. að leggja til að ný málsgrein verði tekin upp í VIII. kafla, sem fjallar um atriði er áhrif hafa á refsihæðina, þarf dómari, að mati nefndarinnar, ætíð að leggja mat á það og rökstyðja í forsendum sínum hvort náin tengsl geranda og brotaþola hafi haft áhrif við ákvörðun refsingar.

Þá var því sjónarmiði hreyft hvort sú aukna réttarvernd sem frumvarpinu er ætlað að tryggja komi nægilega afdráttarlaust fram með því að leggja það í mat dómara hvort tengsl geranda og þolanda eigi að hafa áhrif við ákvörðun refsingar. Nefndin leggur áherslu á að það er ekki sjálfkrafa refsihækkunarástæða að brot hafi átt sér stað milli nákominna heldur verði dómari að leggja á það mat í hverju einstöku tilviki hvort tengsl geranda og þolanda þykja hafa aukið á grófleika verknaðar eða gert hann ámælisverðari og hvort inntak brotsins, eðli þess, ástæður, hvatir að baki og aðstæður að öðru leyti eru þannig að réttlætanlegt sé að beita þessu ákvæði.

Telur nefndin að ákvæðið muni styrkja lagalegan grundvöll sakamálarannsóknar þar sem grunur leikur á að heimilisofbeldi hafi átt sér stað og fagnar því sérstaklega að teknar hafi verið upp verklagsreglur lögreglustjóra um skráningu og meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu sem tóku nýlega gildi.

Þá ræddi nefndin þau sjónarmið sem koma fram í nokkrum umsögnum um málið að heimilisofbeldi væri algengast gegn konum og því í eðli sínu kynbundið ofbeldi sem væri ekki afmarkað sérstaklega í frumvarpinu. Með frumvarpinu er lagt til að gerandi og verknaðarþoli verði ekki skilgreindir sérstaklega heldur verði ákvæðið opið þar sem það á jafnt við um karla, konur og börn. Telur nefndin að þegar litið er til framanritaðs sé útfærsla ákvæðisins til þess fallin að tryggja réttaröryggi allra þeirra er geta orðið fyrir heimilisofbeldi en það getur beinst að hverjum sem er innan heimilisins: börnum og fullorðnum, konum og körlum. Þá leggur nefndin enn fremur áherslu á að það er í samræmi við almennt löggjafarviðhorf við mótun og setningu refsiákvæða hér á landi að lýsing gerenda- og þolendahóps skuli ekki kynbundin nema það leiði af eðli máls.

Þá ræddi nefndin þá breytingu sem lögð er til í 2. gr. frumvarpsins um að fella brott 191. gr., um sifskaparbrot úr XXI. kafla almennra hegningarlaga og að sá efnisþáttur greinarinnar sem varðar stórfelldar ærumeiðingar innan fjölskyldu verði lögfestur í XXV. kafla um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Kom fram á fundum að rökin með því væru m.a. að í framkvæmd hefði í reynd verið horft fram hjá 191. gr. laganna og enn fremur að brotin í ákvæðinu væru ekki í eðli sínu sifskaparbrot heldur ærumeiðingarbrot. Ákærur í ærumeiðingarbrotum hafa yfirleitt ekki verið opinberar heldur fallið undir einkamálalöggjöfina. Hins vegar hafa brot gegn 191. gr. sætt opinberri ákæru og er ekki ætlunin að breyta því fyrirkomulagi með því að færa þau undir ærumeiðingarkaflann og því lagt til í 4. gr. frumvarpsins að verknaðurinn sæti opinberri ákæru. Þá kom einnig fram að með þessari tilfærslu væri unnt að nýta verknaðarlýsingu 234. gr. laganna. Telur nefndin að með því sé sérstaða brotanna viðurkennd og nauðsyn þess að leggja áherslu á rannsókn þessara brota.

Þá komu fram í umsögnum ýmsar ábendingar varðandi réttarfarsleg og félagsleg úrræði en í frumvarpinu er einungis tekið á refsiréttarlegum álitaefnum og telur nefndin því ekki unnt að taka afstöðu til þeirra álitaefna í máli þessu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið. Hv. þm. Jónína Bjartmarz og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita aðrir meðlimir allsherjarnefndar, þ.e. auk mín hv. þm. Bjarni Benediktsson, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson en hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Björgvin Sigurðsson og Guðrún Ögmundsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég taka fram að af hálfu allsherjarnefndar er vissulega á því byggt við afgreiðslu þessa máls að heimilisofbeldi er mikið vandamál sem verður að taka á og Alþingi og stjórnvöld verði að taka fast á þeim málum.

Það er mitt álit að með samþykkt þessa frumvarps sé með mikilvægum hætti áréttað að löggjafinn líti brot af þessu tagi alvarlegum augum. Á því sjónarmiði byggist sú niðurstaða að leiða eigi sérstaklega í lög að náin tengsl brotaþola og hins brotlega geti verið skýr refsiþyngingarástæða. Ég held hins vegar að öllum sem um þetta mál hafa fjallað sé ljóst að lagabreyting af þessu tagi er ekki tæmandi eða nægileg til að takast á við það vandamál sem heimilisofbeldi er. Á hinn bóginn er það mitt mat að samþykkt þessa frumvarps sé mikilvæg í því skyni að undirstrika skýran vilja löggjafans og gefa dómurum skýrar heimildir til að beita refsihækkunarsjónarmiðum þegar svo háttar um sem gerist í málum af þessu tagi.