132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:31]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil til að byrja með taka undir lokaorð hv. 10. þm. Reykv. s. Það leikur enginn vafi á því að við sem erum að fást við þessi mál hér á þessum vettvangi tökum vandamál af þessu tagi alvarlega og viljum leita leiða til að bregðast við þeim. Það er á þeim forsendum sem samstaða hefur verið um þær breytingar sem felast í frumvarpinu sem hér liggur fyrir þó að vissulega séu sjónarmið uppi um að þær tillögur sem þar er að finna séu ekki fullnægjandi.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að átta sig á því að þó að við teljum okkur hafa nokkuð ljósa mynd af því í almennri orðræðu hvað felist í heimilisofbeldi getur verið erfitt að útfæra það í lagatexta með þeim hætti að það uppfylli skilyrði um skýrleika refsiheimilda. Í heimilisofbeldi geta nefnilega falist svo margvísleg og mismunandi brot eins og bent hefur verið á í þessari umræðu. Það getur verið um að ræða líkamlegt ofbeldi af ýmsu tagi, það getur verið um að ræða andlegt ofbeldi, það getur verið kynferðislegt ofbeldi, hótanir og margt fleira. Þau atriði sem ég hef nefnt eru refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum en með því að nálgast málið með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi er verið að tryggja að dómarar hafi heimild til að dæma gerendur til þyngri refsingar en ella þegar brot af þessu tagi eru með þeim hætti að þau varða samskipti nákominna, þ.e. þegar þau eru framin í þeirri nánd sem stafar af nánum tengslum.