132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:33]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að þetta frumvarp lýtur að því að bæta inn í lögin refsiþyngingarástæðu þegar um heimilisofbeldi er að ræða. Einungis er um refsiþyngingarástæðu að ræða og vissulega fagna ég henni. Ég vil hins vegar ganga lengra eins og fjölmargir aðrir umsagnaraðilar vilja. Hér er beinlínis þörf á sérstöku ákvæði um heimilisofbeldi vegna þess að heimilisofbeldi er ekki eins og hver önnur líkamsárás. Þetta er flókið ofbeldi, ég tek alveg undir það. Þetta getur átt undir svo mörg ákvæði almennra hegningarlaga en þegar þau ákvæði voru sett hafði enginn heimilisofbeldi í huga.

Ég skil ekki af hverju við förum ekki alla leið og setjum sérstakt lagaákvæði sem tekur á heimilisofbeldi, tekur á þeim verknaði eins og hann er. Hann er langvarandi, kynferðislegur, líkamlegur, andlegur o.s.frv. og hann gerist innan veggja heimilisins. Af hverju getum við ekki komið okkur saman um ákvæði sem tekur utan um þetta? Þannig mundum við færa dómstólunum og lögreglu betri vopn til að bregðast við heimilisofbeldi.

Við sjáum einnig að refsiramminn getur skipt máli. Refsiramminn undir 217. gr. er langtum lægri en í 218. gr. Við vitum að iðulega lendir heimilisofbeldi undir 217. gr. sem eru minni háttar líkamsmeiðingar. Við vitum líka að dómaframkvæmdin hefur verið þannig að áherslan er ekki á andlegt tjón, sem oft er í forgrunni í heimilisofbeldi, eins og bent var á í umsögnunum, heldur á líkamlegt tjón. Dómstólar líta fyrst og fremst á líkamlegu afleiðingarnar og aðferðina. Ég veit vel að það er hægt að benda á einn og einn dóm þar sem litið er til andlegs tjóns en það dugir ekki. Þessi þróun verður allt of hæg með þessu áframhaldi. Við getum náð miklu betur utan um verknaðinn með því að setja sérstakt ákvæði. Það væri fagnaðarefni ef hv. þm. Birgir Ármannsson færi með okkur í þann leiðangur. Ég held að við deilum öll sameiginlega markmiðinu í þessu máli.