132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:38]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sannfærður um að refsiréttarnefnd, við hér á þingi eða einhverjir aðrir aðilar geta komið sér saman um orðalag sem uppfyllir stjórnarskrána. Aðrar þjóðir hafa gert það, Svíar hafa gert það, Norðmenn hafa verið að skoða þessi mál. Við eigum að sjálfsögðu að geta gert það eins og aðrir. Við getum ekki fyrir fram dæmt um að óskrifað lagaákvæði muni ekki standast kröfur stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda. Við höfum ákveðnar hugmyndir um hvernig við ættum að skilgreina slíkt brot. Lítum á hvernig sænsku lögin skilgreina heimilisofbeldi. Kvennaathvarfið hefur enn aðra skilgreiningu. Ég er alveg sannfærður um að ef vilji er fyrir hendi er hægt að setja sérákvæði um heimilisofbeldi.

Það fólst sannleikur í því sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði. Hann sagði að ýmislegt gæti falist í verknaðinum heimilisofbeldi. Ég tek undir það. Þess vegna er svo óheppilegt hvernig komið er fyrir heimilisofbeldi í íslenskri löggjöf í dag. Það heyrir undir svo mörg lagaákvæði. Það er óheppilegt. Heimilisofbeldi er ekki eins og hver önnur líkamsárás, heimilisofbeldi er ekki eins og hver önnur frelsissvipting eða einangrun eða móðgun eða ærumeiðing. Það er þetta allt í senn. Dómstólar þurfa að fá skilaboð um að taka harðar á heimilisofbeldi og þeir þurfa líka að fá ákvæði sem tekur heildstætt á þessum verknaði og með fullnægjandi hætti.

Það eru mörg ákvæði í lögum sem eru matskennd. Við treystum dómstólunum til að finna út úr því. Upp úr því spretta ákveðin fordæmi, sem eru leiðbeinandi, þannig að það er ekki vandamál. Ég tel þá þögn sem er um heimilisofbeldi í íslenskri löggjöf miklu meira vandamál. Ég held að við ættum að einhenda okkur í það í næsta skrefi að reyna að koma okkur saman um eitthvert orðalag sem bæði uppfyllir stjórnarskrána og tekur á þessum verknaði með fullnægjandi hætti. Þannig náum við betri tökum á þessum verknaði og getum jafnvel aukið kærutíðni í þessum málaflokki og þá væri mikið unnið.