132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[17:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki alveg sammála því að vilji löggjafans sé sá að taka fast á þessu máli. Þetta er afmarkað atriði sem tekist er á við í þessu frumvarpi. Þess vegna finnst mér þetta sem hálfstigið skref, og allt of stutt. Mér finnst við hafa tilefni til að taka miklu veigameira og stærra skref í þessum efnum. Ég átel hæstv. ráðherra fyrir að hafa ekki viljað taka stærra skref í þessari lotu. Hann veit um yfirgripsmikinn stuðning úti í samfélaginu við það. Hann hefði ekki þurft að berjast fyrir því að koma í gegn máli með betri eða sterkari skírskotun til heildarmyndarinnar, sem hefði tekið betur á þessum málum heldur en þetta frumvarp er að gera, þ.e. farið víðar yfir sviðið.

Varðandi það sem ég gerði að umtalsefni, umsögn ríkissaksóknara og Lögmannafélags Íslands, þá hef ég áhyggjur af því að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna eigi jafnvel eftir að koma enn einu sinni til okkar með kvörtun um að dómstólar taki skakkt á málum er varða ofbeldi, heimilisofbeldið ekki síst. Síðast fengum við áminningu um nauðgunarmálin frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og hæstv. dómsmálaráðherra var beðinn að kanna með hvaða hætti löggjöfin gæti gefið dómurunum skýrari vísbendingar um hvernig ætti að taka á málum. Þar var athugasemdinni beinlínis beint til ráðherrans um að skoða löggjöfina þar sem dómar væru svo vægir.

Mér sýnist a.m.k. vafi leika á því að það úrræði, sem lagt er til í þessu frumvarpi, gefi dómurunum nægilega skýra forskrift um hvernig eigi meta þau ákvæði sem hér eru til staðar.