132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[17:11]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna athugasemda hv. þingmanns í sambandi við athugasemdir út af nauðgunarmálum má minna á að á leiðinni er frumvarp um endurskoðun á kynferðisbrotakafla, sem m.a. tekur á þeim atriðum sem nefnd hafa verið í sambandi við kynferðisbrot sérstaklega.

Varðandi frumvarpið sem hér er til skoðunar þá verður ekki horft fram hjá því, þegar við ræðum þessi mál, að öll erum við sammála um að vilja taka á ákveðnum vandamálum. Okkur kann hins vegar að greina á um leiðir í ákveðnu sambandi. Ég met umræðuna þannig að við getum sameinast um þá leið sem felst í þessu frumvarpi, svo langt sem hún nær. Okkur kann hins vegar að greina á um ýmsa aðra þætti. Við höfum í sjálfu sér átt athyglisverðar umræður í allsherjarnefnd um þá þætti. Um þá hafa verið skiptar skoðanir. Þar eru margar hugmyndir á lofti og skiptar skoðanir. En ég lít svo á að afgreiðsla þessa frumvarps sé ekki endapunktur í því sambandi.

Ef við veltum því hins vegar fyrir okkur í örstuttu máli, þótt það sé í sjálfu sér sérmál sem þyrfti að ræða við betra tækifæri, þá eru álitamálin sem við stöndum frammi fyrir í stærstum dráttum tvö, að mínu mati. Annars vegar er það hvort setja eigi sérákvæði um heimilisofbeldi inn í almenn hegningarlög, sem ég tel erfitt að gera með skýrum hætti í ljósi þess að það þarf að vera skýr verknaðarlýsing í ákvæði, það þarf að vera skýrt hvað er bannað. En brot sem í almennri umræðu eru umrædd sem heimilisofbeldisbrot geta verið margvísleg og falið í sér margt. Þess vegna held ég að það sé mjög erfitt að ná utan um það í lagatexta.

Hitt atriðið erum við vissulega ósammála um, þ.e. hvort lögin eigi að vera kynblind eða hvort sérstök ákvæði eigi að fela í sér bann við broti gegn konum. En í mínum huga er alveg ljóst að brot eru jafnalvarleg, hvers kyns sem fórnarlömb og gerendurnir eru.