132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:50]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni um að frumvarpið er skýrt. Það færir Landsvirkjun þessi vatnsréttindi sem eign. Frumvarpið er flutt með þeim rökstuðningi að ríkið sé að efna það sem það sagðist ætla að gera þegar Landsvirkjun var stofnuð.

Það sem ríkislögmaður segir hér og ég var að vitna til er að það sé bara ekkert þannig, að það hafi ekki verið meiningin að þessi réttindi rynnu inn í Landsvirkjun sem eign heldur bara hagnýtingarréttur. Ríkislögmaður, í þessari álitsgerð frá 2002, er því í andstöðu við þann rökstuðning sem ríkisstjórnin hefur fyrir flutningi málsins. Þess vegna skiptir máli að afla sér álitsgerðar ríkislögmanns og fá skýringar á því hvers vegna er ósamræmi þarna á milli.

Í öðru lagi skiptir máli að fá upplýsingar um verðmæti þessara réttinda. Ég fagna því að hv. framsögumaður nefndarinnar tekur vel í að afla þeirra upplýsing og þakka honum fyrir það.

Ég vil enda á að vitna í skrifstofustjóra orkusviðs í iðnaðarráðuneytinu sem sagði, eftir að úrskurður óbyggðanefndar féll, með leyfi forseta:

„Það að Landsvirkjun hafi nýtingarrétt en ekki eignarrétt þýðir að Landsvirkjun er heimilt að nýta þessa auðlind en jafnframt er ríkinu heimilt að taka gjald fyrir nýtingu hennar samkvæmt þjóðlendulögunum. Þetta þýðir að Landsvirkjun ætti að greiða nokkurs konar auðlindagjald fyrir að nýta þessi vatnsréttindi sem þau töldu áður réttilega vera í sinni eigu.“

Þetta er kjarni málsins, virðulegi forseti, þegar við horfum á pólitíska hlið málsins.