132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:01]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi, áður en ég lýk þátttöku minni í þessari umræðu, geta frekari rökstuðnings við þá niðurstöðu sem ríkislögmaður komst að og ég vitnaði til. Hann komst að þeirri niðurstöðu að niðurstaða óbyggðanefndar raskaði ekki eignarhlutföllum vegna þess að það hefði aldrei verið meiningin í upphafi að þessi réttindi rynnu inn í Landsvirkjun sem eign.

Ríkislögmaður vísar í áliti sínu, eftir því sem séð verður, í áliti borgarritara. Ég hef ekki álitsgerð ríkislögmanns sjálfs undir höndum og hún virðist ekki hafa verið lögð fram í allsherjarnefnd en hann vitnar til óbyggðanefndar og gerð er grein fyrir því í athugasemdum með lagafrumvarpinu. Þar kemur nokkuð skýrt fram á hverju ríkislögmaður byggir niðurstöðu sína. Mig langar að vitna í smákafla á bls. 9, úr greinargerð með frumvarpinu. Þar segir með leyfi forseta, undir kaflaheitinu Réttindi Landsvirkjunar samkvæmt lögum:

„Þá kemur fram að óbyggðanefnd hafi gert ítarlega rannsókn á viðkomandi lagaheimildum og í því sambandi kannað tiltæk lögskýringargögn, lagafrumvörp, greinargerðir og athugasemdir með þeim, ásamt því að fara yfir allar umræður um viðkomandi lagafrumvörp. Síðan segir:“ — Þá er vitnað í álit óbyggðanefndar, með leyfi forseta:

„Í tilvitnuðum lögum og lögskýringargögnum er hvergi að finna áform í þá veru að stofna til hefðbundinna eignarréttarheimilda Landsvirkjun til handa að lands- og/eða vatnsréttindum. Með vísan til þeirrar rannsóknar, er það mat óbyggðanefndar að með tilvitnuðum lagaheimildum hafi ekki verið stofnað til beinna eignarréttarheimilda í einkaeignarréttarlegum og stjórnskipulegum skilningi … Um er að ræða nokkurs konar og að öðru leyti óskilgreindan nýtingarrétt, sem stofnað er til í skjóli valdheimilda íslenska ríkisins …“

Enn fremur segir í úrskurði óbyggðanefndar, með leyfi forseta:

„Samanburður á 4. gr., 6. gr. og 18. gr. laga nr. 59/1965, styður eindregið þá niðurstöðu að lögbundnar heimildir til handa Landsvirkjun til þess að reisa og reka raforkuver ásamt nauðsynlegum búnaði og tilfæringum, svo sem aðalorkuveitum, verði ekki skýrðar svo að með þeim heimildum hafi verið tilætlan löggjafans að stofna til hefðbundinna einkaeignarréttarlegra heimilda í skilningi 72. gr. stjórnarskrár.“

Síðar í álitsgerð óbyggðanefndar segir, með leyfi forseta:

„Af þessu má ráða að í lagaheimild … felst ekki tilætlun um stofnun eignarréttarlegra heimilda að vatni, landi eða öðrum fasteignaréttindum.“

Enn fremur segir í áliti óbyggðanefndar, með leyfi forseta:

„Eins og að framan er rakið hefur löggjafinn í skjóli valdheimilda sinna veitt Landsvirkjun með lögum, ákveðinn en þó óskilgreindan nýtingarrétt …“

Þannig er alveg skýrt að óbyggðanefnd, sem fór í gegnum öll skjölin, finnur ekki neinar sönnur fyrir þeirri fullyrðingu sem frumvarpið er byggt á, að það hafi verið ætlun ríkisins að Landsvirkjun hefði þessi réttindi sem eign. Það finnst mér í raun þurfa að athuga í málinu. Það er þá ný pólitísk ákvörðun ef gera á þessi réttindi eignaréttindi Landsvirkjunar en ekki nýtingarréttindi. Það kom mér á óvart þegar ég fór að kynna mér málið. Ég hélt að málið væri þannig vaxið sem því hafði verið lýst, að ætlunin væri að uppfylla það sem menn ætluðu sér að gera fyrir löngu síðan og hafa staðið í þeirri meiningu að væri fyrir hendi í rúm 40 ár, þar til úrskurður óbyggðanefndar féll.

En óbyggðanefnd fer í gegnum öll skjölin og kemst að þeirri niðurstöðu að það séu engin sönnunargögn til fyrir því að þetta hafi verið ætlunin. Ríkislögmaður tekur það líka upp í álitsgerð sinni. Ég set því stórt spurningarmerki við þá fullyrðingu sem málið er reist á. Erum við að gera það sem menn höfðu lofað að gera fyrir löngu síðan eða að taka nýja pólitíska ákvörðun? Það finnst mér þurfa að vera alveg ljóst og mér virðist á þeim gögnum sem hér liggja fyrir að um sé að ræða nýja ákvörðun, að þessi vatnsréttindi verði eignarréttindi í Landsvirkjun.

Ég vildi draga þetta rækilega fram, virðulegi forseti, svo það verði ekki misskilið. Það er síðan álitamál hvernig menn vilja hafa þessa hluti til framtíðar litið. Ég hef lýst því og þarf ekki að endurtaka það nema í mjög stuttu máli að ég tel að þessi réttindi eigi að vera nýtingarréttindi í höndum þess sem nýtir þau en eignin eigi að vera hjá þjóðinni. Ég tek að því leyti undir sjónarmið sem höfð eru eftir skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneytinu á sínum tíma, eftir að óbyggðanefnd hafði kveðið upp úrskurð sinn.