132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:08]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan fá staðfestingu á þeim skilningi sem ég tel að eigi að leggja í orðin sem hv. þingmaður var að segja. Ég mat það svo að hann teldi að þörfin á að flytja þetta mál væri engin. Í raun hafi ríkið haft fullan rétt vegna þess að ríkið átti þetta land, þótt ekki hafi verið búið að úrskurða það eign þess á þeim tíma sem þessi gjörningur fór fram. Þjóðin hafi hins vegar átt þetta land í þeirri merkingu sem menn leggja í eignarhald og að framsal þess eignarhalds, eða nýtingarréttarins sem á þessu eignarhaldi hangir, hafi í raun verið fullnægjandi af því að í raun hafi ekki farið fram afsal eignarinnar sjálfrar heldur nýtingarréttarins.

Sá gjörningur sem hér er hugmyndin að fari fram væri þar með óþarfur vegna þess að það stendur sem í upphafi var gert, þótt eignarhald eigandans hafi komið til með öðrum hætti en menn reiknuðu með þegar sá gjörningur fór fram. Þetta er kannski niðurstaðan sem mér finnst hv. þingmaður hafa komist að í máli sínu.