132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar, er nú til 2. umr. Hér hafa farið fram orðaskipti um hvað verið sé að gera.

Ég vil vitna til þess sem ég sagði við 1. umr. málsins, að ég teldi málið vera gjörsamlega óþarft á þessu stigi. Þarna er verið að tala um land og vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar sem er í eigu Landsvirkjunar. Á sínum tíma þegar þetta var látið undir virkjun voru allt aðrir tímar en nú eru og annað mat á þeim verðmætum og samfélagslegri stöðu þeirra. Auk þess var Landsvirkjun, og er reyndar enn, í opinberri eigu og að meiri hluta í eigu ríkisins. Þá datt engum í hug, ég fullyrði það, að minnsta kosti hefur mjög fáum dottið það í hug, að Landsvirkjun yrði seld, að það gæti komið upp á borðið að Landsvirkjun yrði seld. Ég held að fæstum hafi dottið það í hug þegar verið var að stofna til Landsvirkjunar og þeirra réttinda sem hún þurfti að hafa til þessarar vatnssöfnunar.

Nú eru gjörbreyttir tímar. Við höfum rætt og tekist á um vatnalög sem fela í sér að vatnið sem auðlind á að lúta ákvæðum eignarréttar og geta orðið að fasteign, hluti af fasteign og verði sérmetin fasteign sem megi þess vegna versla með sem sjálfstæða verslunarvöru. Einnig eru uppi hugmyndir um sölu á Landsvirkjun. Þetta er því gjörsamlega breytt mynd frá því að gengið var frá þessum réttindum Landsvirkjunar á sínum tíma.

Þess vegna finnst mér frumvarp sem felur í sér að ríkið afsali bara sisona landi og vatnsréttindum á ákveðnu svæði þarna sem lúta að Búrfellsvirkjun án þess að fram fari þá önnur og sértæk umræða um hvað sé í raun verið að gera algjörlega óásættanlegt. Ég sagði við 1. umr. að ég teldi eðlilegast að eigendur Landsvirkjunar, sem allir eru opinberir aðilar, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, settust niður og ræddu þessi mál og athuguðu með hvaða hætti væri hægt að tryggja nauðsynleg vatnsréttindi Landsvirkjunar til að reka og starfrækja Búrfellsvirkjun, eins og markmiðið er, án þess að verið sé að afhenda einhver varanleg eignarréttindi sem slík á landi og vatnsauðlind.

Við vitum ekkert nú. Það eru óvissutímar varðandi stöðu Landsvirkjunar, eignarréttarákvæði og auðlind af þessum toga. Þess vegna eigum við að staldra við. Eigendur, sem eru ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, geta vel sest niður og leyst málið til að þetta trufli ekki eðlilega starfsemi og rekstur Landsvirkjunar.

Ég tek því undir þau orð sem hér hafa fallið hjá hv. þingmönnum Kristni H. Gunnarssyni og Jóhanni Ársælssyni, að þetta mál ætti að kalla aftur inn til nefndar og að lokinni 2. umr. fái það afgreiðslu í gegnum hana. Þá verði farið nákvæmlega ofan í þessi mál en ekki farið aftan að kerfinu eins og hér er verið að gera með heimildir hvað varðar eign og ráðstöfun auðlinda. Við þurfum að tryggja það í stjórnarskrá fyrst að vatnið sem auðlind sé sameign þjóðarinnar og einungis sé ráðstafað skilgreindum nýtingarrétti til þeirra verkefna sem eru ákveðin á hverjum tíma samkvæmt sérstökum ákvæðum. Það er það sem við eigum að gera, nákvæmlega eins og við þurfum að gera með fiskinn í sjónum. Reyndar stendur í lögunum um stjórn fiskveiða að fiskurinn í sjónum sé sameiginleg auðlind þjóðarinnar og sama ætti náttúrlega að gilda um vatnið áður en farið er í að úthluta einhverjum sérstökum gæðum, eins og hér er verið að leggja til, til Landsvirkjunar sem þess vegna á morgun eða hvenær sem er gæti verið komin á almennan markað til sölu með þeim réttindum sem verið er að leggja undir hana.

Ég tek því afdráttarlaust undir þá skoðun að málið eigi ekki að fara í gegnum þingið eins og það liggur fyrir heldur eigi að kalla það aftur inn í nefnd og skoða það mun nánar svo við séum ekki að gera nánast óafturkræf axarsköft eins og þetta frumvarp getur borið í sér.