132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Faggilding o.fl.

361. mál
[18:29]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um faggildingu og fleira frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem er að finna á þingskjali 988.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Frey Guðmundsson frá viðskiptaráðuneyti og Sigurlinna Sigurlinnason frá Neytendastofu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum verslunar og þjónustu, Viðskiptaráði Íslands, Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins og fleirum, Landssambandi smábátaeigenda og Siglingastofnun Íslands.

Í frumvarpi þessu er lagt til að sett verði sérstök lög um faggildingu, en með faggildingu er átt við formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að framkvæma ákveðin verkefni. Nú eru ákvæði um faggildingu í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, en við gildistöku þeirra laga 1. janúar 1993 komu ákvæði um faggildingu fyrst inn í íslenska löggjöf.

Við umfjöllun málsins í nefndinni voru gerðar athugasemdir um að texti frumvarpsins væri ekki nægilega skýr. Taldi nefndin því þörf á úrbótum og var unnið að því í samráði við fulltrúa ráðuneytis, Neytendastofu, Staðalráðs Íslands og Einkaleyfastofu að bæta orðalag frumvarpsins. Nefndin telur ástæðu til að taka sérstaklega fram að í frumvarpinu er notast bæði við hugtökin „faggildingarsvið“ og „faggildingarstofa“. Í raun er faggildingarsvið Einkaleyfastofu hin íslenska faggildingarstofa en bent var á að þetta gæti valdið ruglingi. Því leggur nefndin til að í stað hugtaksins „faggildingarstofa“ í frumvarpinu verði notað „stjórnvald sem annast faggildingu“ eða því um líkt, þó svo að í daglegu tali verði án vafa algengast að nota hugtakið „faggildingarstofa“ um erlend stjórnvöld á sviði faggildingar.

Fram komu athugasemdir um að ófullnægjandi væri að vísa til staðals, þ.e. ÍST ISO/IEC 17011, sbr. 5. gr. frumvarpsins, um grundvallaratriði, svo sem málsmeðferð umsókna og niðurfellingu faggildingar. Bent skal á að í fyrrnefndum staðli er auk nánari ákvæða um starfsreglur faggildingarstofa að finna ákvæði sem kveða m.a. á um málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um faggildingu, samanber einkum ákvæði í 7. gr. staðalsins um málsmeðferð við veitingu faggildingar, eftirlit með þeim og niðurfellingu faggildingar ef umsækjendur fullnægja ekki lengur þeim skilyrðum sem eru grundvöllur fyrir faggildingu þeirra. Í ljósi þess að aðili í faggildingu nýtur mikilvægra atvinnuréttinda, sem eru þó háð ýmsum skilyrðum sem hlutaðeigandi er skylt að endurnýja og viðhalda í samræmi við þær alþjóðlegu reglur sem gilda um faggildingar, er nauðsynlegt að í íslenskri löggjöf sé að finna þær grunnreglur sem faggildingarsviði ber að hafa til hliðsjónar við veitingu slíkra réttinda, svo og við sviptingu þeirra, þegar það á við. Af þessari ástæðu leggur nefndin til að við frumvarp þetta verði bætt greinum sem kveða á um framangreind atriði. Í stað beinnar tilvísunar til staðals er lagt til að um málsmeðferð fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setji með tilvísun til staðla sem gilda um starfsemi faggildingarsviðs. Það er í samræmi við ákvæði í 3. gr. laga nr. 36/2003, um staðla og Staðlaráð Íslands, að þegar íslensk stjórnvöld ákveða að gera notkun tiltekins staðals skyldubundna þá skuli það gert með setningu reglugerðar og tilvísun þar til hlutaðeigandi staðals.

Frú forseti. Ég hyggst ekki lesa allar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu, þær er að finna á þingskjali 988, en mun renna í gegnum veigamestu breytingarnar.

Lagt er til að hin tilteknu orð og orðasambönd í 2. gr. verði afmörkuð við lögin. Þar er um að ræða skilgreiningar sem gilda bara um þessi lög.

Samkvæmt núgildandi lögum um vog, mál og faggildingu má skjóta synjun Neytendastofu á umsókn um faggildingu til sérstakrar úrskurðarnefndar. Í frumvarpinu er ekki kveðið sérstaklega á um málskot en í breytingartillögum nefndarinnar er lagt til að málskot verði til ráðherra. Eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins ná lögin til faggildingar auk mats á tilnefndum aðilum og mats á góðum starfsvenjum við rannsóknir. Nefndinni þykir frumvarpið skorta ákvæði um hina tvo síðarnefndu þætti og leggur því til að sett verði almennt ákvæði um málsmeðferð þar að lútandi.

Í 7. gr. er fjallað um merkingar og nafnmerki. Til einföldunar er lagt til að orðið „faggildingarmerki“ verði notað í stað umræddra orða enda nokkuð óljóst hvað átt er við með hugtakinu „nafnmerki“ og hvort það fellur þá undir hugtakið „merkingar“.

Í 2. mgr. kemur fram að faggildingarsvið skuli viðurkenna reglur hins faggilta aðila um hvernig hann og þeir sem hann metur starfsemina hjá megi nota nafnmerki faggildingarstofu. Við umfjöllun málsins kom fram að ekki ætti að vera um viðurkenningu á reglum að ræða þar sem frumkvæðið kæmi frá faggildingarsviði. Þá kemur fram í 3. mgr. að ráðherra samþykkir merki faggildingarsviðs og nánari reglur sem um það skulu gilda og birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Nefndinni þótti leika nokkur vafi á því hvort bæði faggildingarsvið og ráðherra ættu að setja reglur, eða eingöngu faggildingarsvið með því skilyrði að ráðherra samþykkti þær og birti. Með hliðsjón af þessu telur nefndin einfaldast að ráðherra setji reglugerð um þetta atriði. Kveðið yrði m.a. á um útlit merkisins, stöðu þess og notkun. Þykir nefndinni þá ekki þörf á að hafa sérstaka heimild til handa faggildingarsviði til að setja nánari reglur um faggildingarmerki.

Varðandi umsóknar- og skráningargjald kom fram við umfjöllun málsins að ekki væri tekið gjald fyrir upplýsingar vegna umsóknar og að ekki hefði verið ætlunin að breyta því fyrirkomulagi með frumvarpi þessu. Því leggur nefndin til að sá hluti verði felldur undan því gjaldi. Í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins kemur fram að faggildingargjald sé gjald fyrir mat á tilnefndum aðilum o.s.frv. Við umfjöllun málsins var bent á, samanber einnig umsögn Neytendastofu, að einnig væri um að ræða gjald fyrir mat á faggiltum aðila. Nefndin leggur því til umrædda viðbót. Að því er varðar gjald fyrir mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir þá leggur nefndin til að orðalag verði samræmt við skilgreininguna í 2. gr. Aðrar breytingar á greininni telur nefndin að þarfnist ekki skýringa.

Í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að ef tilkynntur aðili brýtur af sér eða fullnægir ekki lengur þeim skilyrðum sem starfsleyfi hans byggist á geti ráðherra ákveðið að afturkalla tilnefningu sína á tilkynntum aðila til Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Nefndin leggur til að þetta verði sett inn í lagatextann.

Að síðustu leggur nefndin til að bætt verði við frumvarpið bráðabirgðaákvæði þess efnis að starfsmanni Neytendastofu skuli boðið annað starf hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu.

Ég hef hér drepið á stærstu atriðin í þeim breytingum sem nefndin lagði til, en þær eru ansi viðamiklar með hliðsjón af því að farið var út í að setja frumvarpið á skiljanlegra mál.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali, nr. 989. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu. Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta Möller og Ögmundur Jónasson.

Herra forseti. Þetta frumvarp fjallar um afskaplega fræðilegan þátt en mjög mikilvægan og er eflaust fyrir marga sem á hlýða allt að því latína. Til að gera frekari grein fyrir hvað um er að ræða, og hversu mikilvægt þetta frumvarp er fyrir allt atvinnulíf, vil ég nefna tvö dæmi.

Í fyrra dæminu segir svo: Í viðskiptum með fiskimjöl greiða kaupendur fyrir mjölið miðað við próteinmagn þess. Til að tryggja áreiðanlega og rétta niðurstöðu af próteinmælingu gera kaupendur kröfu til að próteinmælingin sé gerð á faggiltri prófunarstofu. Faggildingin er fyrir prófunarstofuna mat á hæfni hennar, miðað við staðalinn ISO/IEC 17025, sem eru almennar kröfur um hæfni prófunar- og kvörðunarstofa. Þarna leggur sem sagt faggildingarsviðið mat á ákveðna prófunarstofu sem þá getur gefið út vottorð um hversu mikið próteininnihald er í ákveðnu fiskimjöli.

Annað dæmi: Stjórnvöld geta falið einkaaðilum á markaði að framkvæma tæknilegt eftirlit í sínu umboði. Þetta er t.d. eftirlit með raforkuvirkjum, ökutækjum, og mælitækjum sem notuð eru í viðskiptum, svo sem vogum og bensíndælum. Til að tryggja að einkaaðili á markaði sé hæfur til að stunda þetta eftirlit gera stjórnvöld kröfu um að hann öðlist faggildingu á sínu starfssviði. Þegar ég fer út í verslun og kaupi eitt kíló af sykri get ég því verið viss um að ég fái eitt kíló af sykri. Yfirleitt efast fólk ekki um það. Traustið er orðið þvílíkt á þessu kerfi faggildingar að menn efast ekkert um að þegar þeir kaupa eitt kíló af sykri fái þeir — kannski með einhverjum örlitlum frávikum, sem þá eru leyfð samkvæmt reglum og allri meðferð vigtunarinnar — eitt kíló plús mínus kannski 1–2%. Sama á við þegar við kaupum bensín. Reyndar getur hver og einn mælt það heima hjá sér hvort hann hafi fengið eitt kíló eða ekki en ég held að fæstir geri það nú. Menn treysta þessu algjörlega. Vogirnar sem notaðar eru til að vigta ávexti í búðum eru skoðaðar og þeim er gefið ákveðið merki, faggildingarmerki, sem er hægt að sjá á vigtinni. Sama á við um bensíndælur. Þegar við kaupum bensín treystum við því að við höfum fengið einn lítra af bensíni þegar dælan sýnir einn lítra af bensíni. Þetta er líka gert með faggildingu til ákveðins aðila sem hefur tæknilegt eftirlit með bensíndælum og sér til þess að mælirinn sýni rétt magn af bensíni sem við kaupum.

Þetta er til að undirstrika hversu mikilvægt þetta er, fyrir utan að það þarf líka að faggilda aðferðir við rannsóknir, t.d. geislamælingar og alls konar miklu flóknari aðferðir sem almenningur kynnist ekki daglega.

Þetta frumvarp er þess vegna mjög mikilvægt og sérhæft en því miður dálítið torskilið. Ég vona að með þessum dæmum hafi ég varpað örlitlu ljósi á um hvað er að ræða.