132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun sæstrengs.

509. mál
[12:11]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er ákaflega brýnu máli hreyft af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og athyglisvert það sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra um þetta. En það er auðvitað óþolandi hvernig þessi mál eru í raun og veru hjá okkur eins og hér kom fram hjá síðasta ræðumanni, að rottugangur í skosku hálöndunum geti stoppað okkur af og kúplað út sambandi. En það er ekki það sem er verst, það er ekki síður hinn svakalega hái kostnaður sem þessu fylgir og síðast en ekki síst þetta óöryggi. Það ber að hvetja til þess að það sé gengið hraðar fram í því að tryggja þetta samband betur.

Af því að við erum að nefna netsamband þá get ég ekki látið hjá líða að nefna þær hugmyndir sem núna eru uppi sem oft hafa verið ræddar í sambandi við sölu Símans, þ.e. grunnnetið. Nú er verið að ræða það að fara að selja það frá þeim sem keypti Símann og setja það í sérrekstur. Þannig að það skyldi þó ekki vera að það sem við fulltrúar Samfylkingarinnar lögðum m.a. til á sínum tíma hvað þetta varðar hér innan lands, að nú séu menn farnir að sjá að það hafi verið hin rétta lausn?