132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:33]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Sem betur fer ráða hæstv. ráðherrar því ekki hvaða fyrirspurnir eru lagðar fram á Alþingi og er undarlegt að hlusta hér á hæstv. ráðherra kveinka sér undan því að þessi tegund af fyrirspurn sé lögð fram. Ætli þær yrðu ekki fáar ef ráðherrarnir hæstv. ættu að ráða því um hvað væri spurt hér í þinginu.

Mér fannst það koma skýrt fram í máli hv. fyrirpsyrjanda að honum væri að sjálfsögðu kunnugt um það sem þingmanni Suðurkjördæmis að nefnd væri að störfum til að kanna alla framtíðarmöguleika varðandi samgöngur við Vestmannaeyjar. Ég tók það svo að þessi spurning hv. fyrirspyrjanda væri komin fram vegna þess að menn væru að velta fyrir sér betri lausn en nú er til skemmri tíma, hvort til greina kæmi að skoða möguleika á því að kaupa hraðskreiðari ferju til að leysa samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar á þeim tíma sem líður þangað til sú nefnd sem hér um ræðir kemst að einhverri niðurstöðu um hvernig best væri að leysa framtíðarsamgöngur þar. Við hljótum að hafa leyfi til þess, hv. þingmenn, að velta fyrir okkur lausnum til skemmri tíma alveg eins og til lengri tíma.