132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í máli mínu áðan að ég gerði mér fulla grein fyrir því að nefnd væri að störfum sem væri að skoða þessa hluti. Það sem fyrir mér vakti var að reyna að fiska eftir því hvort einhver vinna hefði farið fram á vegum hæstv. ráðherra varðandi það að skipta út því skipi sem nú er í notkun.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, virðulegi forseti, að hver sem niðurstaðan verður af störfum þessarar nefndar, sem mér heyrðist því miður að hefði ótakmarkaðan tíma til að skila af sér og enginn veit í raun og veru hvenær hún muni komast að niðurstöðu, mun taka einhver ár að vinna úr þeirri lausn sem ákveðin verður til frambúðar, hvort sem það verða jarðgöng, ný höfn við Bakka eða að smíða nýjan Herjólf.

Mig langar aðeins til að vekja athygli á því að ég fæ ekki betur séð en að nú þegar sé búið að smíða og hanna þó nokkuð af slíkum ferjum og verið gæti að eitthvað af þeim skipum kæmu á markað og það væri hægt að kaupa svona skip með tiltölulega skömmum fyrirvara og skipta þá út því skipi sem nú er í notkun. Það hefur margoft komið fram, ekki síst vegna breyttra aðstæðna í flutningum, að það skip er oft og tíðum of lítið og það hefur ítrekað verið í umræðunni að fá þurfi nýtt skip, stærra skip og hraðskreiðara skip.

Mér finnst það hreinlega ekki boðlegt að vísa í gamlar niðurstöður frá árinu 2002 eða 2003 eins og þróunin er hröð í þessum efnum. Það er einfaldlega ekki boðlegt. Það eru liðin þrjú til fjögur ár síðan þær komu fram. Og ég kaupi það ekki heldur að ekki sé hægt að sigla á háhraðaferju milli lands og Eyja. Að sjálfsögðu sigla menn alltaf eftir aðstæðum og ef veður er vont slá menn af hraðanum. En þegar veður er þokkalegt, og þannig er það yfirleitt, sæmilegt sjóveður, þá geta menn leyft sér að sigla hraðar sem því nemur. Ég treysti skipstjórnarmönnum á Herjólfi framtíðarinnar, sama hvort það verða Vestmannaeyingar eða aðrir, ég treysti dómgreind þeirra fyllilega til að stýra slíku fleyi heilu á milli lands og Eyja.

Ég vil með þessum orðum, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, hvetja hæstv. samgönguráðherra til dáða í þessum efnum.