132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:37]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er eins og við manninn mælt þegar umræður um samgöngur við Vestmannaeyjar eru annars vegar þá eru bæði margir ræðumenn og áhugasamir og margar hugmyndir á lofti.

Vegna þess sem hér hefur komið fram og spurninga hv. þingmanna um pólitíska sýn samgönguráðherra hvað varðar samgöngur við Vestmannaeyjar þá er mín pólitíska sýn sú að við veljum kost sem styrkir byggðina í Vestmannaeyjum. Ég tel að þetta sé svo alvarlegt mál og alvarlegt viðfangsefni að við eigum ekki að gefa yfirlýsingar fyrr en búið er að vinna rannsóknir og úttekt í samræmi við það sem fyrrnefnd nefnd er að vinna að. Jarðgangakosturinn er ekki á dagskrá hér og verður ekki á dagskrá af minni hálfu fyrr en skýrslan liggur öll fyrir og nefndin hefur skilað umsögn til mín um hvað hún telur að gera eigi í þeim efnum eftir að sérfræðingar sem í nefndinni eru og vinna fyrir nefndina hafa farið yfir það og kortlagt viðfangsefnið. Þá mun ég gefa út upplýsingar um mína pólitísku sýn í samgöngumálum Eyjamanna.

Ég vek athygli á því sem kom fram hjá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sem er alveg hárrétt, að ferðaþjónustan er mikilvæg í Eyjum og þar eigum við kosti. Þess vegna skipaði ég sérstakan starfshóp, undir forustu þingmannsins Guðjóns Hjörleifssonar, til að leggja á ráðin um það hvernig við getum markaðssett Vestmannaeyjar betur. Það er gert í samstarfi við heimamenn sem þekkja vel til og ég bind miklar vonir við þá vinnu. En ég vísa til þess enn og aftur að skýrslan mun liggja fyrir innan tíðar og þá mun verða (Forseti hringir.) fjallað um alla þessa þrjá fyrrnefndu kosti.

Skipið er lítið, afkastagetan þarf að vera meiri, sagði hv. fyrirspyrjandi. Við höfum m.a. komið til móts við þá þörf með því (Forseti hringir.) að fjölga ferðum, sem hefur verið gert í samræmi við óskir heimamanna og er afar mikilvægt.