132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:55]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmenn hljóti að vera að oftúlka orð hæstv. samgönguráðherra. Ég treysti því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eina stefnu um það að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki í Vatnsmýrinni til framtíðar og að samgönguráðherra sé að vinna að því að finna vellinum annan stað — sannarlega á höfuðborgarsvæðinu en á öðrum stað. Ég held að það væri gott, út af þeim hita sem hér hefur verið í athugasemdum, að hæstv. samgönguráðherra upplýsi okkur um það við þetta tækifæri hvaða staði er verið að skoða og hvaða kosti honum líst best á í því. Hann mætti líka upplýsa okkur um það hvort, í því erfiða atvinnuástandi sem nú er að skapast á Suðurnesjum, ekki megi styrkja atvinnulífið og byggðina með því að flytja þessa mikilvægu starfsemi á þann stað á Reykjavíkursvæðinu sem er Keflavík. Þar eru allir innviðir til að taka við þessari starfsemi sem við erum væntanlega sammála um, ég og hæstv. samgönguráðherra, að hlýtur að víkja úr Vatnsmýrinni.