132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:56]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað mjög skiptar skoðanir um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og það getur vel verið að einhvern tíma í framtíðinni verði þar ekki flugvöllur. En ég held við verðum að horfast í augu við það að þarna verði flugvöllur á næstunni. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að það eru líkur á því að stór hluti innanlandsflugs leggist af ef það verður allt frá Keflavík. Það er það langt að keyra þangað. Ef innanlandsflugið verður flutt til Keflavíkur aka menn út á land í stað þess að fljúga.

Síðan er það líka spurning um kostnað við að byggja annan flugvöll í Reykjavík fyrir innanlandsflugið. Það er alltaf mjög mikil barátta um skattfé borgaranna. Ég hefði frekar viljað sjá það fara í velferðarþjónustuna frekar en að það fari í það að leggja niður flugvöllinn í Vatnsmýrinni og byggja annan flugvöll á Reykjavíkursvæðinu. Við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr því en ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að ég hef efasemdir um að mikið verði flogið innanlands ef flytja á innanlandsflugið til Keflavíkur. (ÍGP: Fyrirspurnin snerist um Egilsstaði.)