132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[13:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér hafa skapast ágætar umræður, eins og oft áður, um innanlandsflugið. Komið hafa fram nokkur atriði sem er rétt að tæpa á. Fyrst vil ég nefna, sem er reyndar til hliðar við fyrirspurnina sem snýst um flugstöðina á Egilsstaðaflugvelli, að hv. þm. Kristjáns Möller talaði um að bæta þyrfti aðstöðu í ferjuhöfninni á Seyðisfirði og að bankað væri á dyr samgönguráðherra hvað það varðar.

Þeim framkvæmdum sem samgönguráðuneytið hefur staðið fyrir á Seyðisfirði vegna ferjunnar er lokið en það sem hins vegar er verið að tala um að bæta úr er aðstaða vegna tollskoðunar. Það er á vettvangi fjármálaráðuneytisins og ég veit að fjármálaráðuneytið vinnur að skoðun á því máli og mun finna lausn og koma í framkvæmd því sem gera þarf í Seyðisfjarðarhöfninni.

Spurt var hvað gera ætti í sumar. Það kom í fram í svari mínu að við gerum ráð fyrir að setja þessar framkvæmdir af stað í sumar, þ.e. stækkun flugstöðvarinnar. Ég vona svo sannarlega að það taki ekki langan tíma og eigi ekki að þurfa að taka langan tíma þannig að stærsti partur framkvæmdanna verði á þessu ári. Hvað það varðar að öryggismálin séu ekki í lagi á flugvellinum þá vísa ég því til þeirra sem eiga að sjá um þau öryggismál, svo sem eins og viðkomandi tollstjóri. Samkvæmt upplýsingum mínum eru öll öryggismál og eiga að vera í lagi á þessum flugvelli eins og öllum öðrum. (Forseti hringir.) Ef svo er ekki þá er það á ábyrgð viðkomandi embættismanna.