132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Það hlýtur það að vera mikilvægt byggðamál ef hægt er að styrkja bein tengsl Norðurlands við alþjóðasamfélagið með flugi til og frá Akureyrarflugvelli. Þetta leiðir hins vegar aftur hugann að innanlandsfluginu í Reykjavík, þ.e. að á meginöxlinum hinum megin er aðeins fyrir að fara einni flugbraut og tiltölulega einfaldri gerð flugvallar til að þjóna innanlandsfluginu. Það hlýtur að vekja þær spurningar hvort ekki nægi í sjálfu sér jafneinfaldur flugvöllur hérna megin, sunnan megin, til að taka á móti umferðinni frá þessari einu flugbraut á Akureyri, aðallega, og hvort ekki nægi þess vegna, ef hæstv. ráðherra vill alls ekki flytja innanlandsflugið til Keflavíkur, að koma upp flugvelli af einfaldari gerð í útjaðri höfuðborgarinnar, á Hólmsheiði eða í Hvassahrauni eða annars staðar, til að sinna innanlandsfluginu. En Keflavíkurflugvöllur þjóni hinu flóknara flugi og sem varaflugvöllur og þá kalli slík breyting á Reykjavíkurflugvelli ekki á þá miklu fjárfestingu sem menn hafa haft áhyggjur af, því að hér sé ekki þörf fyrir fullbúinn alþjóðlegan millilandaflugvöll (Forseti hringir.) til að taka á móti umferðinni frá þessari einu flugbraut á Akureyri.