132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:13]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er afar áhugavert umræðuefni, þ.e. væntanleg eða fyrirhuguð lenging flugbrautar Akureyrarflugvallar sem er mjög mikilvægt. Ég hef setið marga fundi fyrir norðan, hagsmunaaðila og annarra, þar sem menn hafa rætt hvaða möguleikar mundu skapast með því fyrir stærri flugvélar og annað slíkt. Þetta hefur því verið afar athyglisverð og mjög nauðsynleg umræða.

Ég fagna auðvitað því sem hæstv. samgönguráðherra hefur sagt um þetta mál, um þarfagreiningu sem verið er að gera og skoðun sem er alveg eðlileg og jafnframt er verið að gera það gagnvart skipulagi Akureyrar. Mín skoðun er sú að við eigum að setja þetta saman við fyrirhugaðar framkvæmdir á Vaðlaheiðargöngum sem unnið er að og ég hygg að fari í framkvæmd 2007, vonandi ekki seinna en 2008. Og þá ættum við að nota útgröftinn sem kemur úr Vaðlaheiðargöngum í lengingu flugbrautarinnar og fylla þannig upp, vinna þannig með það sem við þurfum að koma fyrir, setja útgröftinn úr Vaðlaheiðargöngum í lenginguna á Akureyrarflugvelli og þá þarf ekki að dæla upp af botni Eyjafjarðar. (Gripið fram í.) Þetta er leið sem menn mundu segja að svínvirkaði og þess vegna hvet ég hæstv. samgönguráðherra til að setja þetta svona upp, að um leið og við byrjum á Vaðlaheiðargöngum hefjum við lenginguna á brautinni og vinnum þetta verk þannig. Og þá held ég að kostnaðurinn yrði ekki 471 milljón, heldur lægri.